06.03.1931
Neðri deild: 17. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í C-deild Alþingistíðinda. (1679)

84. mál, læknishéraðasjóðir

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, er það næsta títt, að héruð séu læknislaus skemmri eða lengri tíma, og það vill brenna við, að þetta komi einmitt niður á sömu héruðunum hvað eftir annað. Afskekktustu, erfiðustu og strjálbýlustu héruðin verða jafnan verst úti í þessum efnum. Samkv. lögum fá nágrannalæknar, ef þeir eru settir til að þjóna læknislausu héraði, helming embættislaunanna. Hitt sparast þá ríkissjóði. Sé enginn þjónandi læknir í héraðinu, sparast launaupphæðin öll. Læknislaunin má í raun réttri telja framlag ríkissjóðs til heilbrigðismála í hlutaðeigandi héruðum, og nær því engri átt að taka þau af þeim héruðum, sem oftast eru læknislaus og þarfnast mest umbóta á heilbrigðismálum sínum.

Frv. fer fram á, að embættislaun, sem ekki þarf að greiða þjónandi lækni, gangi í sjóð, sem verður eign hlutaðeigandi héraðs og varið skal til að tryggja það, að héraðið sé sem sjaldnast læknislaust. Má hugsa sér, að það fé verði notað til þess t. d. að koma upp læknisbústöðum. Mér kemur einnig til hugar, að samgöngutæki gætu komið sér vel. Á einum stað, þar sem ég þekki til, við Ísafjarðardjúp, í Nauteyrarhéraði, væri það mikill munur fyrir lækni, ef hann hefði góðan mótorbát. Þyrfti þá oft ekki annað en hringja til hans og biðja hann að koma. Annarsstaðar henta bifreiðar bezt. Ótalmargt fleira mætti benda á, enda verður það líklega minnstur vandinn að finna eitthvað til að gera fyrir peningana. Þess má geta, að af þessu leiðir engin útgjöld fyrir ríkissjóð umfram áætlun fjárlaga, því að þar er reiknað með fullum embættislaunum í öllum héruðum. — Ég óska, að frv. gangi að lokinni umr. til allshn.