16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í C-deild Alþingistíðinda. (1759)

137. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 4. landsk. hefir nú talað langt mál. Hann byrjaði á því að sýna fram á, hver þörf væri á ýmsum umbótum á sviði dómsmálanna. Hann gerði mér mikinn greiða með því að sýna ljóslega, hve mjög þessi mál hafa verið vanrækt af undangengnum stjórnum og að sýna fram á, að hans eiginn flokkur hefir á undanförnum árum bætt aðgerðarleysi á þessu sviði ofá aðrar syndir. Sá flokkur hefir ekkert hirt um það, þótt verulegir þættir okkar réttarfars væru byggðir á 100 ára gamalli og á mörgum sviðum algerlega úreltri löggjöf. Hv. 4. landsk. hefir alveg tekið í sama streng og ég með þetta. Hann hefir sýnt, hve lítinn áhuga lögfræðingarnir hafa haft fyrir þessu og hve litla vinnu þeir hafa lagt til þessara hluta. Það var líka alveg réttilega tekið fram hjá hv. þm., að ekki er hægt að ætlast til, að núv. stj. hafi getað kippt þessu öllu í lag á þeim þremur árum, sem hún hefir starfað. Einkum þó þegar þess er gætt, að sú stj. hefir orðið að hefjast handa um fjölda annara umbóta innan þjóðlífsins. Ég vil þó geta þess, að núv. stj. hefir hafizt handa á sumum sviðum þessara mála. Þannig hefir að tilhlutun stj. verið unnið að undirbúningi nýrrar hegningarlöggjafar. Að mikið sé þó enn ógert, er enginn fúsari til að játa en ég.

Hv. 4. landsk. játaði, að það væri rétt, sem stendur í grg. frv., að form hæstaréttarlaganna íslenzku væri lánað eftir formi hæstaréttarlaganna dönsku, sem þá var orðið úrelt á mörgum sviðum. En það var dálítið undarlegt — og kemur líklega til af því, að hv. þm. er nýgræðingur hér á þingi —, að hann virtist ekki vita, að það var einmitt sá sami maður, Jón heit. Magnússon, sem mestan þátt átti í samþykkt hæstaréttarlaganna, sem varð næstfyrstur til að æskja breytinga á þeim. Í þessu frv. er m. a. fundin ný leið mitt á milli þess, sem Jón Magnússon vildi vera láta 1919 og 1924. Það atriði er um framkvæmd á fækkun í réttinum. Sú breyt. var ekki að öllu leyti heppileg, þótt við hana ynnist nokkur sparnaður. Ég skal játa það. En nú er bent á leið, sem bætir úr þessu án mikils kostnaðar. Hv. þm. var hissa á því, að lagt er til að breyta þessum rétti. En hann þarf ekki að vera það svo mjög. Til laganna var svo lítið vandað í upphafi. Ekkert tillit var tekið til reynslu annara þjóða. Dönsku lögin ein, sem þó voru orðin úrelt, höfð til fyrirmyndar. Það má segja, að ásökun hv. 4. landsk. kæmi úr hörðustu átt, þar sem Jón Magnússon áleit sjálfur hæstaréttarlögin svo gölluð, að hann vildi breyta þeim eftir fá ár.

Hv. 4. landsk. álítur, að það skipti ekki miklu máli, hvaða nafn sé á réttinum. En fólk, sem er skylt okkur, eins og t. d. Norðmenn, hefir hafið baráttu um að skipta um nöfn á borgum hjá sér og þeir álíta, að það skipti miklu máli. Þeir hafa t. d. skipt um nafn á Kristjaníu og nefnt hana Oslo. Fyrir þetta verður að vísu engin undrabreyting á bæjunum sjálfum. Þeir vilja bara með þessu þurrka út endurminninguna um útlenda kúgun. Óþjóðlegu öflin stóðu þar kröftuglega á móti, en urðu í minni hluta. Það er af sömu ástæðu hér, að þjóðræknir menn vilja ekki lengur nota þetta danska skrípanafn, sem var á sínum tíma innlimað í okkar mál. — Annars finnst mér, að hv. 4. landsk. ætti að vera búinn að læra svo mikið af sínum eigin flokki, að hann ætti að skilja gildi nafnbreytinga. Sá flokkur tók til þess snjallræðis að reyna til að fleyta sér á nýju nafni, þegar þjóðin var búin að fá ótrú á flokknum undir gamla nafninu. Nú byggir sá flokkur alla sína framtíðarvon einmitt á nafninu. Þetta ætti hv. þm. að geta skilið, þótt hann skilji ekki þær þjóðræknisástæður, sem eru þess valdandi, að Norðmenn vilja breyta nafni borga sinna og við viljum taka upp það nafn, sem minnir á lýðveldistímana, en kasta því nafni, sem minnir á danska kúgun.

