28.02.1931
Efri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í C-deild Alþingistíðinda. (1705)

52. mál, verðfesting pappírsgjaldeyris

Flm. (Jón Þorláksson):

Ég ætla ekki að flytja neina langa eða ítarlega framsöguræðu fyrir þessu frv. Ég geri ráð fyrir því sem sjálfsögðu, að því verði vísað til nefndar, og gefst þá tækifæri til að láta koma fram í nál. og við 2. umr. það, sem mestu þykir máli skipta. Ég ætla þó að gefa örstutt yfirlit yfir aðdragandann að þessu frv.

Eins og menn muna, skall á styrjöld milli hinna stærri ríkja í Norðurálfunni í byrjun ágúst 1914. Var þá tekið til ýmissa úrræða af löggjafarvaldinu hér sem annarsstaðar, sem nauðsynleg þóttu, sérstaklega með tilliti til þess, að koma í veg fyrir ýmsar þær truflanir, sem styrjöldin hafði í för með sér. Eitt af þeim ráðum, sem víða var þá gripið til, var það, að seðlabankar voru leystir undan þeirri skyldu að innleysa seðla sína með gulli. Undan þessari skyldu var seðlabankinn hér á landi leystur 7. ágúst 1914. Var þá vitanlega burt numin sú trygging, sem löggjöfin annars veitti fyrir því, að kröfur þær og skuldir, sem stofnaðar höfðu verið í krónum, héldu áfram að svara til þess gullgildis, sem myntlögin mæla fyrir, að krónan skuli hafa. En þó að þessi trygging væri burt numin, þá urðu samt ekki mikil brögð að því, að pappírskrónan fjarlægist gullkrónuna meðan á styrjöldinni sjálfri stóð. Að vísu voru nokkrar sveiflur hér sem annarsstaðar milli gildis pappírspeninga og gullgildis, en verulega var það þó ekki fyrr en í ársbyrjun 1919, eftir að styrjöldin var afstaðin. Þá byrjuðu pappírspeningar okkar að falla og féllu allt árið 1919 og mestallt árið 1920. Í nóvember það ár voru þeir komnir niður í það lágmark, sem krónan náði, og höfðu þá ekki hálfvirði á móti gulli. Til þessa tíma hafði danska og íslenzka pappírskrónan fylgzt að, en nú skildi þar á milli. Þetta ástand hélt áfram með sveiflum ýmist upp eða niður þangað til snemma árs 1924. Þá var síðasta sveiflan niður á við. Í henni fór gildi pappírskrónunnar niður fyrir helming gullgildis. Annars var það svo á þessu rúmlega þriggja ára tímabili, 1920–24, að gengi pappírskrónunnar var oftast, eða a. m. k. um langan tíma, milli 60 og 70% af gullgildi.

Alþingi 1924 gerði mjög víðtækar ráðstafanir til þess að hindra á eðlilegan hátt frekari lækkun pappírsgjaldeyris og til að koma af stað gengishækkun. Þessi ráðstöfun verkaði mestan hluta ársins 1924 og mikinn hluta ársins 1925, og var þá pappírskrónan komin upp í nálega 82% af gullgildi. Þá stöðvaðist hækkunin, og á þann hátt, a. m. k. að nokkru leyti, að þáv. stj. veitti Landsbankanum fulltingi til að koma í veg fyrir frekari hækkun, vegna þess að ríkisstj. og stjórn Landsbankans voru sammála um það, að ekki væri tiltækilegt að taka meiri gengishækkun í einu eins og þá stóðu sakir.

Síðan hefir gengi íslenzku pappírskrónunnar haldizt óbreytt á móti sterlingspundum, og þar með að mestu móti gulli, því að sterlingspund hafa ekki verið nema örlitlum sveiflum undirorpin á þessu tímabili.

