11.03.1931
Efri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í C-deild Alþingistíðinda. (1723)

109. mál, fátæktarlög

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það er mjög eðlilegt, að fátækramál í fátæku, strjálbyggðu landi séu allerfið viðfangs, svo sem raun hefir borið vitni um.

33. gr. fátækralaganna mælir svo fyrir, að styrkveiting skuli hagað þannig, að gætt sé, svo sem verða má, hagsmuna fátækrafélagsins og þarfar og velferðar þurfalingsins. En hér ber svo oft margt á milli, að ellerfitt verður að þræða rétta leið. Annarsvegar eru gjaldendur, þeir menn, sem lögum samkvæmt eiga að framfæra þá, sem ekki geta það af eigin rammleik. Rekast þá oft á hagsmunir þessara tveggja ólíku aðilja, og er einatt örðugt að ráða fram úr, svo að báðir megi vel við una. Þó vandast málið enn meira, þegar hinir svokölluðu fátækræða hreppaflutningar koma til skjalanna. Þar mætast annarsvegar skýlaus lög, sem heimila gjaldanda að ráðstafa þurfalingnum eftir eigin geðþótta, án tillits til þæginda eða ástæðna hans og hinsvegar fátækt og úrræðaleysi þiggjanda.

Óneitanlega hefir þurfamannaflutningum farið mjög fækkandi á undanförnum árum. Með vaxandi mannúð og menningu leitast menn við að losa fátækt fólk við þennan refsidóm fátæktarinnar með allskonar undanbrögðum, einkanlega er oft gripið til þess að fá læknana til að gefa vottorð um að þessi eða hinn þurfalingur sé ekki ferðafær.

Líklega má til sanns vegar færa, að menn reyni yfirleitt til þess að framkvæma flutninga þurfamanna nú orðið á sem mannúðlegastan hátt, reyni til að milda aðferðina með meðferðinni. En samt sem áður er mér kunnugt um það, að misbrestur getur orðið á þessu. 62. gr. fátækralaganna mælir svo fyrir, að flutningum skuli haga þannig, að hvorki sé misboðið heilsu þurfalings né lífi hans stefnt í voða. Ég gæti þó nefnt dæmi, sem farið miklar líkur, ef ekki sannanir fyrir heilsutjóni, sem beinlínis stafaði af fátækraflutningi. Það er t. d. ekki lengra síðan en í gærkvöldi, að ég átti tal við fátæka konu hér í bænum, margra barna móður, sem eitt sinn var flutt fátækraflutningi ásamt manni sínum og börnum í ómegð; yngsta barnið var fárra vikna brjóstbarn.

„Um það ferðalag er það að segja“, sagði hún, „að ég þoli tæplega að hugsa um það. Við vorum 12 daga að hrekjast á sjónum matarlítil og sjóveik, og litla barnið mitt var eins og ofurlítil beinagrind, þegar ferðinni lauk“.

Það hafði verið ráðgerð hálf önnur dagleið, en skipið breytti um áætlun og varð 12 daga á leiðinni, ferðanestið var af skornum skammti og móðirin, sem ætlaði að næra ungbarnið á leiðinni, gat það ekki, sökum sjóveiki og matarleysis, og litla barnið bar aldrei sitt barr eftir það það varð veiklað og veslaðist upp og dó. Móðirin getur aldrei gleymt litla horaða hvítvoðungnum sínum, sem svo hart varð úti í viðureign sinni við éljadrög mannlífsins. Það eru 6 ár síðan. Flutningur þessi fór ekki fram frá Rvík.

Ég býst ekki við því, að ég þurfi að tefja tímann með því að tilgreina fleiri dæmi úr daglega lífinu, þó það sé hægðarleikur, því máli mínu til sönnunar, að fátækraflutningar séu harðir í horn að taka; ég veit, að allir hv. þdm. eru mér sammála um það, að enginn mundi kjósa þá sér eða sínum til handa. Mér líða ekki úr minni orð konu einnar, sem hafði orðið fyrir barðinu á fátæktinni í ýmsum búningi, einnig þeim, sem hér um ræðir. Hún sagði með tárin í augunum: „Maður er aldrei kvíðalaus. Ef maður sér fram á litla atvinnu, þá kemur óttinn við þennan voðalega fátækraflutning“. Og það er einmitt þess ótti, sem mig langar til að útrýma að einhverju leyti. Ég skal játa það, að ég hefði helzt viljað útrýma honum alveg. En þótt ekki sé lengra haldið í bili, tel ég þó rétt spor stigið í rétta átt. Ég veit, að gamla fólkið tekur breytingu þessari fegins hendi. Það eru fáir dagar síðan ég hitti að máli mann á áttræðisaldri, og er talið barst að því, er ég hafði í hyggju um þau mál, sem ég ræði hér, sagði gamli maðurinn alls hugar feginn: „Guði sé lof! Þá þarf maður ekki að kvíða fyrir því að verða fluttur“.

Ég hefi hlýtt á marga æfisögu aldinna einstæðinga, æfisögu um skort og heilsubilun og ástvinamissi og — fátækraflutninga, — og fátt var þeim sárara. Og það eru nú einmitt þessi aldurhnignu, lúnu olnbogabörn, sem mig langar sérstaklega til að vera málsvari fyrir með frv. þessu.

Ég hefi í grg. við frv. látið þá ósk mína í ljós, að fátækraflutningar yrðu afnumdir, en hinsvegar bent á þá sem nokkurskonar neyðarvörn hreppanna gegn eyðslusömu óreiðufólki, sem þar að auki er allajafnan langtum hollari dvöl í sveitum heldur en í kaupstöðum. Af skýrslum, sem ég hefi fengið hjá hagstofunni um fátækraframlög hinna ýmsu hreppsfélaga á landinu, sé ég, að sumir hreppar mega ekki við neinni viðbót í þeim efnum, enda þótt fjölmargir aðrir hreppar hafi tiltölulega sárlítil gjöld til fátækraframfæris. Virðist mér skýrslurnar benda til þess, að með einhverju móti þyrfti að jafna þann feykilega mismun. En til þess þarf rækilegri undirbúning en hér er fyrir hendi, og veitti ekki af, að sérstök milliþinganefnd tæki það til meðferðar, og jafnvel eðlilegast að fela það nefnd þeirri, sem hefir tryggingarmálin til meðferðar.

Þá er í frv. gert ráð fyrir, að framfærslusveitum sé ekki íþyngt, þótt fólkið fái að vera kyrrt þar, sem það óskar, með því að ríkissjóður komi til hjálpar. Að hinu leytinu má fullkomlega gera ráð fyrir því, að atvinnumálaráðherra beri hag ríkissjóðs svo vel fyrir brjósti, að honum verði heldur ekki íþyngt um skör fram með þeim undanþágum, sem gert er ráð fyrir í frv. Jafnframt má vænta þess, að þjóð vor eigi ávallt þeim atvinnumálaráðherrum á að skipa, sem líti með vorkunnsemi og sanngirni á kringumstæður varnarlítilla fátæklinga.

Ég orðlengi þá ekki frekar um frv. að sinni til. Ég get búizt við því, að sumum þyki ég hafa farið of skammt, öðrum ef til vill of langt, en vona þó, að skoðanir manna geti náð saman, svo að komizt verði að heppilegri niðurstöðu. Þá treysti ég og því, að hin hv. nefnd, sem fær frv. til meðferðar, taki því vel og vinsamlega og verði mér sammála um, að hér sé nauðsynjamál, sem vert er að sinna.