23.03.1931
Efri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

67. mál, verslanaskrár, firma og prókúruumboð

Frsm. (Pétur Magnússon):

Eins og tekið er fram í grg. frv., hefir það farið í vöxt síðari árin, að menn hafa valið firmum sínum ýms sérstök heiti önnur en nöfn sjálfra sín. Aðallega á þetta við um ýms verzlunarfyrirtæki og iðnaðar. Nöfnin eru ýmist innlend eða útlend, og jafnaðarlega gefa þau enga vísbending um, hver beri ábyrgð á fyrirtækjunum eða sé eigandi þeirra, svo að það hefir oft komið fyrir, að erfitt hefir verið, bæði fyrir einstaklinga og það opinbera, að vita með vissu, hver ætti að svara til skuldbindinga firmans. Frv. þessu er ætlað að raða bót á þessum ágalla. Allshn. hefir haft það til meðferðar, og eins og sest á nál. 237, leggur hún til, að það nái fram að ganga. En hinsvegar telur hún ekki nægilega skýrt fram tekið í frv., að hvert firma, sem vill taka sér annað nafn en eigandans, skuli vera skrásetningarskylt, svo að hún gerir þá brtt., að í stað orðanna „ef atvinnan er rekin undir nafni hans sjálfs“ komi: „nema firmanu sé valið sérstakt heiti, annað en nafn eiganda“. Nú er í rauninni ekki unnt að reka atvinnu undir annars nafni en sjálfs sín, þó að fyrirtækinu sé valið sérstakt heiti. Nafn eigandans á að fylgja með. Þess má geta, að 9. gr. laganna virðist taka það nógu skýrt fram, að firma einstaks manns skuli bera nafn hans. En þau lög eru nú orðin 28 ára gömul, og þessu ákvæði 9. gr. þeirra hefir aldrei verið beitt, og ég hygg það litt kleift að taka fyrir öll brot gegn því. Þess vegna álítur n. fulla nauðsyn á þessu viðbótarákvæði. Og ég vona, að hv. deild fallist á það, að orðalag brtt. er miklu heppilegra og skýrara en áður í frv., og að hún sjái, hve nauðsynlegt er að breyta á þennan hátt fyrirmælum laganna um skrásetningu þessara fyrirtækja.