Sama tilfinningaleysið fyrir fornöldinni, sem yfirleitt andaði út frá ræðu hv. þm., kom líka fram í því, að hann vildi ekki viðurkenna það, að fimmtardómurinn hefði í fornöld verið æðsti dómstóll þjóðarinnar. Það væri fróðlegt að heyra það í næstu ræðu hv. þm., hvaða dómstóll hafi verið æðri þá.

Þá kom það hjá hv. þm., að það væri miður heppilegt að hafa prófessorana við háskólann sem meðdómara. Það er nú vitanlegt, að hv. þm. er orðinn gamall málaflm., enda var ræða hans meira málaflutningur en leit að sannleikanum. Síðan hæstiréttur var fluttur inn í landið, hefir það ávallt verið þrautaúrræðið að láta prófessorana við háskólann dæma í forföllum aðaldómaranna. Og þetta er gert enn. Og þó 5 menn væru gerðir fastir dómendur, þá mundi þó enn vera fylgt sömu venju. Með því að hafa fasta dómendur ekki nema þrjá vinnst sparnaður á launum til dómaranna. En auk þess hefi ég bent á það í grg. frv., og því hefir ekki verið mótmælt, að það muni verða erfiðleikum bundið að fá á hverjum tíma svo marga fræðilega menntaða lögfræðinga sem til þess þyrfti að skipa 5 dómarasæti, auk prófessora háskólans. Þeir ungu menn, sem tekið hafa lögfræðipróf, hafa fæstir sýnt áhuga að prófi loknu fyrir öðru en að flytja mál, innheimta skuldir og græða á þann hátt peninga. Það er leiðinlegt fyrir þá stétt, sem hv. 4. landsk. skipar, að hún hefir sýnt svo mikið áhugaleysi innan síns verkahrings, að það, sem gert hefir verið til umbóta í réttarfarsefnum, hefir orðið að gerast fyrir tilverknað manna, sem standa utan við lögfræðingastéttina. Hv. þm. taldi vafasamt, að prófessorarnir væru heppilegir dómarar. Það ætti þó að felast nokkur trygging í því, að ekki séu aðrir en sæmilega hæfir menn látnir skipa prófessorsembætti við háskólann, enda eru þeir núna varadómendur í hæstarétti. Ég held því, að þeir ættu alltaf að geta orðið gjaldgengir.

Þá kem ég að dómaraskilyrðunum. Hv. þm. er mikið á móti því nýmæli, að fræðilega menntaður maður geti komið til greina sem aðaldómari. Einn af göllum hæstaréttarlaganna frá 1919 er einmitt það, hve þröng skilyrðin eru fyrir vali dómaranna og of gamaldags. Hér er gert ráð fyrir því, að takmörkin verði nokkuð rýmri. Það er t. d. ætlazt til, að málfærslumennirnir geti komið til greina. Þó lítið sé í þeirra hópi um fræðilega menntaða menn, þá fá þeir þó nú orðið mikla æfingu vegna fjölbreyttra mála, er þeir fást við. Það, sem var mestur galli að þessu leyti á lögunum frá 1919, var það, að eftir þeim gátu fyrst og fremst þeir orðið dómarar, sem sökum aldurs og lítillar kynningar af lífinu eins og það gerist nú á tímum voru hættir að skilja nútíðina. Þeir voru mótaðir af anda fyrri aldar. Þessir menn höfðu gegnt tiltölulega einhæfum verkum og höfðu því ekki fylgt þróun þjóðlífsins eins og skyldi. Ég vil máli mínu til sönnunar minnast á einn mann, sem nú er dáinn. Geri ég það þó ekki til þess að niðra honum á nokkurn hátt, heldur aðeins til að sýna, hvernig þessu er varið, jafnvel þó miklir hæfileikamenn eigi í hlut. Sá maður, er ég vil nefna, er Valtýr heit. Guðmundsson. Hann var bæði gáfaður og vel menntur maður og tók mikinn þátt í málefnum Íslands um síðastl. aldamót. En það var á allra vitorði, að síðustu árin, sem hann lifði, var hann alveg hættur að fylgjast með í þeirri þróun, sem hér varð á síðari árum. Einhæf fræðimennska leikur oft þannig hina mestu gáfumenn. Að vísu lá nokkuð af ástæðunni fyrir því, að svona fór fyrir V. G., í því, að hann var búsettur erlendis.

