13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í C-deild Alþingistíðinda. (1556)

234. mál, verkamannabústaðir

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég hafði hugsað mér að halda langa framsöguræðu, en býst nú við að sleppa því, þar sem nú er orðið svo áliðið fundartímans. Auk þess hlýt ég, af sérstökum ástæðum, að takmarka mál mitt mjög að þessu sinni, en mun þá síðar skýra þetta mál frekar, eftir því sem mér þykir við þurfa.

Frv. þetta fer í fyrsta lagi fram á það, að auka starfsfé byggingarsjóða með því að tvöfalda framlag ríkis og bæja til þeirra frá því, sem nú er. Í öðru lagi fer frv. fram á, að ríkissjóður ábyrgist að fullu, en með bakábyrð hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóða, þau lán, sem sjóðirnir kunna að taka til útlána, í stað þess, að nú ábyrgist ríkið að hálfu leyti slík lán. Í þriðja lagi, að hægt verði að nota veðdeild Landsbankans til þess að lána til verkamannabústaða, í stað þess, að það er ekki hægt nú. Í fjórða lagi, að verkamannabústaðir, sem byggðir eru samkvæmt þessum lögum, skuli undanþegnir fasteignagjaldi fimm fyrstu árin. Loks fer frv. í fimmta lagi fram á það, að sjóðirnir megi taka lán í erlendri mynt, sem ekki er sérstaklega leyft í gildandi lögum.

Ég býst ekki við, að því verði með rökum á móti mælt, að öll þessi atriði eru svo mikils verð, að þau verða að takast til rækilegrar athugunar, og ætla ég, að enda þótt sum þeirra kunni að valda deilum. Þá muni þau þó öll ná framgangi, er menn hafa nægilega hugsað málið og skilið þá ríku þörf, sem hér liggur að baki. Til dæmis má geta þess, að nýlega hefir Byggingasjóður Reykjavíkur fengið loforð um 200 þús. kr. lán erlendis, með mjög lágum vöxtum, 5%, og með 90% gengi, eða sem næst 5,78% raunverulegum vöxtum, og til 42 ára, sem eru langbeztu lánskjör, er fengizt hafa hér á landi í mörg ár. Þetta er nú að vísu ekki mikið fé, og enganveginn nægilegt, og þess vegna er hér lagt til, að sjóðunum verði gert mögulegt að fá lán úr veðdeild Landsbankans, með fullri ríkisábyrgð, og sömuleiðis að leyfðar séu lántökur í erlendri mynt með fullri ríkisábyrgið, því ella fást þau ekki. Ef þetta næði framgangi nú, þá væri hægt að byrja nú strax á þessu ári hér í Reykjavík og víðar.

Ég vil svo mega vænta þess, að hv. þdm. verði með því að vísa þessu máli til 2. umr., hvað sem að öðru leyti líður afstöðu þeirra til einstakra atriða frv.