18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í C-deild Alþingistíðinda. (1683)

51. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum o. fl.

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Hv. 4. landsk. talaði um það, að ég hefði gengið fram hjá einum möguleika fyrir bæjarfélögin til að eignast fasteignir, og það væri frjálst samkomulag við aðra kaupendur. En þetta er ekki rétt. Ég talaði einmitt um jarðir, sem Akureyrarkaupstaður hefði keypt í frjálsri samkeppni. En þótt það megi takast stundum, þá sannar það alls ekki, að ónauðsynlegt sé að veita bæjarstjórnum. forkaupsrétt á lóðum og löndum innan lögsagnarumdæmisins. Það er einmitt nauðsynlegt í ýmsum tilfellum að veita bæjar- og sveitarfélögum slíkan rétt. Og þótt ekki sé á yfirstandandi augnabliki þörf fyrir lóðir og lendur, þá getur aðstaðan breytzt með tíð og tíma. Þannig er miklu meiri samkeppni um landspildur á Akureyri en var um síðustu aldamót, hvað þá, ef lengra er farið aftur í tímann. Eins og nú stendur, þá er enginn vegur til að fá fasteignir, að undantekinni frjálsri sölu, á annan hátt en þann, að fá þær teknar eignarnámi. En ef frv. þetta verður samþykkt, þá bætist við þriðja leiðin. Er að mínu áliti mjög nauðsynlegt, að allar þessar þrjár leiðir standi opnar, 1) frjáls sala, 2) forkaupsréttur og 3) eignarnámsheimild. Ég lít svo á að forkaupsrétturinn geti í mörgum tilfellum komið í stað eignarnámsheimildarinnar. Mér þykir harðara að gengið að taka fasteign eignarnámi heldur en þó bæjarfél. hafi forkaupsrétt, þegar eignin er til sölu hvort sem er. En hinsvegar getur bæjarfélagið misst af fasteign vegna vantandi forkaupsréttar, sem því þó væri þörf og hagur að eignast. Ég býst við, að hv. 4. landsk. hljóti að þykja forkaupsréttur betri en eignarnám. Að vísu taldi hann, að aðstaða bæja og kaupstaða væri yfirleitt góð, því þeir væru góðir kaupendur og hefðu því góða aðstöðu í frjálsri sölu. En aðstaðan er þó ekki nógu góð.

Hv. 4. landsk. var hræddur um, að ef þetta væri samþ., þá væru bæjunum boðnar eignir fyrir óhæfilega hátt verð, eða falskt verð. Ég get þó ekki álitið að þessi ótti hans stafi af umhyggju fyrir bæjarfélögunum; það væri ekki í samræmi við afstöðu hans til þessa máls. Og þótt hann því hampi þessu. Þá sé ég enga ástæðu til að ætla, að slíkt yrði almennt gert, og er því óþarfi að taka þá ástæðu frekar til greina.

Hv. þm. sagði, að eignarnámsheimildin hefði aldrei verið reynd í heilum jörðum eða víðáttumeiri eignum. Þetta er mjög eðlilegt. Dómstólarnir mundu tæplega sjá sér fært að taka slíkar beiðnir til greina. (PM: Það er löggjafarvaldið, sem veitir slíka heimild!). Ég hélt þó samt, að leita þyrfti umsagnar yfirvalda, áður en beiðni um eignarnámsheimild væri send fyrir þingið. — Þá er betra að gefa heimild til forkaupsréttar í eitt skipti fyrir öll, heldur en að verða að leita til þingsins í hvert sinn. Ég tel þá vera skynsamlegri vinnubrögð.

Hv. 4. landsk. talaði um breytingar, er hann taldi, að þyrfti að gera á frv., en áleit að sér, sem vildi fella frv., bæri engin skylda til að umbæta það. Ég get frætt hv. þm. um það, að það er algengt, að þm. komi fram með slíkar brtt., sem þeir telja til bóta, þrátt fyrir það, þó þeir ætli sér að greiða atkv. gegn frv. undir öllum kringumstæðum. En við, sem viljum, að frv. gangi fram óbr., höfum enga ástæðu til að gera það.