11.03.1931
Efri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í C-deild Alþingistíðinda. (1728)

109. mál, fátæktarlög

Jón Baldvinsson:

Ég verð að segja, að mér þótti hv. 6. landsk. vera nokkuð nægjusöm, þegar hún fer að koma fram með frv. til breytinga á fátækralöggjöfinni, eftir að hún hefir setið í fátækranefnd í mörg ár. Ég er ekki að lasta, að frv. þetta er komið fram, en mér finnst það heldur lítil krafa, að fara ekki fram á meira en það eitt, að gamalmennum skuli sleppt við fátækraflutninga. Í fátækralögunum frá 1927 er ákveði5, að styrkur sá, er menn fá eftir að þeir eru orðnir 60 ára, skuli ekki talinn fátækrastyrkur. Rökrétt ályktun af þessum ákvæðum fátækralaganna ætti því að vera það, að ekki sé heimilt að flytja gamla fólkið sveitarflutningi, þótt ég vilji játa, að öruggara sé að hafa um þetta bein lagafyrirmæli.

Frv. gengur því í rétta átt. En eins og öllum hlýtur að vera ljóst, nær þetta frv. afarskammt, þar sem aðrir flokkar fátæklinga en sá, sem hv. 6. landsk. nefnir í 2. málsgr. 2. gr., fá engar réttarbætur frá því, sem verið hefir. Þó stendur þar, að atvmrh. megi veita undanþágu frá þessu, ef sérstaklega stendur á, svo sem þegar í hlut á ekkja með börn. Þetta ákvæði er náttúrlega allgott út af fyrir sig. Í þessum tilfellum má skjóta málinu til atvmrh., eins og áður er tekið fram, en hann mun auðvitað heimta úrskurð sveitarstjórnar, svo mjög er hætt við, að sama meðferðin á fátæklingum haldist, og að fátækrastjórnin, örfáir menn, ákveði örlög þeirra, eins og jafnan hefir tíðkazt áður, en réttur styrkþega lítill eða enginn. Ég hefi nú um nokkur undanfarin ár flutt till. hér á Alþingi um að afnema fátækraflutninginn, og hefi viljað láta þetta sjálfsagða mannréttindaatriði ná til allra manna jafnt og hefi enga undantekningu viljað gera í því efni.

Ég tek ekki gildar ástæður hv. 3. og 6. landsk., að fátækraflutningur sé nauðvörn gegn eyðslusömu fólki. Þar er allt önnur leið opin. Þá menn, sem hafa fulla heilsu og ekki virðast nenna að vinna, má fara með eins og hverja aðra óreiðumenn. Það má þvinga þá til að vinna, enda er til vinnuhæli, þar sem þeir geta unnið af sér skuldir sínar. Nei, allir menn eiga skilyrðislaust að geta neitað því að láta flytja sig eins og skynlausa skepnu úr einu héraði í annað. Og má í því sambandi óhætt fullyrða, að meðferð á fólki í þessum sveitaflutningum er hlutfallslega alveg sú sama og áður var. Ég er hræddur um, að fólki, sem flutt er fátækraflutningi, finnist meðferðin ekki betri en hún var fyrir svona 20–30 árum, þar sem það verður venjulega að gera sér gott af verstu flutningatækjum nútímans.

Eina rétta leiðin til þess að bæta úr þessu ástandi er að gera allt landið eitt framfærsluhérað, og hefir hún oft verið rædd her á Alþ. Sú leið, að sveitafélög greiði eitthvert visst gjald í ríkissjóð eftir fjölda þurfamanna, og ríkissjóður sjái svo þurfamönnum fyrir þörfum þeirra, eða að sveitirnar greiði styrkinn sjálfar og síðan fari fram niðurjöfnun á fátækrastyrk á allar sveitir landsins. Þar finnst þá leið til þess að koma í veg fyrir fátækraflutning og um leið til þess að ráða bót á fátækralögum vorum. Breyting á fátækralögunum, sem gekk í þessa átt, hlaut mikið fylgi í hv. Nd. á þingi 1927.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, nær allt of skammt, og ég er hræddur um, að það í raun og veru tefji fyrir virkilegum umbótum á þessu sviði. Þegar þingið hefir gert einhverja breytingu á þessari löggjöf, er mjög hætt við því, að það vilji ekki gera frekari breytingar næstu 5–10 árin og að þm. friði samvizkuna með því að vitna til þessa. Annars vil ég óska þess, að hv. 6. landsk. takist að hafa góð og betrandi áhrif á flokksbræður sína í þessu efni, því að ég býst við, að þeir hafi kreist og klipið utan úr kröfum hennar í þessu máli eins og þeir framast gátu. Því ég þykist vita, að þm. (GL) persónulega vilji afnema allan fátækraflutning, og það sem fyrst. Að öðrum kosti verð ég fyrir miklum vonbrigðum. ef ég má ekki skilja þetta svo hjá henni.

Þó ég sé ekki allskostar ánægður með frv., býst ég þó við að fylgja því til nefndar, og vil beina þessum aths. til n., svo hún geti athugað, hvort ekki er hægt að ganga lengra í þessum kröfum. En ég er hræddur um, að bætur fáist ekki á þess fyrr en landið er gert að einu framfærsluhéraði. Svo vonast ég til, að hv. 6. landsk. geti knúð sinn flokk til þess að fylgja þessu máli. Efast ég ekki um, að það muni vel takast, sérstaklega þar sem Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna, hefir nú nýlega gefið út tiltölulega frjálslynda stefnuskrá, og er þar farið fram á ýms algeng mannréttindi, og er það sízt að undra, þar sem stefnuskráin virðist um þau atriði vera að mestu leyti endurprentun á 16 ára gamalli stefnuskrá Alþýðuflokksins. Ætti því að vera ástæða til, að hv. 6. landsk. gæti fengið sína flokksbræður til fylgis við þetta, þótt þeir yfirleitt séu ekki hrifnir af slíkum breyt. Þetta er aðeins það, sem ég vildi benda hv. 6. landsk. á, svo að hún geti unnið að því í sínum flokki, að þessar breyt. verði gerðar á fátækralögunum.

Veit ég það, að mínir flokksbræður munu eindregið fylgja víðtækari breytingum.