Nú mun það almennt viðurkennt, að nauðsynlegt sé að fara að binda enda á þetta mál, að koma aftur verðfestingu á gjaldeyrinn, og þá er nú um fleiri en eina leið að ræða, og það, sem menn einna helzt hafa rætt um eða haft í huga, er ef kalla mætti tvær hinar ítrustu leiðir. Annað er hrein hækkun upp í gullgildi, framhald þeirrar hækkunar, sem var gerð 1924–1925 hér á landi og einnig í öllum nágrannalöndum og hélt þar áfram allt upp í gullgildi, en var stöðvuð hér í 82%. Þetta er önnur leiðin, en sú leið, sem er lengst þar frá, er hrein stýfing með myntlagabreytingu.

Það má nú segja, að báðar þessar aðferðir hafi sína kosti og sína galla, eins og gerist um þau úrræði, sem fyrir hendi eru þegar komið er út í einhver vandræði. Höfuðkostir hreinnar hækkunar eru þeir, að hún skapar traust bæði inn á við og út á við. Þess vegna hafa öll þau ríki, sem með nokkru móti hafa talið sér það kleift, hækkað gengi sitt upp í gullgildi og öll þau ríki hafa talið sér þetta fært, sem ekki hafa staðið fjær gullgildi en við.

Fjármálamennska Breta hefir vitanlega verið þarna fyrirmyndin. Ég veit ekki annað en að gullgildi sterlingspunds sé ennþá það sama og það var fyrst þegar myntlögin voru sett þar, þetta hefir skapað þá meðvitund þar, að þótt eitthvað hviki til um gildi innstæðufjár, meðan krúnan á í stórum styrjöldum, þá megi treysta því, að þetta rétti við aftur og verði staðið við það, að það fé, sem þar var lagt fyrir til ávöxtunar í ár, verði látið halda sínu gullgildi gegnum komandi aldir. Þessi festa í peningamálunum skapar fjárhagslegan styrk og traust bæði út á við og inn á við.

Á ókosti hækkunarinnar hefir verið bent svo ríkulega í umr. um þetta mál, að ég get verið fáorður um þá. Ókostirnir eru fyrst og fremst þeir, að þær skuldir, sem skapazt hafa á verðbólguárunum, verða þungbærari en þegar þær voru stofnaðar, við það, að gjaldeyririnn hækkar upp í gullgildi.

Höfuðkostur hreinnar stýfingar er þessi, að þá verður sneitt hjá þeirri þyngingu þessarar skuldabyrði, sem hrein hækkun hefir í för með sér, en sit leið hefir þá um leið í för með sér þann mikla ókost, að hún er hrein þrotayfirlýsing að því er það snertir að tryggja mönnum það, að gullgildi innstæðufjár og annara verðmæta, sem í peningum eru talin, haldist óbreytt í því landi.

Óvissan um þetta, hugsunin um það, að næst, þegar kreppa kemur, verði allt stýft, skapar vitanlega þá hugsun, að óhættara sé að eiga fé sitt í öðru landi, þar sem ekki er síður að stýfa myntina, þótt eitthvað bjáti á, heldur en í því landi, sem stýfir myntina án þess að hafa til þess aðrar ástæður en þær, sem alltaf geta komið fyrir. Sannleikurinn er nefnilega sá, að þótt styrjöldin hafi valdið kreppu, eins og vísitölur hagskýrslnanna sýna, þá hafði þetta örvandi áhrif á atvinnulíf þjóðarinnar árin 1915–1916. Taki maður öll stríðsárin samanlögð með þeirra áhrifum á atvinnulíf þjóðarinnar, þá sést, að þar hefir hún ekkert stærra afhroð goldið heldur en það, sem þjóðin má búast við hvenær sem er. Ef við höfum átt að stýfa myntina vegna þess, sem þá kom fyrir, þá getum við aldrei verið öruggir um, að það komi ekki fyrir aftur, að stýfing fari fram.