Eins og sjá má á frv. þá koma sýslumenn til greina og yfirburðafræðimenn meðal lögfræðinga. Það mun reynast svo, að mestur vandinn á hverjum tíma og hvaða stjórn, sem situr við stýrið í hvert sinn, er sá, úr hve fáum verður að velja, sem til greina geta komið vegna hæfileika. Er því ekki rétt að útiloka neinn þann flokk lögfræðinga, sem hugsanlegt væri, að komið gæti til greina við það val.

Þrír af alþekktustu lögfræðingum okkar, Hannes Hafstein, Sveinn Björnsson og Sigurður Eggerz, hafa verið útilokaðir frá því að geta verið dómarar í hæstarétti, því að þeir höfðu ekki nema 2. einkunn. En þessi 1. eink. segir ekki svo ákaflega mikið. Það geta verið menn, sem eru móttækilegir fyrir skoðanir annara, en síðan er eftir að vita, hvernig þeir reynast í lífinu; þeir, sem höfðu lægri einkunnina, reynast oft sízt lakari, jafnvel öllu betri.

Ónotaþyrnir var það í auga hv. þm., að stungið var upp á, að dómari í fimmtardómi skyldi hafa nokkra þekkingu í siglingafræði. Hann vísaði þessu bara frá eins og hverri annari fjarstæðu, en hrakti jafnskjótt skoðun sjálfs sín með því að benda á mál, sem nú liggur fyrir hæstarétti og verður honum talsvert erfitt, af því að sérþekkingu vantar. Mér þykir alveg einsætt — eins og rök eru leidd að í grg. frv. (7. atriði) —, að þar sem mjög mikill hluti af málum hæstaréttar og oft stærstu málin hafa snert sjómennsku, en þessi mál hafa oft víðtækar afleiðingar, þá sé það barnaskapur að hafa á móti því, að dómarar eigi að hafa eitthvert vit á þessum hlutum. Það sýnist aðeins koma svo flatt upp á hv. þm., af því að hann hefir ekki vit á þeim hlutum sjálfur. Hann heldur, að veröldin spillist öll, ef örlítið gran af þekkingu kæmist þarna inn.

Í frv. er lítið tekið fram um þessar kröfur um kunnáttu í siglingafræði. En ég álít, að gera ætti töluvert strangar fræðilegar kröfur í framtíðinni. Hinsvegar er ekkert, sem gat gefið hv. þm. tilefni til að halda, að þeir hefðu átt að vera skipstjórar eins og Ögmundur Pálsson. Þessi tregða gegn þekkingunni verður hv. 4. landsk. þm. til minnkunar. Það væri helzt, að hann kynni að hafa sóma af því í þjóðfélagi, þar sem fáfræðin væri sérstaklega verðlaunuð í ábyrgðarmiklum stöðum.

Þá hélt hv. þm., að hann hefði ekki skilið ákvæðið, að dómarar ættu ekki að vera yngri en þrítugir og ekki eldri en sextugir. Hann hefir skilið það rétt, að ekki er hægt að skipa í embættið mann, sem er 61 árs eða 63–64 ára og hann geti svo farið frá um 65 ára aldur með fullum launum. Ef orðalag þarf gleggra, má laga það í nefnd.

