31.03.1931
Neðri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í C-deild Alþingistíðinda. (1604)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki vera langorður, en það, sem kom mér til þess að standa upp, voru ummæli hæstv. dómsmrh. um, að þetta mál kæmi sveitum landsins ekkert við. Hér væri eingöngu hugsað um Rvík. Undir það sama tók hæstv. fjmrh., þar sem hann sagði, að þessu máli miðaði ekkert áfram fyrir sveitirnar, þó að frv. yrði samþ. Hvernig er unnt að halda því fram, að þessu máli miði ekki áfram fyrir sveitirnar, þegar svo stórt orkuver er byggt, að mikill hluti landsins getur komizt í raforkusamband með því að leggja taugar þangað og fá rafmagn með kostnaðarverði, að viðbættum 10%. Fyrsta sporið er að byggja þetta orkuver, sem hér er farið fram á, og á þá leið, að þetta stóra og dýra orkuver yrði byggt fyrir kostnað og ábyrgð Rvíkur, sem á að standa straum af því eingöngu. Þá fyrst, þegar sveitirnar sjá sér fært að ganga í þetta, gera þær það, en eru sjálfráðar hvenær.

Öllu hagfeldari undirbúningur fyrir sveitir landsins en þessi getur alls ekki átt sér stað. Það er ómögulegt, að neitt geti verið sveitunum betra en sú aðferð, að láta aðra byggja orkuverið og ganga síðan inn í virkjunina með þeim réttindum, sem ákveðin eru í frv., þegar þær sjá sér hag í því.

Það er þess vegna algerlega rangt, að hér sé verið að yfirgefa málstað sveitanna. Það er svo í þessu máli, að sveitirnar hljóta að hafa gagn af þeim stövum, þar sem margmennið er. Mér er ljóst, að í strjálbýlum sveitum getur ekki orðið af veitum, nema með aðstoð þeirra sveitarfélaga, sem fjölmennari eru. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er byggt á því að reisa eina stóra stöð við bezta fallvatnið, sem til er í Evrópu, og leiða þaðan taugar vestur um, austur um og norður um. Og ég hefi það fyrir satt, að rafmagnið megi leiða allar götur milli Skaftafellssýslna og Snæfellsness- og jafnvel Dalasýslu. Það þykir kannske löng leiðsla, en þeim, sem þekkja til þess, að sum lönd verða að sækja rafmagn til annara landa, getur ekki ofboðið þetta.

Ég þarf ekki að svara því, er hæstv. dómsmrh. var að tala um, að hér væri verið að ráðstafa eignum ríkisins án þess að spyrja hinn rétta aðila. Það er búið að taka fram, að Alþingi og enginn annar er sá rétti aðili.

Það eru smámunir einir að tala um þessa vegalagningu, sem getur um í frv., og ef það fer sérstaklega fyrir brjóst hæstv. stj., þá skal ég gjarnan til samkomulags strika það út úr frv. En ég held, að sanngjarnari grundvöll sé ekki hægt að finna en að láta Rvík borga helminginn og ríkið helminginn.

Hæstv. ráðh. sagði, að Rvík mundi sennilega geta fengið lán, og hún gæti staðið undir þessu láni sjálf. Þetta getur vel verið, um það skal ég ekkert fullyrða. En fyrir sveitirnar, sem ætla að hafa not af virkjuninni, er það alls ekki hagkvæmara, að Rvík eigi hana ein og geti sett sveitunum skilyrði.

Það er stór kostur við þetta frv., að gengið er út frá því, að sveitirnar geti gengið inn í fyrirtækið, þegar þær vilja, og þurfa þess vegna ekki að taka á sig neinar lántökur eða ábyrgðir vegna byggingar á orkuverinu sjálfu. Hitt veit ég, að til tauganna þarf að leggja fé, og ég ætlast til þess, að ríkissjóður ábyrgist kostnaðinn af því, sem mundi verða 23 millj. kr.

Ég veit ekki, til hvers hæstv. ráðh. var að tala um lán, sem Bergen fékk í haust. Það lán var með miklu betri kjörum en það, sem íslenzka ríkið tók, og ekki er hægt að búast við, að Rvík fái hagkvæmara lán en landið í heild sinni. En ég geri mér í hugarlund, að bærinn fengi nokkru lægri vexti, ef ríkið gengi í ábyrgð. Þó að ríkið gengi í ábyrgð, verður það ekki skoðun skuld ríkissjóðs. Og ég er viss um, að allir fjármálamenn munu skilja, að lán, sem tekið er til fyrirtækis, sem heldur sér sjálft uppi, er allt annað en eyðslulán. Yfirleitt er ábyrgð fyrir slíkum lánum talin form og ekkert annað.

Hæstv. ráðh. talaði um, að það væri hættulegt frelsi landsins út á við, ef gengið væri í þessa ábyrgð. Það er þá hættulegt að hans áliti, að landsmenn taki bezta fallvatnið í Evrópu og fari að virkja það. Það er meining ráðh., að þetta fallvatn fái að belja enn um hundruð ára, engum til nota. Það á að vera mesta menningarmerkið á okkur. En ég er á gagnstæðri skoðun. Útlendingar undrast ekki, að sú mannræna sé í okkur, að við látum þá ekki lengur ónotað. Og þegar þeir sjá, að við förum að færa okkur það í nyt, þá finnst þeim það vissulega bera vott um manndóm, en ekki ræfilshátt. Það er eitt drýgsta sporið fyrir sjálfstæði landsins, að leggja í fyrirtæki, sem jafnframt því sem þau bera sig sjálf, valda því, að við förum að kaupa minna frá útlöndum og verðum fremur sjálfum okkur nógir. Þetta eru hin sönnu sjálfstæðismál.

Nei, andstaða hæstv. ráðh. gegn þessu máli er andstaða gegn raforkuveitunum, andstaða, sem hann hefir sýnt frá því fyrst, er þetta mál kom fram. Það var hann fyrstur manna, sem reyndi að kasta tortryggnisblæ yfir það mál, og hann heldur því áfram.

Ég hefi talað við ýmsa menn, sem hafa komið upp hjá sér rafstöðvum með ærnum kostnaði, og þeir hafa sagt, að það væri allt annað líf fyrir þá, síðan þeir fengu rafmagn og öll þau þægindi, sem því fylgja. Og það er mín fyllsta sannfæring, að fyrir sveitir þessa lands, og til þess að halda fólkinu þar, sé alls ekkert hægt að gera, sem sé þeim til meira gagns en að veita raforku þangað.

Hæstv. ráðh. ræddi talsvert um, að Rvík hefði ekki verið vel stjórnað. Ég verð að viðurkenna, að ég er ekki svo þaulkunnugur því, að ég þori um það að dæma. En hitt þori ég að segja með fullri vissu, að Reykjavíkurbæ hefir verið miklu betur stjórnað heldur en málefnum ríkisins síðastliðin þrjú ár.