Leið sú, sem þetta frv. fer fram á, er sú, að reyna að fara bil beggja. Í frv. er reynt að halda dálítið í kosti hækkunarinnar án þess að sleppa nokkru verulegu af kostum stýfingarinnar. Það er í raun og veru ekkert óeðlilegt, þó að menn verði að sætta sig við það, að kröfur þær og skuldir, sem stofnaðar eru á þeim tíma, þegar löggjafarvaldið þóttist til neytt að nema úr gildi trygginguna fyrir því, að kröfur manna haldi gulltryggingu, að þær verði festar í öðru en gullgildi. En það er ómögulegt að taka kröfur, sem stofnaðar hafa verið, þegar löggjöfin veitti þær fyllstu tryggingar, sem hægt er að veita fyrir því, að þær skyldu haldazt í gullgildi, og kveða svo á nokkrum árum síðar, að þær skuli ekki haldast varanlegar í sínu gullgildi, án þess að veikja trúna á það, að óhætt sé á venjulegum tíma að leggja fé til ávöxtunar í bankana. Ef hægt er að koma og segja: „Við fellum þessar tryggingar úr gildi“, og allt er stýft, líka þær kröfur, sem stofnaðar voru í beztu trú, þegar engin ástæða var til að óttast neitt, þá hlýtur það að skapa meira vantraust á peningamálum þjóðarinnar heldur en hitt, að sætta sig við það, að löglegt verði annað gildi en gullgildi á þeim kröfum, sem stofnaðar voru á þeim tíma, þegar lög um gulltryggingu og seðlainnlausn voru ekki í gildi.

Þetta frv. fer fram á að setja takmarkið milli þess, sem viðurkennt sé í gullgildi, og hins, sem verðfesta skal í pappírskrónum, þann dag, sem íslenzka löggjöfin felldi niður innlausnarskyldu seðlabankanna, því að þá eru tímamót á þessu sviði. Og mér kemur það þannig fyrir sjónir, að þessar athafnir löggjafarvaldsins muni skera úr, hvers menn hafa að vænta í framtíðinni í þessu efni.

Ég tel, að frv. með þeim ákvæðum, sem í því felast, muni gera menn miklu óhultari með það, að leggja hér til ávöxtunar fé sitt á venjulegum tímum, þegar seðlainnlausn er í lögum, heldur en stýfingarleiðin með myntlagabreytingu, sem gefur það fordæmi, sem sviptir menn allri tryggingu um þetta í framtíðinni.

Hinsvegar er þessi úrlausn, sem frv. fer fram á, þannig, að hún felur í sér alla verulega kosti hreinnar stýfingar að því leyti, að allur yfirgnæfandi þorri þeirra skulda, sem nú eru til, fær þannig verðfestingu, að mönnum er ekki gert að skyldu að greiða skuldir sínar með hærra peningagildi en núverandi pappírskróna hefir. En árið 1914 var yfirleitt svo lítið um innstæðufé í landinu móts við það, sem nú er, og svo langur tími síðan, að mikið af því innstæðufé, sem þá var til, hefir verið goldið eða nýjar kröfur komið í staðinn, svo að ég hygg, að viðurkenning gullgildis þeirra skuldbindinga, sem stofnaðar voru áður en seðlainnlausnin var úr lögum, verði ekki sérlega erfið fjárhagslega. Og það er auðvitað mögulegt að útvega upplýsingar um það atriði, hve miklu slíkar skuldbindingar muni nema. Þó að ekki sé hægt að fá það upplýst nákvæmlega, þá mun þó hægt með eftirgrennslan að komast svo nálægt því, sem rétt er, að menn sjá, að óþarfi er að setja það neitt fyrir sig.

Ég tel því, að þetta frv. hafi í öllu verulegu sömu kosti og frv. um myntlagabreytingu, en tekur því mikið fram að því leyti, að með slíku fordæmi, sem frv. gefur, er ástæða til að ætla, að ekki verði heldur síðar gripið til þess að færa niður með lögum þær kröfur og skuldbindingar, sem stofnaðar hafa verið í gullgildum gjaldeyri á venjulegum tímum.

Ég er ákaflega hræddur um, að fjárhagsleg afkoma þessa litla lands sé nógu erfið, þó að því sé ekki bætt ofan á aðra erfiðleika, að rýra um þörf fram traust landsmanna sjálfra á því, að óhætt sé fyrir þá að ávaxta fé sitt í þeirra eigin landi.