16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í C-deild Alþingistíðinda. (1757)

137. mál, fimmtardómur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv. sama efnis og þetta var flutt á síðasta þingi og lá þá fyrir þessari hv. deild. Gekk það í gegnum 3. umr. og voru gerðar á því nokkrar breytingar. Nú er það flutt eins og þessi hv. deild gekk frá því í fyrra, nema að bætt er við nokkrum lítilfjörlegum breytingum. Þær breyt. lúta einkum að skilyrðum fyrir veitingum dómaraembætta í fimmtardómi, og er þar helzt að geta þeirrar breyt., að dómaraefni skuli hafa aflað sér nokkurrar sérþekkingar í siglingafræði. Önnur breytingin er sú, að gert er ráð fyrir, að menn, sem sýnt hafa yfirburði með vísindalegri starfsemi á sviði lögfræðinnar. geti komið til greina við veitingu dómaraembættis, þótt eigi hafi þeir gegnt embætti í 3 ár. Þriðja atriðið lýtur að launakjörum dómenda í dóminum. Í frv. í fyrra var gert ráð fyrir lítilsháttar launahækkun frá því, sem nú er, en hér er horfið frá því, vegna yfirstandandi krepputíma, sem jafnt ganga yfir ríkissjóðinn sem landslýð allan. Að þessu athuguðu þykir eftir atvikum rétt að breyta launakjörunum ekki frá því, sem nú er, enda er opin leið til þess að hækka launin síðar, ef ástæða þykir til.

Með því að þetta frv. hefir verið rætt ítarlega hér í d. áður, þá sé ég ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta mál við 1. umr., enda ber þess að gæta, að hér er um engar þær höfuðbreytingar að ræða frá því í fyrra, sem sérstaklega gefi tilefni til umr. á þessu stigi málsins. Ég vil því ljúka máli mínu, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn., því hún hafði þetta mál til meðferðar í fyrra, enda munu slík mál heyra nánast undir hana.