Þá kom hv. þm. að sjálfsköpun réttarins. Því að það er það, sem fyrir honum vakir, að rétturinn eigi í öllum aðalatriðum að vera sjálfskipaður; hann eigi ekki að vera í neinu sambandi við framkvæmdarvaldið. Hv. þm. veit, að þessi skilgreining á skiptingu valdsins, frá 18. öldinni, hefir ekki haldizt betur en það, að framkvæmdarvaldið veitir nú öll þessi embætti, nema þar sem dómarar eru kosnir, eins og í Sviss. Það, sem fyrir hv. þm. vakir, er, að framkvæmdarvaldið hafi engin teljandi áhrif á dómsskipunina. Nú eru liðin 12 ár síðan hæstiréttur var skipaður, og mér er ekki kunnugt um annað en að allir þeir menn, sem þar hafa átt sæti, hafi komið inn óprófaðir og allt gengið ágætlega fyrir því. Það, sem gerðist 1918, var aðeins það, að Jón Magnússon veitti öll embættin, og þar var ekkert próf og engar vífilengjur. En hv. 4. landsk. þm. vill gera þessa veitingu Jóns Magnússonar eilífa, svo framarlega sem íslenzka ríkið verður eilíft. Það á að ganga eins og hjá kaþólskum mönnum, sem álíta, að blessun Péturs postula fylgi öllum hans eftirmönnum og breiðist frá þeim koll af kolli til allra vígðra þjóna kapólskrar kirkju. Þessi blessun Jóns Magnússonar á þá að ná til allra dómara í hæstarétti og fimmtardómi um ókomnar aldir. Ég vildi, að hv. þm. útskýrði, hvaða guðdómlegt augnablik það var, þegar Jón Magnússon mátti festa í einu alla dómara réttarins, en að því vísdómsvali loknu mátti slá því föstu, að enginn annar ráðh. gæti gert neitt vit í vali dómara.

Ég vildi annars þakka blaði, sem ég vil ekki nefna, nokkur orð, sem það lét falla út af þessu máli nýlega, — og þó gera þau mig nálega feiminn. — Eftir þeim lítur út fyrir, að öll stjórnin muni sitja a. m. k. mannsaldur. Það er ekki einungis, að stjórnarskipti megi ekki verða. Það er ekki nóg, að sami flokkur haldist við völd; hann má ekki einu sinni skipta um mann í mínu starfi. Nokkuð svipað var að heyra á hv. 4. landsk. þm.

Það mundi helzt verða ég, sem um nokkuð langa framtíð veitti þessi embætti. Ég held, að þetta sé allt of mikið hól. Þó að ekki liti vel út fyrir flokki hv. þm nú sem stendur, býst ég við, að það mun lagast, áður en langt um líður, svo að ég skal hughreysta hann með því, að það er ákaflega líklegt, að íhaldsmenn komi kannske aðallega til að veita embættin. Og þeir hljóta að treysta sjálfum sér til þess.

Annars hafa máske hv. þdm. tekið eftir því, að hv. þm. var svo varasamur að segja ekki meira en að flestar þjóðir létu réttina skapa sjálfa sig. Undantekningarnar eru þó nokkuð margar. Fyrst þær þjóðir, sem kjósa dómara, eins og Svisslendingar, sem að vísu eru nokkuð fjarlægir okkur og óskyldir, en standa þó áreiðanlega á sízt lægra menningarstigi. En sú þjóðin, sem næst er, Norðmenn, hafa gert það hryllilega glapræði að velja í dómarasæti menn með hinar ólíkustu lífsskoðanir, og þeir hafa opinbera atkvæðagreiðslu. Það þykir þar svo sjálfsagt, að enginn maður er svo íhaldssamur, að honum detti í hug að breyta þessu. Svo mikil hætta þykir þar á, að þetta atriði, sjálfsköpun æðsta dómstólsins, geti orðið misbrúkað, er til lengdar líður, af fámennum hópi. En segjum nú t. d., að skipta þyrfti um alla dómara í einu, og hv. 4. landsk. þm. vildi ganga undir próf, og það álít ég sjálfsagt fyrir hann, — þá yrði að fá menn, sem ekki hefðu fengið þessa postullegu blessun, til að dæma um prófraunina og vígja hina nýju dómendur. Og raunar þyrfti alltaf, til þess að rétturinn væri ályktunarfær, að sækja þriðja manninn til að vera við prófið. Þannig yrði rétturinn ekki einfær um að endurskapa sig til lengdar. Hinsvegar getur mjög auðveldlega komið fram stjórnskipuleg deila, sem erfitt yrði að leysa. Ef rétturinn tæki sig til og felldi t. d. 5 menn í röð, sem stjórnin vildi setja í laust embætti þar, þá er rétturinn ekki einfær um að skapa dómara. Þá mundi enginn fást dómarinn. Það verður þá, þegar allt kemur til alls, framkvæmdarvaldið, sem hefir ráðin, því að það hefir undirskriftarvaldið. Það er aðeins hægt að tefja með þessu prófi. Og hvað er landsstjórnin á hverjum tíma? — Ekki annað en niðurstaðan af vilja þjóðarinnar við næstu kosningar á undan. Ef stjórnin stígur einhver óheppileg spor, líða ekki nema 2–3 ár, unz þau eru máð út. Aftur getur einn réttur haldið áfram að endurskapa sjálfan sig, þangað til hann er eins og leifar aftan úr fjarlægri fornöld. Tökum dæmið frá Þýzkalandi eftir ófriðinn. Dómarnir um eignir furstanna hefðu varla farið eins og þeir fóru, ef dómararnir hefðu ekki yfirleitt verið frá keisaratímabilinu. En það má kannske ekki móðga þýzku stórþjóðina með því að fjölyrða um þetta. Dæmið sýnir aðeins, að þótt dómararnir hafi fyrst og fremst lögin til að dæma eftir, hafa þeir líka lífsskoðanir, sem þeir hljóta að fara eftir. Yngri þýzkir dómarar líta nú allt öðruvísi á eignarrétt þessa tiginborna fólks. Ég ímynda mér, að hv. þm. viti, að úr þessu varð mikill pólitískur árekstur og vandamál, af því að þjóðlífið var í óeðlilega gömlum skorðum í dómsmálum, og að nú er varla nokkur maður, sem trúir eins og gömlu dómararnir, að Vilhjálmur annar hafi gert allt í nafni guðs almáttugs.

