16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í C-deild Alþingistíðinda. (1760)

137. mál, fimmtardómur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Hv. 4. landsk. þm. hélt langa ræðu og sýndi málafærslumannshæfileika sína, sem flestum dm. munu hafa áður kunnir verið; ef ekki af eigin reynslu, þá af afspurn. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að um leið og ég skýrði frá, að frv. væri flutt eftir beiðni hæstv. dómsmrh., þá vildi ég með því skjóta mér undan allri ábyrgð á grg. fyrir frv. En ég var alls ekki að taka þetta fram af þeim hvötum, heldur til þess að segja sannleikann og ekkert annað. Ef hv. þm. finnur einhverja ábyrgð á mér hvíla, þá er ég fús að taka við henni. Þetta sýndi, að hann hélt meir fram vörnum málafærslumanns en að hann tæki málið óhlutdrægt. Ég býst við, ef málið fer frá þessari umr., þá sé aðstaðan svo í þinginu, að við eigum kost á að ræða það á öðrum stað, þ. e. í allshn., svo að smáatriði, sem okkur kann að greina á um, megi bíða. En ég taldi ekki rétt að taka þegjandi við ásökunum um, að ég hefði viljað koma mér undan ábyrgð.