11.03.1931
Efri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í C-deild Alþingistíðinda. (1737)

109. mál, fátæktarlög

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það er aðeins örstutt aths., sem ég vildi gera út af ræðu hv. 2. landsk. Hv. þm. var að gefa mér góð ráð. Það er nú máske gott fyrir mig að eiga kost á ráðum mér eldri og reyndari manna. En ég get þó ekki verið sammála honum um það, að það tefji fyrir úrlausn þessa máls, þó létt sé af gamalmennunum þeim áhyggjum, sem á þeim hvíla vegna fátækraflutnings. Ég held, að sú umbót ætti ekki að tefja fyrir fullkomnari löggjöf um þetta efni, heldur þvert á móti. Það er ekki lengra síðan en í vetur, að ég varð að tilkynna áttræðri konu, að hana ætti að flytja fátækraflutningi. Er það leiðinlegt verk, og átti það sinn þátt í því, að ég bar þetta frv. fram. Ég get hæglega bent á fleiri dæmi. Þannig var kona ein 60–70 ára gömul elt á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur í fyrra vetur, til þess að flytja hana á sína sveit, sem hún hafði ekki stigið fæti í í yfir 20 ár. Ég skil ekkert í því, hvernig hv. 2. landsk. hefir getað reiknað það út, að það yrði til að tefja umbætur á þessu sviði, ef frv. mitt verður samþ. (JBald: Ég gerði grein fyrir því). Ég skildi ekki þá rökfærslu. En ég get, til þess að tefja ekki fyrir hv. d., fengið nánari skýringu á rökfærslu hv. þm. undir fjögur augu. Annars bjóst ég fremur við því, að hv. 2. landsk. mundi ljá þessu frv. lið. Ég hefi það fyrir satt, að jafnaðarmenn vilji breyta fátækramálunum til batnaðar og reynast trúlega í því. En nú telur hv. þm., að hér sé of stutt farið, og notar þá átyllu gegn frv. Hv. jafnaðarmenn töldu það líka kák, þegar þáverandi hv. 2. landsk. þm. (IHB) bar fram frv. sitt um breyt. á ellitryggingarl. (JBald: Það var líka kák!) Það var þó ekki meira kák en svo, að ef það hefði verið lögleitt og komið til framkvæmda á síðasta hausti, þá hefði það í mörgum tilfellum forðað gamalmennum frá því að ganga hin þungu spor að biðja um sveitarstyrk. Ég veit, að fyrir mörg gamalmenni er það þung ganga. Það er að vísu í l., að styrkur, sem veittur er styrkþegum, sem eru fullra 60 ára að aldri, skuli ekki talinn sem sveitarstyrkur. En þrátt fyrir það, tekur margt gamla fólkið sér það miklu nær en yngra fólkið, að biðja um fátækrastyrk. Það var því tími til þess kominn að bera þessar kröfur fram vegna gamla fólksins. Í þeim fólst sú réttarbót, sem það hefði fyrir löngu átt að vera búið að fá.

Hv. 2. landsk. segir, að í síðari hluta till. felist enginn réttur. Þar felst þó sá réttur, að skjóta má til úrskurðar atvmrh., hvort ekkja með börn skuli flutt fátækraflutningi. Mér finnst mega vænta þess, að slíkur embættismaður, sem skipar sæti atvinnumálaráðherra, sé réttsýnn og góðgjarn og líti með samhug til þeirra, sem eru báglega staddir. Mér dettur í hug eitt atvik, sem kom fyrir nýlega. Það átti að flytja ekkju með mörg börn langar leiðir. Það varð að fara ótal krókaleiðir til að koma í veg fyrir það, að henni væri þvælt á annað landshorn. Ef þetta ákvæði hefði þá verið í l., þá efast ég ekki um, að fengizt hefði skjót og góð úrlausn á því máli. Ég skal svo ekki segja meira í þetta sinn. Ég vona, að hv. n. geri það í þessu máli, sem hún telur rétt og sanngjarnt.