06.03.1931
Neðri deild: 17. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (1667)

83. mál, styrkveiting til íslenskra stúdenta við erlenda háskóla

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Eftir því, sem næst verður komizt, stunda nú um 90 íslenzkir stúdentar nám við erlenda háskóla, en af þeim eru aðeins 28, sem njóta styrks af opinberu fé. Sextán þeirra hafa háskólastyrkinn svonefnda, en hann er veittur til fjögra ára, 1200 danskar kr. á ári. Tólf höfðu styrk af því fé, sem menntamálaráð hefir til umráða, 1000 kr. íslenzkar á ári hver, en þeir hafa ekki neina tryggingu fyrir að halda styrknum visst árabil. — Það, sem farið er fram á í þessu frv., er, að jöfnuður sé gerður með þeim stúdentum, sem styrks njóta, þannig, að allir fái jafna upphæð, 1000 danskar kr. eða 1200 íslenzkar kr., veittar til 5 ára, ef þeir hafa ekki hætt námi eða lokið prófi innan þess tíma.

Fyrir ríkissjóð mundi breytingin hafa það í för með sér, að í staðinn fyrir 36 þús. kr., sem ríkissjóður nú leggur fram. yrði upphæðin 42 þús. kr. á ári, eða 6000 kr. hærri. Fyrir stúdenta yrði sá munur, að þá nytu 35 styrksins á ári, í stað 28 nú, og hver þeirra hefði styrkinn tryggðan í 5 ár nema hann hætti eða lyki fyrr námi. Þó að frv. verði samþ., fær ekki nema röskur þriðjungur þeirra stúdenta sem nám stunda í útlöndum, þennan styrk. Margir virðast þeirrar skoðunar, að eðlilegast og heppilegast væri, að flestir ísl. stúdentar stunduðu nám við háskólann hér heima. Ég er á annari skoðun um það. Ég held, að okkur sé mikill fengur að því, að uppvaxandi starfsmenn og menntamenn þjóðarinnar bregði sér út yfir pollinn og kynni sér hætti og hagi annara þjóða betur en þeir eiga kost á hér. Önnur hlið málsins er þessi: Ríkissjóður leggur stórfé til háskólans hér heima árlega, auk stofnkostnaðar alls. Framlagið til hans nemur nú 150–160 þús. kr. á ári, og geta menn af því reiknað, hversu mikilli upphæð það nemur fyrir hvern mann, sem þar stundar nám. Þó getur háskólinn okkar vitanlega ekki bætt úr allri kennsluþörf. Fjöldi nauðsynlegra fræða er þar alls ekki kenndur, og margir stúdentar eru því neyddir til að leita til erlendra háskóla. Við því er ekkert að segja. En það er rétt, að þeir, sem utan fara, séu styrktir tilsvarandi við hina, sem nám stunda hér heima, ef talið er, að nám þeirra sé gagnlegt fyrir þjóðina og þeir verðir styrks og þurfi hans. Til þessa mun engum stúdent hafa verið veittur styrkur til náms erlendis í þeim greinum, sem hægt er að nema hér til fullnustu og taka próf í, og ég geri ekki ráð fyrir, að það verði fremur, þó að frv. þetta verði að lögum. Orðlengi ég svo eigi um frv., en mælist til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til menntmn.