16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í C-deild Alþingistíðinda. (1761)

137. mál, fimmtardómur

Pétur Magnússon:

Það er misskilningur hjá hv. flm., að ég hafi dróttað því að honum, að hann vildi skjóta sér undan lagaábyrgð með því að geta þess, að Jónas Jónsson dómsmrh. hefði samið grg. frv. Ég benti aðeins á, að hann gæti ekki komizt undan siðferðilegri ábyrgð á því að leggja slíkt plagg fyrir Alþingi, þó annar hefði samið það.

Það var ekki sérlega margt í ræðu hæstv. dómsmrh., sem ég þarf að svara við þessa umr. Nokkur atriði þó. Hann byrjaði ræðu sína með því að segja, að ég hefði gert sér greiða með því að sýna, hve mörgu væri ábótavant og hve lítið hefði verið gert til umbóta. Ég væri á sömu braut og hann. En ég hefi ekki séð neitt af umbótunum koma frá honum, engar bætur á göllunum, sem ég tel alvarlegasta á réttarfarinu.

Ég vissi vel um þær breytingar á hæstaréttarlögunum, sem fram komust í stjórnartíð Jóns Magnússonar og bornar voru fram af honum og samþ. með tilstyrk núv. hæstv. dómsmrh. og hans flokks. En í höfuðatriðum taldi ég þær til spillis, einkum fækkun dómaranna. Það hlýt ég að segja, þó að Jón heitinn Magnússon stæði í flokki með ýmsum sömu mönnum og ég nú. Ég fer eftir því hvert málið er, en ekki eftir því, hver hefir flutt það.

Það er ástæðulaust á þessu stigi að þrátta um nafn réttarins. Hæstv. ráðh. sagði, að Norðmenn hefðu tekið upp aftur mörg forn nöfn. Það er rétt um heiti nokkurra borga, þó að nokkuð hafi skipt í tvö horn um ánægjuna. En þeir hafa tekið upp réttnefni, sömu nöfn og tíðkuðust í fornöld á sama bænum. Hér er að vísu reynt að taka upp fornt nafn, en gallinn er, að það átti við allt annarskonar stofnun en hér er um að ræða.

Hæstv. dómsmrh. þekkir það vel sem góður sögumaður, að hæstiréttur hefir allt aðra aðstöðu en fimmtardómur í fornöld, því að hann var þá hliðstæður dómstóll við fjórðungsdómana. Frá þeim var ekki hægt að áfrýja nokkru máli til fimmtardóms, ef þau höfðu orðið dæmd í þeim.

Nafnbreyting þess flokks, sem hæstv. dómsmrh. er tamt að tala um, kemur ekki mjög við málið. En þess má þó geta, að þegar hann fékk nafnið Sjálfstæðisflokkur, við það að tveir flokkar runnu saman, þá vakti það fyrir mönnum að skilgreina flokkinn rétt, láta flokkinn bera réttnefni, en ekki rangnefni.

Ég sé ekki ástæðu til fyrir okkur að þrátta mjög mikið um dómarafjölgunina. Við erum þar á nokkuð líkum vegi, þó að ég sé dálítið hikandi við leið hæstv. dómsmrh. Kostnaðurinn er svo hverfandi, að ef menn álíta á annað borð, að nokkurt aukið réttaröryggi verði að fjölgun dómara, þá tel ég sjálfsagt, að það verði fastir dómarar. Hæstv. dómsmrh . hafði það á móti því, að erfitt mundi reynast að fá 5 hæfa menn í dóminn og í 3 prófessorsembætti. Þetta er á litlum rökum byggt, því að síðari árin hefir útskrifazt næsta margt af hæfileikamönnum í þessari grein, svo að enginn vandi væri að skipa allar þessar stöður vel. Í þessu sambandi benti hæstv. dómsmrh. á nauðsyn þess, að dómarar þekktu vel atvinnulífið. En það eru sannarlega nógu víðtæk ákvæði um skilyrðin fyrir því að verða hæstaréttardómari, til þess að tryggja, að unnt sé að fá menn sem þekki vel til atvinnulífsins. Þarf ekki annað en að benda á málflutningsmannastéttina. Málflm. ættu að þekkja atvinnulífið betur en flestir aðrir. Og það hlýtur alltaf að vera nokkuð mikið af þeim, sem eru „kvalificeraðir“ hæstaréttardómarar.

Ég lagði ekki mikið upp úr ákvæðinu um 1. einkunn. Það er í mínum augum aukaatriði. Það eru mjög litlar líkur til þess, að ekki verði alltaf til nóg af hæfum mönnum með 1. einkunn. Þessir þrír 2. einkunnar menn, sem hæstv. dómsmrh. tók til dæmis, eru, tveir a. m. k., kunnari fyrir annað en sérstaka lögfræðiþekkingu; þeir eru góðkunnir allir sem stjórnmálamenn og atkvæðamenn í ýmsu öðru. En ákvæðin um að dómarar og málflutningsmenn við hæstarétt verði að hafa fyrstu einkunn hafa reynzt uppörvun fyrir menn til að reyna að ná þessari einkunn, og hafa í öllu falli á þann hátt gert nokkurt gagn.

