01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í C-deild Alþingistíðinda. (1639)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. þm. G.-K. segir, að sú ábyrgð, sem hér er um að ræða, sé aðeins formsatriði. Hv. þm. drap ekki á það, hvort þetta mundi verða formsatriði eftir eitt eða fleiri ár, þegar farið verður að tala um það, að ríkið taki á sig ábyrgð í þessu skyni vegna þess kjördæmis, sem hann er nú fulltrúi fyrir, en verður ekki eftir næstu kosningar. (ÓTh: Ég skora á hæstv. ráðh. að koma og reyna við mig). Því miður get ég ekki orðið við þessari ósk hv. þm., því að ég er bundinn við kjördæmi, sem er enn stærra og glæsilegra en kjördæmi hv. þm., nefnilega allt Ísland. — Það er ekki hægt að búast við því, að fólkið í sveitunum suður með sjó hafi það meiri peningaráð en Reykjavík, að það þurfi ekki á ríkisábyrgð að halda, þegar rafmagnsmálið kemur þar á dagskrá. Ég býst ekki við því, að hv. 2. þm. G.-K. hafi aukið svo lánstraust kjördæmis síns, að honum alveg ólöstuðum. Og sömu sögu verður að segja úr öðrum sveitum landsins. Það er því fjarstæða út í loftið, að um hreint formsatriði sé að ræða, þegar fara á að ganga inn á þessa ábyrgðarbraut, því að ef ríkið tekur á sig ábyrgð í þessu skyni fyrir eina sveit, koma aðrar sveitir á eftir. Og það er líka sannreynt, að ekki er til svo vesæll maður, sem biður annan mann að skrifa upp á víxil fyrir sig, að hann segi ekki: „Ég er borgunarmaður fyrir þessu, þú þarft aldrei að borga“. En hyggnir menn vita, að mjög mikið af þessu eru fullyrðingar, og gæta sín því að skrifa sig ekki fyrir meiru en þeir eru færir um að borga. Þeir hafa reynt það, að uppáskriftin er ekki formið eitt.

Hv. þm. sagði, að lítið væri eftir af landinu, ef Rvík yrði gjaldþrota. Ég vil þá geta þess, að ¾ hlutar landsmanna bíta utan Rvíkur, og þeir eru líka menn. Og ef Rvík hefir mestar tekjur, þá finnst mér, að hún geti því frekar tekið lán sitt sjálf. Þessi ábyrgð minnkar lánstraust ríkisins um 7 millj. kr., eða það, sem hún nemur, og má þá búast við, að erfitt verði fyrir ríkið að hreyfa sig um lán í náinni framtíð.

Af hverju stafa nú þessi vandræði, að t. d. Ísafjörður og Eskifjörður geta ekki fengið lán innanlands, og hvert hafa þeir peningar farið, sem til hafa verið í landinu? Yfir 30 millj. hafa farið til einskis, í fjárglæfra hjá fáeinum mönnum, og þess vegna hefir landið orðið að nota sitt eigið lánstraust, til þess að rétta við hann voða, sem þessir fjárglæframenn hafa orsakað. Aðalveilan í þessu frv. er sú, að hér er blandað saman hagsmunum landsins og sveitarfélaganna. Rvík á að sjá um sig, alveg eins og landið á að leysa sin mál sjálft. En ef það á að fara að blanda þessu saman, t. d. með því að landið leysi öll vandræðamál hvers sveitarfélags, þá er búið að breyta þjóðskipulaginu mikið.

Hv. þm. sagði, að 6 sýslum landsins væri boðið upp á þessi fríðindi. En hvar eiga þá þessar sýslur að fá fé til þessa, ef Rvík, sem bezta hefir aðstöðuna, getur ekki aflað sér fjár sjálf? Þær verða auðvitað að fá það hjá landinu, ef það gengur í ábyrgð fyrir Rvík. Svo er heldur ekki víst, að nokkur af þessum sýslum kæri sig um að fá rafmagn með þeim kjörum, sem hér verður um að ræða.

Hv. þm. sagði, að krafan um rafmagn handa almenningi væri orðin almenn. Þetta er alveg rétt. Ég efast ekki um, að sérhver maður á landinu vildi fá rafmagn í hús sitt. En það er eins og máltækið segir: „Ef óskir væru festar, þá mundu betlarar skella á skeið“. Þótt þetta sé eftirsóknarvert, þá gæti það verið vafasamt, hvort vanrækja á allt annað og setja allt lánstraust og allt fjármagn í rafmagn. Mér dettur í hug ábyrgðin, sem tekin var hér fyrir Kárafélagið á árunum. Það var sagt, að það væri ákaflega saklaust að ganga í þá ábyrgð. (MG: Hver tók þá ábyrgð?). Það var ábyrgð frá þinginu, sem hv. 1. þm. Skagf. barðist fyrir. (MG: Það er ósatt. Það var hv. Framsóknarflokkur, sem gerði það, og það meira að segja heimildarlaust). Þetta var á sama tíma og hv. 1. þm. Skagf. var með sinn ágæta sendiherra, Andersen, á ferðalagi erlendis.

Hv. þm. sagði, að Framsóknarflokkurinn hefði verið ógætinn að taka ríkisábyrgð á Landsbankanum. Ég vil þá geta þess, að sú ábyrgð hefir staðið frá því 1885. Aðeins fáeinum gálausum mönnum datt í hug að leggja þá ábyrgð niður, til þess að hjálpa Íslandsbanka. Þegar Íslandsbanki var í vandræðum, rétt áður en hann gaf upp andann, héldu sumir, að hægt væri að telja mönnum trú um, að landið bæri ekki ábyrgð á Landsbankanum, og því var það rétt gert að viðurkenna það, eins og líka var, að landið ætti

bankann. Þetta er því sama vanþekkingin hjá hv. þm. og allt annað.