08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í C-deild Alþingistíðinda. (1567)

246. mál, forðagæsla

Frsm. (Lárus Helgason):

Eins og kunnugt er, hefir skortur á fóðri búpenings hér á landi valdið meira tjóni en flest annað frá upphafi landsbyggðarinnar. Það hafa verið gerðar margar tilraunir til þess að koma í veg fyrir fóðurskort handa búpeningi fyrr og síðar. Að vísu hefir nokkuð orðið ágengt í þeim efnum, en hvergi nærri svo, að einhlítt sé. Öryggi búpeningsins er langt frá því nægilegt, hvað þetta snertir, enda þótt bændur séu nú orðið ekki eins flatir fyrir harðindum og áður var. Það hafa verið reyndar ýmsar leiðir til þess að afstýra fóðurskorti í sveitum landsins, t. d. hefir verið unnið að stofnun félaga til þess að koma á fót forðabúum, og er þetta að vísu í áttina, og sama er að segja um það, að hreppsnefndum hefir verið falið að sjá um, að búendur hefðu nægileg hús og fóður handa búpeningi sínum. En þessar tilraunir hafa ekki reynzt nægilega kraftmiklar til þess að afstýra vandræðum, þegar illa árar. Lög hafa verið sett um sérstaka forðagæzlumenn í sveitum, og hafa þau síðustu verið f gildi síðan 1913. Ég hefi orðið var við, og fleiri, sem kynnt hafa sér þetta mál, að þessi lög hafa ekki komið að tilætluðum notum. Forðagæzlumönnum er falið að gefa búendum holl ráð, en hinsvegar eru engar skyldur lagðar á búendur að hlýða þeim eða taka ráðleggingar þeirra til greina á einn eða annan hátt, og yfirleitt er forðagæzlumönnum ekkert vald gefið nema ráðgefandi. Landbn. þessarar hv. deildar hefir nú flutt frv. á þskj. 246 með það fyrir augum að bæta úr þessum ágöllum. Helztu breyt., sem frv. gerir á gildandi lögum, eru þær, að skoðun á forða búenda skal fara fram eigi síðar en fyrir miðjan október, til þess að mönnum sé mögulegt að ráða bót á því, ef of lítið fóður er til, með því að fækka fénaðinum eða afla fóðurs f tíma. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir tveim skoðunum, annari fyrri hlutar vetrar og hinni seinni hluta vetrar. Í framkvæmdinni hefir þetta oft reynzt svo, að fyrri skoðunin hefir ekki farið fram fyrr en á jólaföstu, en þá er um seinan að koma fénaði þeim, sem ofaukið er á fóðrunum, í verð eða bæta úr þessu á annan hátt. Þess vegna verður það að teljast tvímælalaust til til bóta að láta skoðunina fara fram innan þess tíma, sem tiltekið er í frv.

Önnur breytingin, sem þetta frv. gerir á núgildandi lögum, er sú, að svo framarlega, sem búandi hefir ekki farið að ráðum forðagæzlumanns um öflun fóðurs eða förgun fénaðar á tilsettum tíma. til þess að afstýra fóðurskorti, þá skal hreppsnefnd skipa tvo menn með forðagæzlumanni til þess að athuga á ný allt, sem að málinu lýtur. Að því loknu skal hreppsnefnd og forðagæzlumaður taka til frekari ráðstafana til þess að afstýra hættu um fóðurskort hjá búanda, sé um vondan ásetning að ræða að áliti skoðunarmanna.

Þriðja brtt. er um kaup forðagæzlumanna. Lögin frá 1913 ákveða dagkaup þeirra 2 kr., en það er nú sýnilega gamaldags, því að tvær krónur eru nú ekki lengur dagkaup fyrir nokkurn mann. Það er því óhjákvæmilegt að borga betur fyrir þennan starfa, ef hann á að verða að nokkru gagni. Eigi að síður hefir n. þótt eftir atvikum rétt að fara varlega í þessar sakir, og hefir því stungið upp á því, að dagkaupið skuli vera 6 kr., og er þar miðað við kaup sýslunefndarmanna. Þetta er að vísu ekki fullt kaup, en sú er trú n., að menn muni fást til þess að vinna þetta verk ekki síður vegna málefnisins heldur en vegna kaupsins, en hinsvegar virðist henni ekki rétt, að forðagæzlumenn þurfi að bíða fjárhagslegan skaða fyrir þessar sakir, sérstaklega ef þeir þurfa að kaupa mann í sinn stað til heimilisverka á meðan þeir eru að gegna starfi þessu.

Fjórða breytingin, sem felst í þessu frv., er sú, að auknar eru skyldur hreppsnefndar til þess að gera eitthvað til að fyrirbyggja fóðurskort í sínum hreppi og jafnframt er vald hennar í þeim efnum aukið. Í rauninni er þetta veigamesta breytingin, sem felst í þessu frv., en um leið hin sjálfsagðasta, ef löggjöf um þetta efni á að koma að nokkru gagni. Með þessu frv. er hreppsnefnd og forðagæzlumönnum gefið vald til þess að knýja fram þær ráðstafanir, sem þarf til þess að afstýra fyrirsjáanlegum vandræðum af fóðurskorti.

Það ætti ekki að þurfa að hafa fleiri orð um þetta mál; það er alveg ótvírætt nauðsynjamál og landbn., sem flutt hefir málið, er sannfærð um, að það sé til stórbóta, verði það að lögum. ég læt svo útrætt um þetta að sinni og vænti þess, að hv. deild taki máli þessu með sanngirni og velvild.