31.03.1931
Neðri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í C-deild Alþingistíðinda. (1594)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Flm. (Jón Ólafsson):

Ég þarf ekki miklu að svara í hinni hógværu ræðu hæstv. fjmrh. Sýndi hann skilning á hag Rvíkur. Ég vona, að hann verði þessu máli velviljaður, þegar hann hefir áttað sig á þessum atriðum.

Það eru tvær hliðar á þessu máli, áhætta og nauðsyn. Og ég býst ekki við, að hann geti fært þau rök fyrir áhættunni, að það vegi upp á móti nauðsyninni.

Það getur verið, að hæstv. ráðh. hafi ekki lesið frv. vel, því að hann er nýkominn á fundinn. En ef hann hefir tekið eftir 6. gr. frv., býst ég við, að hann muni taka öðruvísi í þetta. Ég kæri mig ekki um að lesa upp greinina, býst við, að allir hv. þdm. hafi frv. fyrir framan sig.

Fyrsta sporið í þessu efni verður að að koma upp orkuveri. Því að ef brunnurinn er ekki til, er vatn ekki til. Með þessu er örlagasporið stigið og grundvöllurinn lagður. Og ég vil segja, að það sé sleggjudómur hjá hæstv. fjmrh., að málið sé illa undirbúið.

Þrír af okkar færustu verkfræðingum, sem ég býst við, að stj. hafi skipað, hafa kveðið upp þennan dóm. Og einhversstaðar verður að byrja að kveða upp dóminn. Annars skildist mér á hæstv. ráðh., að þeir ættu að kveða upp eitthvert heildarplan. Auðvitað verður að byrja á einum fjórðungi fyrst.

Viðvíkjandi því, hvernig þetta mál er komið inn í deildina, vil ég segja, að menn eru misjafnlega kappsfullir, og þeir, sem þykjast hafa orðið undir í bili, vilja reyna að nota þann rétt, sem þeir hafa, til þess að koma sínum málum áfram, já kappsmönnum rís alltaf upp löngunin til þess að koma sínum áhugamálum að.

Þá minntist hæstv. fjmrh. á, að þessi 2 frv. okkar væru eingöngu hagsmunamál Rvíkur. Það má nú segja ýmislegt um það, hvort svo er eða ekki, en hvað sem því líður, þá ætla ég að leyfa mér að segja það, að hagsmunamál Rvíkur hafa undanfarið ekki verið að þvælast fyrir hér á Alþingi. Og ég býst við, að menn hér fái að hafa frið fyrir þeim í framtíðinni.