02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í C-deild Alþingistíðinda. (1598)

62. mál, rekstrarlánafélög fyrir bátaútveg og smáiðju

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þeir, sem að frv. þessu standa, hafa að vísu áður borið fram svipaða till. fyrir hið háa Alþ. Þær till. hafa þó eigi náð fram að ganga. Ég skal þó ekki neita því, að margar eðlilegar ástæður gætu legið að því. Sérstaklega sú ástæða, að hv. Alþ. hefir fram að þessu mjög þurft að beita sér fyrir því, að styrkja og styðja landbúnaðinn. En nú má vona, að það skipulag, sem á þau mál er komið, reynist svo haldgott, að við það megi una í bili. Er því meiri von til þess, að hv. Alþ. sjái sér fært að gera einhverja þá bragarbót, er megi að haldi koma sjávarútveginum, sem ekki á minni rétt á sér og er a. m. k. jafnnauðsynlegur þjóðinni og landbúnaðurinn, án þess að hann sé á nokkurn hátt rýrður með þeim samanburði.

Þar sem þetta mál hefir í svipuðu formi legið fyrir og verið rætt í hv. Ed. 1928 og 1930 hér í þessari hv. deild, þá sé ég enga ástæðu til að endurtaka þau rök, sem áður hafa verið færð fyrir nauðsyn lánsstofnunar fyrir smábátaútveginn og smáiðjuna. Ég veit, að öllum hv. þdm. eru kunnug þau rök, sem fyrir því liggja, að þetta frv. er borið fram. Og hafi einhver verið í vafa áður um þörf bátaútvegsins fyrir lánsstofnun, þá hafa yfirstandandi tímar áreiðanlega sannfært hann um hina bráðnauðsynlegu umbótaþörf á þessu sviði. Það er mála sannast, að þó ýms sund hafi lokazt hjá stórútgerðinni, þá hafa þó fleiri sund lokazt hjá smærri atvinnurekendunum. Svo er það hjá þeim, sem eiga hluta í vélbátum eða heila báta, eða þá einhverja smáiðju. Ég vil því vænta þess, að hv. þdm. líti á nauðsyn þessa mikla fjölda landsmanna, er á smáútgerðinni lifa, og taki svo vel í þessa málaleitun, að á þessu þingi verði hrundið af stað vísi til lánsstofnunar fyrir þennan hluta útvegsins.

Við flm. þessa frv. höfum að nokkru víkið frá því, sem var í frv. í fyrra. Þó er það frekar í smærri atriðum. Þó leggjum við nú til, að nokkuð verði víkkað starfssvið þessarar lánsstofnunar, miðað við það, sem lagt var til í fyrra. Þá höfum við og nokkuð hækkað hámark lána og einnig þá upphæð, sem ríkið á að ábyrgjast fyrir þessa lánsstofnun. Ég held, að allir þeir, sem þekkja hag þeirra manna, sem lánin eiga að ná til, muni telja, að þessar breyt. séu til bóta.

Ég vil geta þess, að fyrir mína vangá hefir slæðzt inn villa við uppprentun frv., sem ég vil mega vænta, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, leiðrétti. í frv. í fyrra var gert ráð fyrir, að lánsstofnun þessi starfaði í sambandi við Fiskiveiðasjóðinn eða aðrar lánsstofnanir. Nú er það meining okkar flm. að leggja til, að þessi lánsstofnun starfi eingöngu við Fiskiveiðasjóðinn, en engar aðrar lánsstofnanir. Er því niðurlag 1. mgr. 9. gr. frv. óþarft og á að falla burt.

Eins og hv. þdm. er ljóst af frv., þá er ætlazt til, að smábátaeigendur og þeir, sem reka smáiðju í sambandi við útgerð, geti myndað lánafélög, þar sem allir félagsmenn eru ábyrgir „in solidum“ fyrir upphæð lánanna. — Nú hefi ég lítilsháttar heyrt ymprað á því, að undarlegt sé, að þeir menn, sem telja sig vera móti ótakmarkaðri samábyrð, skuli koma fram með slíkt ákvæði. En ég vil geta þess, að æðimikill munur er á þeirri tegund samábyrgðar, sem í frv. þessu felst, eða þar sem slík ábyrgð er bundin við ótakmarkaðan fjölda manna, þar sem enginn þekkir annan né veit um efnahag og ástæður félagsmanna sinna. Það er mikið djúp staðfest milli þeirrar samábyrgðar og ákvæða þessa frv. Þar er aðeins um smáfélag að ræða, þar sem hver þekkir annan og veit um getu hvers eins félagsmanns.

Þegar svo er ástatt, að ábyrgðin er takmörkuð innan svo þröngs hrings, er sú hætta, sem af samábyrgðinni leiðir, hverfandi og ekki nefnandi í sambandi við hættuna almennt af ótakmarkaðri samábyrgð. Þetta vildi ég í eitt skipti fyrir öll benda á fyrir hönd flm. gegn þeirri aths., sem einstöku sinnum hefir stungið upp höfðinu, að við færum hér fram á samábyrgð, sem væri óhæf að okkar dómi, sbr. aðstöðu okkar til ótakmarkaðrar samábyrgðar.

Líklega er ekki þörf á að fara hér um fleiri orðum að þessu sinni. Ég vil mælast til þess, að þessu máli verði vísað til hv. sjútvn., vegna þess að það eru hagsmunir sjávarútvegsmanna, sem hér er um að ræða, hagsmunir, sem mér virðist, að hið háa Alþingi hljóti að sinna, ekki síðar en á þessu þingi, og hafa verið flutt nægileg rök fyrir því í hv. d. á sínum tíma.

Eins og vitanlegt er, er það enn sem komið er sjávarútvegurinn, sem ber uppi allan meginþunga af sköttum til ríkissjóðs. Mér virðist því, að till. til þess að greiða götu þessarar atvinnugreinar hljóti að eiga rétt á, að þeim sé gaumur gefinn af Alþingi, sem þessi mikilsverða atvinnugrein á fullkomlega skilið.