Í umr. um málið hefir verið bent á, hvernig Norðmenn haga þessum málum. Ummæli hv. 4. landsk. þm. um það ná ekki neinni átt, nema sannað sé, að Norðmenn séu heimskari en aðrar þjóðir.

Þá var hv. þm. mjög hneykslaður á því, að ég tók fram, að allir flokkar ættu að hafa fulltrúa í dóminum. Þetta hlyti að leiða af því, að stjórnir úr ýmsum flokkum sitja til skiptis og koma inn mönnum með ný sjónarmið. Og það þyrfti ekki að vera ofsókn né hlutdrægni, þótt hv. 4. landsk. þm. yrði veitt eitthvert embætti af stjórn úr flokki hans. Það væri aðeins eðlileg afleiðing, að ósjálfrátt hljóta að koma inn menn af ólíkustu flokkum og með ólíkustu lífsskoðanir. Hitt er meinloka, að nokkur einn flokkur geti haft sérstakt gagn af þessu. Það er tryggt með þessu, að fjölbreyttari hugsunarháttur verði í réttinum en með því, að dómurinn endurskapi sjálfan sig öld eftir öld. Annars fellu þau orð hjá hv. 4. landsk. þm., að hæstiréttur væri á móti núverandi stjórn. (PM: Hvaða orð voru það?). Fyrst hv. þm. tekur það aftur, skal ég ekki fara út í það. En e. t. v. álítur hann, að hagsmunum stjórnarflokksins sé ekki sem bezt borgið í réttinum eins og hann er nú.

Hv. þm. minntist á, að í frv. í þeirri mynd, sem það var í í fyrra, var ákveðið, að dómarar í hæstarétti gætu farið í fimmtardóm eins og embættismönnum, sem sátu í æðstu stöðum Reykjavíkur, var gefinn kostur á, þegar breytt var skipun á embættum þeirra, og annar þeirra tók við því embætti, sem raunverulega var smíðað upp úr fyrra embætti hans. Ýmsar ráðstafanir miðuðust í fyrra við það, að þeir færu í réttinn; það var tekið fram, að ákvæðin um lögaldur næðu ekki til þeirra o. fl.

Um opinberu atkvæðagreiðsluna var hv. þm. mér alveg samdóma. Annars kom nokkur óróakippur á hv. þm., þegar hann var búinn með röksemdir sínar og fór að tala frá eigin brjósti. Ég ætla ekki að rekja stóryrði hans. En hann sagði, að ég hefði talað ógætilega um hæstarétt. Það er hreinasti misskilningur, að ekki megi tala um réttinn eins og aðrar þjóðfélagsstofnanir. Hv. þm. ætti að vita, að í stóru löndunum eru gefin út heil tímarit, sem er eingöngu „kritik“ á dómum. En hér hefir það verið talin goðgá að halda því fram, að dómar hæstaréttar gætu verið gallaðir. Ég vil benda á, að einn háttsettur málfærslumaður hefir samt sagt, að ekkert réttlæti væri til í landinu, úr því hæstiréttur dæmdi eins og hann gerði í tilteknu máli. Og til þess að gera hv. þdm. ljóst, hver ágætismaður þetta er, ætla ég að geta þess, að hann er mjög stór hlutaeigandi í Mbl. Og flokksbræður hans hafa aldrei skelfzt yfir því, þó að svo kröftug orð hafi birzt á prenti eftir þennan mann.

