18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í C-deild Alþingistíðinda. (1681)

51. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum o. fl.

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Hv. minni hl. allshn. hefir nú skýrt aðstöðu sína til frv. og fært fram rök fyrir sínu máli. Virðist hann algerlega mótfallinn því, að bæir og kauptún fái rétt samkv. ákvæðum frv. til lóða, lendna, húsa eða annara mannvirkja, sem bæjum væru nauðsynleg til umráða, og færir hann aðallega fram sem ástæðu fyrir andstöðu sinni gegn frv. það, að þegar séu til nægilegar heimildir í lögum til þess, að bæjarfélog geti tekið eignarnámi þær eignir, sem þau hefðu þörf fyrir að fá til umráða. Ég held, að ræðumaður misskilji þetta leyfi, sem gefið er í 63. gr. stjskr. til þess að taka eignarnámi vegna almenningsheilla. Bæir eða kauptún eiga þess engan kost að fá sér dæmdar samkv. ákvæðum stjskr. jarðir, þó að mikil líkindi væru til, að hagur væri fyrir bæinn eða kauptúnin að eignast þær, þó hægt sé eftir eignarnámsheimild að fá hinu opinbera dæmdar smálóðir jafnóðum og þörf er að taka þær til afnota. Það má vera, að sumir líti þannig á, að það hafi ekki verið hyggilegt af bæjarstjórn Akureyrar að kaupa allar þær jarðir, sem hún keypti fyrir bæinn fyrir allmörgum árum. En afleiðingin af þessum jarðakaupum er sú, að þar eru nú engin vandræði með lóðir til bygginga eða lönd til jarðræktar. Og ég er á þeirri skoðun, að sú framsýni bæjarstjórnar Akureyrar á sínum tíma að kaupa fyrir bæjarfélagið jarðirnar Stóra-Eyrarland, Hamarkot, Kjarna, Naust, Bændagerði og Mýrarlón, hafi orðið Akureyri giftudrýgri heldur en ef þar hefði ráðið menn með skoðunum hv. ræðumanns á þessu efni.

Hv. ræðumaður minntist á Oddeyrina hér í þessu sambandi. Ég býst við, að ég sé fullt eins kunnugur og hann og geti eins vel gefið upplýsingar í því máli.

Oddeyrin er lítill hluti þess lands, er Hamarkot átti, og fyrir löngu síðan seld Hinum sameinuðu ísl. verzlunum fyrir 800 kr. Er það næst síðasta sala á Oddeyrinni, en síðasta salan er til bæjarfélagsins og verðið þá rúmar 100 þús. kr. fyrir nokkurn hluta Oddeyrarinnar. Þykir það vera allhátt verð fyrir aðeins nokkurn hluta þeirrar eignar, sem eigi alls fyrir löngu var seld á 800 kr. Kaupin urðu á þann hátt, að Ragnar Ólafsson keypti alla Oddeyrina af verzlununum og seldi síðan bænum nokkurn hluta hennar fyrir áðurnefnt verð.

Aðstaðan var þannig, að áður en Oddeyrin fór úr eign Hinna sameinuðu ísl-verzlana, þurfti Akureyrarbær að láta byggja bryggju og gera uppfyllingu, sem að nokkru leyti varð fyrir landi verzlananna; varð þá landaþræta milli bæjarins og Hinna sameinuðu ísl. verzlana út af landamerkjum. Ef kaupin á Oddeyrinni hefðu ekki verið útkljáð áður en gengið var frá þessu, þá hefði sennilega orðið úr því flókið og alvarlegt landamerkjamál. En úr þessu greiddist með kaupunum á Oddeyri, því þá varð bærinn eigandi að því landi, sem þrætan stóð um. Enginn, sem til þekkir, mun efast um það, að eðlilegt og heppilegt var, að Akureyrarbær eignaðist Oddeyrina. Land Akureyrar umlykur Oddeyrina á þrjá vegu. Sá, sem eignina keypti, Ragnar Ólafsson, var líka sannfærður um, að svo bæri að vera, og seldi þess vegna bænum mestan hluta eignarinnar.

Nú hygg ég, að ekki sé hægt að taka slíka eign sem þessa eignarnámi. Það munu engin fordæmi vera fyrir því, að margar lóðir og hús séu tekin eignarnámi í einu, enda þótt um almenningsheill geti verið að ræða, eins og þarna átti sér stað. En mér finnst ekki nema eðlilegt, þegar um sölu á miklum verðmætum eignum er að ræða, að bæjarfélög geti eignazt þær, enda þótt bráð nauðsyn sé ekki fyrir hendi til að nota þær þá þegar. Nú var það svo, þegar Ragnar Ólafsson seldi Akureyri, að þá var það ekki nema hluti af eigninni. Verðmætar lóðir, er eigninni fylgdu upphaflega, voru undanskildar.

Þótt máske séu óvíða jafnríkar ástæður fyrir hendi um að bæjarfélog kaupi eignir eins og var fyrir Akureyri að eignast Oddeyrina, þá eru þó víða nokkuð hliðstæð dæmi. Og svo ég taki annað dæmi frá sama stað, þá er núna verið að selja stóreign, bæði að landi og byggingum, sem stendur við höfnina á Akureyri. Er það eign Höepfners-verzlunar. Á þessari eign hefir bærinn engan forkaupsrétt. Ég vil að vísu ekki fullyrða, að bænum sé áhugamál að ná kaupum á þessari eign. En þó svo væri, er það ekki hægt. Úr því væri bætt, ef frv. þetta verður samþ. Ég gæti ennfremur nefnt fleiri dæmi frá sama stað. En ég veit, að nóg er til af samskonar dæmum frá öðrum kaupstöðum og kauptúnum.

Þá virðist kenna nokkurs ótta háa hv. 4. landsk. um, að bæjarstjórnir myndu misnota þetta vald og útiloka þar með einstaklinga frá atvinnurekstri. Þetta er algerlega tilbúin grýla. Ef þetta væri á rökum reist, þá væri það undir þeim kringumstæðum, að um eina staðinn væri að ræða til þess atvinnurekstrar og ekki nokkurn annan, sem kaupandinn ætlaði að reka atvinnu á. Undir þeim kringumstæðum væri um einokun á atvinnurekstri að ræða, og hygg ég þá, að betur væri séð fyrir hag bæjarbúa með því að bærinn sjálfur tæki að sér reksturinn á þessari atvinnugrein, heldur en að hann væri í höndum einstaklinga. Þetta verða því meðmæli með frv., þótt hv. 4. landsk. hafi ætlazt til annars.

Hv. 4. landsk. benti á, að nauðsynlegt væri að koma fram með brtt. við frv., ef það yrði samþ. Ég lít svo á, að sú brtt. sé óþörf. En ef hv. þm. telur hana nauðsynlega, þá ætti hann sjálfur að koma með hana. Ég sé svo enga ástæðu til að fara fleiri orðum um mótmæli hans gegn frv.