06.03.1931
Efri deild: 17. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í C-deild Alþingistíðinda. (1717)

76. mál, vélstjóraskóli á Akureyri

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Þetta frv., sem nú er lagt fyrir deildina, er borið fram vegna áskorana frá þingmálafundi á Akureyri í febr. síðastl., að koma upp Vélstjóraskóla þar, sem gæfi mönnum kost á að læra meðferð mótorvéla, stærri og smærri mótorv. Sú kennsla, sem menn hafa átt kost á undanfarið í þessum efnum, er ekki annað en námskeið, sem Fiskifélag Íslands hefir haldið uppi hér og þar á landinu síðustu 15–16 árin. En þessi námskeið veita aðeins rétt þeim, sem á þessi námskeið ganga, til að stjórna 50 hestafla vélum. En vitanlega er ástandið nú, 1931, allt annað en það var 1915, þegar byrjað var á þessum námskeiðum, og sérstaklega er mikið breytt að því leyti, að mótorbátar eru stærri í skipum nú en hér var þá, og meira að segja venjulegir smá-fiskibátar nota miklu stærri vélar nú en þá. Kennsla, sem menn hafa átt kost á í meðferð mótorvéla, er of lítil eftir því, sem hún er á þessum námskeiðum, sem standa aðeins 1½–2 mán. á vetri. Að sönnu mun nú vera deild hér við Vélstjóraskólann í Rvík, þar sem gert er ráð fyrir, að kennsla sé í meðferð mótorvéla. En hvort sú deild er starfandi, veit ég ekki, en þó svo væri, tel ég kennslu í þessum efnum nauðsynlega víðar en í Rvík. Ég tel líklegt, að hennar sé þörf í hverjum landsfjórðungi. Í Norðlendingafjórðungi hygg ég, að ekki séu færri en 150 skip, sem ganga fyrir mótorafli; mikill hluti þeirra mun vera með stórum vélum, og þessi námskeið veita ekki rétt til stjórnar á þeim. Þess vegna er þörf, þó bara sé litið til þessa landsfjórðungs, að koma upp skóla, sem kennir meðferð stærri véla en 50 hestafla. Sennilega þyrfti skólinn ekki að vera nema vetrarskóli, ef undirbúningur undir námið er sæmilegur. Það er og gert ráð fyrir í þessu frv., að við þann skóla gæti komið námskeið, sem kæmi í staðinn fyrir námskeið Fiskifélagsins og hefði kennslu í meðferð smærri véla. Þyrfti þar ekki jafnlangan námstíma eða eins mikinn undirbúning eins og fyrir þá, sem ætla sér að læra stjórn stærri véla.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að svo komnu, en tel eðlilegast, að því sé vísað til sjútvn. þessarar deildar, því að aðalatriðið er, hvort ekki eigi að líta á þá miklu nauðsyn að koma upp skóla fyrir mótoristæfni, og ég tel það heyra undir sjútvn. Legg ég því til, að málinu verði vísað þangað að lokinni þessari umr.