31.03.1931
Neðri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í C-deild Alþingistíðinda. (1603)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Flm. (Jón Ólafsson):

Það hafa nú 2 hæstv. ráðh. látið til sín heyra um þetta mál. Við, sem fluttum frv., höfðum búizt við því, að þeir tækju í málið af skilningi á hag þeirra manna, sem að þessu eiga að búa, og á hag landsins í heild sinni. Í stað þess veður hæstv. dómsmrh. út í allt aðra sálma. Hann komst út um alla heima og geima, eins og hans er vandi, án þess að komast nokkurntíma að efninu. En báðir ráðh. eiga það sammerkt í þessu máli, að þeir vara við fjárhættunni, sem er harla einkennilegt af þessum mönnum. Vitanlega veit ég það af minni reynslu, að þegar einhverjir hafa gert það verk, sem þeir vilja flýja, þá verða þeir fyrstir til að vara við því. En í þessu tilfelli, þó að þeir hafi farið illa með fé ríkissjóðs, er það ekki nema hefnd á hefnd ofan, að vera hræddur við skuggann sinn, að þora ekki að leggja landinu fé. Þeir eru of smáir fyrir það, sem þeir eiga að fara með, verða hræddir og flýja svo af vellinum frá sínum eigin verkum. Hræðslan er svo mikil, að þeir þora ekki að horfa á afleiðingar af verkum sínum. Sálarsýki þeirra og lítilmennska er svo mikil, að þeir þora ekki að horfa á sín eigin spor, þora ekki að halda áfram þeirri stefnu, sem bjartsýni þeirra blés þeim einu sinni í brjóst, þora ekki annað en að flýja þá leið, sem fer með þjóðina til glötunar, úr því að þeir hafa stigið þau spor, sem þeir hafa stigið síðustu 3 árin. Út í þessi mál fór hæstv. dómsmrh. lítið, en þó nóg til þess að taka nokkuð af þeim upp. Að vísu hefir hv. 2. þm. Reykv. hrakið allmikið af þeim fjarstæðum, sem þar komu fram, og ætla ég ekki að snúa mér að þeim atriðum. En það, sem skín út úr þessari ræðu hæstv. dómsmrh., er persónulegur illvilji til málsins. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að sérfræðingar álitu, að það hefði óbærilegan kostnað í för með sér að leiða rafmagn út um sveitirnar. En það er víst, að með því móti að eiga aðgang að Soginu geta sveitirnar fengið ódýrast rafmagn. Eftir orðum hæstv. dómsmrh. verður taugakerfið svo dýrt úti um landið, að það er vonlaus hlutur fyrir sveitirnar að komast svo langt, að þær megi hugsa til þess. Ég tek þetta ekki alvarlega, hann er aðeins að leiða yfir þetta mál, sem margir gera sér miklar vonir um og fjöldi landsmanna þráir, vonleysi, sem er óbótaverk fyrir málið á byrjunarstigi. Þess vegna tek ég þetta hart upp. Það er ekkert í frv., sem leggur kvaðir á héruðin, heldur þvert á móti. Þeim er heimilt, þegar Rvík. hefir lagt grundvöllinn og grafið grunninn, að ganga í fyrirtækið með kostnaðarverði, að viðbættum 10%. Annars geta þær látið það vera þangað til þeim sýnist. Þetta verður vitanlega miklu ódýrara en ef þær ættu að eiga við þetta sjálfar og sumstaðar eru heldur engin tækifæri til þess. Hæstv. dómsmrh. var að tala um það, að þetta yrði skrifað á skuldalista ríkissjóðs. Ég held, að það megi gizka á það, að þetta yrði skrifað á hann að nokkru leyti, en sá er munurinn á þessum og mörgum öðrum skuldum ríkissjóðs, að þetta fé gefur af sér margfaldan gróða. Þess vegna, þegar meta á gjaldgetu ríkja yfirleitt, fer það ekki eftir því, hvað skuldirnar eru miklar, heldur eftir því, hvað mikil getan er til að greiða skuldirnar, sem á þeim hvíla. Ég held, að þetta yrði til að bæta, en ekki til að spilla fyrir lánstraustinu, því að ráðleysi hverrar þjóðar er hræðsla við að verja peningunum í ágóðafyrirtæki.

Er það dauðamark, sem gerir það að verkum, að aðrir trúa henni ekki fyrir peningum.

Hæstv. dómsmrh, ruglaði öllu saman, Árnesingum og silungunum í Soginu o. s. frv. Ég held, að réttindi Árnesinga séu svo trygg í lögunum, að ekki þurfi að fara mörgum orðum um það.

Hæstv. dómsmrh. vildi í þessari ræðu sinni þyrla upp eins miklum óhróðri um Rvík og hægt var að koma að í þessari soraræðu. Hann sagði, að bænum hefði verið illa stjórnað síðustu áratugi. En það er viðurkennt, að fáum hreppsfélögum hefir verið eins vel stjórnað og Rvík og í fáum hreppsfélögum eins lítið af skuldum. Það er von, að hæstv. dómsmrh. vilji halda áfram að ganga þá braut, sem er honum til smánar og minnkunar, þegar hann þyrlaði því upp, að borgarstjóri væri þjófur og falsari. Þetta er það ljótasta bragð, sem dómsmrh. hefir gert í pólitískum tilgangi, til þess að koma að manni. Þessi aðferð er þess eðlis, að hún hefði sízt átt að koma úr þessari átt. Það er ekki neitt sérstakt sport í því að fá þetta beint frá ráðherra, sem verður síðan, sér til mikillar smánar, að renna á rassinn með allt sem rakalausan og tilhæfulausan uppspuna. Það er ekki sparað að fórna borgurunum til þess að koma fram soranum, sem við og við rignir yfir þjóðina frá þessum ráðh. Það má ekki minna vera en að mál svo sem þetta mæti fullri kurteisi og velvild frá stj. Það eitt út af fyrir sig er ekki nema rétt og sjálfsagt. Og á þann hátt fór hæstv. fjmrh. að málinu.

En dómsmrh. sýndi því fulla óvináttu í einu og öðru, og það er sjálfsagt af þeim sömu orsökum, sem liggja til grundvallar fyrir mörgu öðru athæfi þessa manns. Hann kallar málið illa undirbúið. Ég verð að segja það, að ef hann hefði nokkurntíma á sinni ráðherratíð undirbúið nokkurt frv. eins vel og þetta, þá mætti hann vera hróðugur. Þeir sem hafa undirbúið málið eru verkfræðingar og margir aðrir skynugir menn, og þar á meðal hæstv. fjmrh., sem er nýgenginn úr nefndinni. Ég álít málið þrautundirbúið af bæjarins hendi og síðar athugað af þessari nefnd, raforkumálanefnd, sem í rauninni var öflugasti hvatamaður þessa frv., sem hér liggur fyrir, að öllu rækilega athuguðu. Það er ekki alveg eina ráðið til þess að komast út úr ógöngunum að vera hræddur við sinn eiginn skugga og flýja hann, svo sem nú á sér stað um hina hrelldu sál hæstv. dómsmrh.