27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í C-deild Alþingistíðinda. (1724)

88. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. ræðir um aðeins einn útlending, sem farið er fram á, að öðlast skuli ríkisborgararétt á Íslandi, en formaður allshn. hefir fengið sendar frá hæstv. dómsmrh. allar þær umsóknir, sem til hans höfðu borizt um ríkisborgararétt, en þær umsóknir voru samtals 9. N. hefir nú farið gegnum þessar umsóknir og ekki séð sér fært að taka til greina fleiri af þeim en 6, og kemur þess vegna með brtt. við þetta frv. í þá átt, að þessum 6 mönnum sé bætt við, og verða það þá alls 7 menn, sem n. leggur til að fái ríkisborgararétt. En ekki sá n. sér fært að gera þetta skilyrðislaust, vegna þess að enginn þessara manna hefir lagt fram sönnun fyrir því, að þeir hafi verið leystir af sínum upprunalega ríkisborgararétti þar, sem þeir eru fæddir. En með því að það er svo í sumum löndum, að menn geta ekki fengið yfirlýsingu um það, að þeir séu leystir af sínum ríkisborgararétti, nema þeir sanni, að þeir hafi fengið hann annarsstaðar, verður að hafa þetta skilorðsbundið þannig, að þeir sanni fyrir dómsmálaráðherra innan ákveðins tíma, að þeir hafi verið leystir af sínum ríkisborgararétti annarsstaðar, því að það þykir ekki rétt, að nokkur maður hafi ríkisborgararétt á fleiri stöðum en einum.

Þessi aðferð, að hafa veitingu ríkisborgararéttarins skilorðsbundna, hefir þekkzt hér áður. Ég man það, að á þingi 1925 var Þjóðverja einum veittur íslenzkum ríkisborgararéttur með sömu skilyrðum og hér ræðir um, einmitt vegna þess, að í Þýzkalandi mun það vera regla, að enginn geti leyst sig undan því að vera þýzkur þegn, nema hann sanni, að hann hafi ríkisborgararétt annarsstaðar.

N. hefir ekki lagt til, að öllum þeim mönnum skyldi veitast ríkisborgararéttur, sem um það sóttu, vegna þess að þau skjöl fylgdu ekki, sem nauðsynleg þóttu, og auk þess hafði a. m. k. einn þeirra þegið fátækrastyrk, og þar sem það er ein af afleiðingum ríkisborgararéttarins, að alin verði önn fyrir þeim, sem réttinn fær, og fjölskyldu hans, ef með þarf, þá þótti ekki rétt að taka hann með nú, og ekki fyrr en séð yrði, hvernig hann kemst af framvegis.