Mér þótti hv. þm. seilast nokkuð langt um hurð til lokunnar, þegar hann tók upp hanzkann ekki aðeins fyrir núlifandi flokksbræður sína hér á landi og í Danmörku, heldur fyrir Estrupsstjórnina líka. Það er þó fullmikil ræktarsemi. Hann tekur þetta allt of hátíðlega. Sá ráðni og reyndi maður Zahle, sem nú er dómsmálaráðherra Dana, hefir nýlega „kritiserað“ Bergs-dóminn frá tímum þeirrar gömlu íhaldsstjórnar, í tilefni af því, að farið var fram á, að atkvæðagreiðsla og rökstuðningur skyldu vera opinber í hæstarétti Dana. Í Danmörku er enginn, sem ver það mál lengur. En hv. 4. landsk. þm. vill nú verja það fyrir einhverja dána Dani, þetta sem Zahle leyfði sér með ákaflega sterkum rökum að fordæma. Ég ætla ekkert að fara út í deilurnar í Danmörku. Núverandi yfirmaður dansks réttarfars hefir látið uppi sinn dóm fyrir fáum mánuðum, og ég býst við, að ég lofi Zahle að vera einum um að gefa vottorðið um þetta afskaplega fullkomna réttlæti. Þegar hv. þm. segir, að Berg hafi lifað frjáls nokkur ár, eftir að hann missti heilsuna, þá er það líkt og með Hannes Hafstein, sem lifði nokkur ár, eftir að allir kraftar voru þrotnir.

Hv. þm. „fornermaðist“ út af ummælum í grg. frv. um Pál Halldórsson. Hann lagði í þau þá merkingu, að Páll ætti að hafa svarið meinsæri, er hann tók að sér að verja mál togarans. Þá ætti hv. 4. landsk. þm. að hafa svarið eins mörg meinsæri og hann hefir flutt mörg mál. (PM: Þetta er nú illa „ræsonnerað“). Það er mjög leiðinlegt fyrir þennan mæta mann, stýrimannaskólastjórann, sem verið hafði ráðunautur hæstaréttar í slíkum málum sem þessu, að hann fór strax að blanda sér í það fyrir undirrétti. Skipið var ekki fyrr komið að landi en hann tók að bera fram málsvörn fyrir það. Ég segi ekki, að það hafi verið lagaskylda Páls Halldórssonar að bíða eftir óhlutdrægum upplýsingum áður en hann tæki afstöðu sína til þessa landhelgismáls, en það var siðferðisskylda, þar sem hæstiréttur hafði að jafnaði litið á upplýsingar hans sem óhlutdrægar í slíkum málum. Þá mátti hann ekki byrja á því að gefa Belgaum ráð fyrir undirrétti. — Ég bjóst alls ekki við því, að Páll Halldórsson hefði reynt að vera leiðbeinandi hæstaréttar í þessu máli, því að það gerði aðstöðu hans svo mikið tortryggilegri, eftir það sem á undan var komið.

Þetta allt sýnir enn betur, að rétturinn má ekki fara út í bæ til að leysa úr þeim málunum, sem eru algengust og þýðingarmest.

Það getur verið, að ég geri ráðstafanir til þess, að Páll Halldórsson eigi auðvelt með að ganga að þessum orðum, að ég skrifi grein í opinbert blað, þar sem þessi orð standi, svo að hann geti farið í mál án þess að blanda Alþingi inn í það. En Páll Halldórsson má búast við að verða að standa fyrir sínu máli líka. Og raunar sé ég ekki, hvaða meiðyrði það eru, að segja, að hann hafi tekið að sér að verja mál íslenzks togara. Sé það saknæmt verk, liggur það ekki í orðunum, heldur í eðli verksins sjálfs.