04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í C-deild Alþingistíðinda. (1632)

70. mál, sundhöll í Reykjavík

1632Flm. (Jón Ólafsson):

Ég hefi ekki í höndum þær bréfaskriftir, sem fóru milli hæstv. dómsmrh. og borgarstjóra Reykjavíkur. En ég má þó fullyrða, að um þetta varð fullt samkomulag. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefir gengið inn á að hækka tillag ríkissjóðs til sundhallarinnar, en ég býst við, að það hafi verið látið óumtalað, en þinginu verið ætlað að skera úr um, hver skylda ríkissjóði bæri til þess að hækka tillagið.

En það, að þetta fyrirtæki varð miklu dýrara en áætlað var í upphafi, var af því, að hin upprunalega áætlun var samin af algerðu þekkingarleysi um þarfir þessarar íþróttar. Húsameistari og bæjarverkfræðingur voru því látnir sigla. Síðan komu íþróttamenn bæjarins og sögðu þetta og hitt, og þeir höfðu hina „praktísku“ þekkingu á málinu. Allt hefir þetta hjálpazt að til að koma þessu mannvirki í það verð, sem ég hefi nefnt í fyrri ræðu minni og sem er áætlunarverð, sem búizt er við að standist. Og fyrst verið er að ráðast í verkið, er sjálfsagt að gera það svo úr garði, að ekki þurfi að brjóta það niður á næsta ári.

En úr því að bæði húsameistari og bæjarverkfræðingur og íþróttamenn eru orðnir sammála um, að svona skuli það vera, þá held ég, að það sé komið í allgott horf. Og ég á bágt með að trúa því, fyrr en ég tek á, að þessi hv. d. standi ekki við sín loforð og þann ádrátt, sem kom inn í lögin frá hv. menntmn. þessarar deildar.