Ég verð að trúa því, að hæstv. dómsmrh. sé full alvara með siglingafræðiprófið. Hann fór að vitna til þess, að í því margumtalaða Belgaumsmáli mundu dómararnir sjálfir hafa getað sett mælingar varðskipsforingjans út í sjókort, er þeir hefðu gengið á „námsskeið“. Það er vitanlega ekkert annað en fjarstæða. Það er sem sé mjög vandasamt verk að setja mælingar út í sjókort, og ekki nema fyrir þaulæfða menn að gera það með fullkominni nákvæmni. Eftir sem áður mundu verða til þess fengnir færustu menn, sem völ er á.

Hæstv. dómsmrh. talaði um sjálfsköpun réttarins og hélt því fram, að ég vildi, að rétturinn væri ekki í neinu sambandi við framkvæmdarvaldið. Þetta er ekki rétt. Ég hefi ekki bent á þá leið, að hæsta réttardómarar einir réðu veitingu dómaraembættanna. Ég sagði, að heppilegasta lausnin væri það samstarf milli framkvæmdarvaldsins og dómstólsins, sem á að vera eftir núgildandi lögum. Annars er það nokkuð erfitt að ræða við hæstv. dómsmrh., af því að hann hugsar ekki eins og aðrir menn. Hann gerir ráð fyrir sem sjálfsögðu, að dómararnir myndu beita hlutdrægni við prófraunina. (Dómsmrh.: Nei, nei, sem möguleika). Hæstaréttardómarar ættu þó að hafa meiri æfingu en flestir aðrir í þá átt að líta hlutlaust á mál, og sé þeim ekki trúandi til að skera samvizkusamlega úr um það, hvort dómaraefni hafi leyst verkefni sitt á viðunandi hátt, þá er réttaröryggi landsins vissulega illa komið. Og það þarf sem sagt alveg sérstakan og, sem betur fer óvenjulegan hugsanagang til þess að bera mikinn kvíðboga út af þessu. Það er miklu meiri hætta, að pólitískur ráðherra, sem getur verið meira og minna réttlátur og meira og minna „fanatískur“, sé einráður um val dómara. Ég vænti þess, að flestir aðrir en hæstv. dómsmrh. sjái, að hættan er miklu meiri, ef framkvæmdarvaldið fær öll ráðin, alveg án tillits til þess, hvort dómsmrh. heitir Jónas Jónsson eða eitthvað annað.

Hæstv. ráðh. sagði, að allir núv. dómarar hefðu verið skipaðir í réttinn óprófaðir. Af hverju? Af því að þeir voru fyrstu dómararnir. Ekki gátu þeir farið að prófa hver annan. Hæstv. dómsmrh. taldi, að það vekti fyrir mér að gera þessa veitingu Jóns Magnússonar eilífa og fór eitthvað út í kirkjusögu máli sínu til skýringar. Ég hefi þegar svarað þessu að efni til og einnig þeirri aðdróttun um hlutdrægni dómaranna, sem felst bak við þessi ummæli.

Það er öðru nær en að ég geri ráð fyrir, að hæstv. núv. dómsmrh. sitji mjög lengi að völdum. En líkur benda til þess, að hann geti búizt við, í vetur og e. t. v. næstu árin, að geta veitt þau embætti, sem losna. Og þá telur hann þetta geta fallið saman við sína hagsmuni. Hitt er ekki annað en rangsnúningur hjá hæstv. ráðh., að ég hafi á nokkurn hátt gefið í skyn, að hagsmunum eins eða annars stjórnmálaflokks væri illa borgið með núv. skipulagi réttarins.

Þá minntist hæstv. dómsmrh. í þessu sambandi nokkuð á Noreg og sagði, að þar væri enginn maður, sem vildi breyta (Dómsmrh.: Ekki aftur á bak). Hann sagði einnig, að meðan ekki yrði bent á, að Norðmenn væru heimskari en aðrar þjóðir, væri ekki hægt að halda því fram, að regla þeirra væri röng. Þetta er nú vitanlega ákaflega hæpin röksemdaleiðsla. Jafnvel þó gengið væri út frá, að Norðmenn væru vitrastir allra þjóða, væri engin sönnun fyrir, að fyrirkomulag þeirra í þessu efni væri hið fullkomnasta, er þekktist. Annars skal því ekki neitað, að hjá þjóð, sem náð hefir allmiklum stjórnmálaþroska, er ekki svo mikil hætta á, að slíkum ákvæðum verði misbeitt, þó að þau séu í lögum. Hann minntist einnig á þýzka dómara og sagði, að furstarnir hefðu haldið eignum sínum af því, að dómararnir voru flestir frá keisaratímunum. Þessi aths. hefir komið frá hv. 2. landsk., að þurft hefði að breyta þýzkum dómstólum, af því að þeir dæmdu eftir gömlum — og gildandi — lögum. Fram að þessu hefir það þótt nauðsynlegt, að dómarar færu eftir lögunum einum, og samkv. stjskr. vorri ber þeim skylda til að gera það. En nú koma þessir góðu menn og segja, að dæma eigi eftir almenningsálitinu! Mundi það ekki geta orðið dálítið stopull mælikvarði?

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri almennur misskilningur hér, að ekki mætti minnast á hæstarétt né dóma hans, en erlendis væru gefin út heil tímarit, sem aðeins „kritiseruðu“ dóma og réttarfar. