28.02.1931
Efri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í C-deild Alþingistíðinda. (1707)

52. mál, verðfesting pappírsgjaldeyris

Jón Baldvinsson:

Þar sem þetta frv. fer sennilega til nefndar, sem ég á sæti í, verður tækifæri fyrir mig síðar til þess að koma með þau andmæli, sem ég kynni að hafa gegn því. Ég vil benda hv. flm. á það, að mér finnst, sem verða muni verulegir erfiðleikar á framkvæmd þessara laga, ef frv. kemst þá svo langt. E. t. v. byrja þeir ekki að fullu fyrr en 1934, en þá yrðu þeir svo miklir, að vafasamt er, hvort það er framkvæmanlegt.

Í öðru lagi vil ég benda á nokkurt ranglæti, sem mundi koma fram, ef það yrði framkvæmt, sem frv. gerir ráð fyrir. Stéttirnar, sem hafa beðið tjón af lækkun krónunnar á undanförnum árum, eiga líka að taka tjónið af hækkuninni skv. þessu frv. Þetta kemur vitanlega ekki niður á einstaka menn, sem hafa hagnazt eða tapað á gengislækkuninni, heldur á þá stétt, sem hefir þegið laun, því að hún hefir tapað á lækkuninni, og svo er henni líka ætlað að tapa á umreikningnum, þegar þetta kemur til framkvæmda.

Þetta vil ég undirstrika, og ég tel það ekki á valdi þings og stjórnar að setja slík lög og koma þeim í framkvæmd, jafnvel þó að það beitti ríkisvaldinu fyrir sig til þess.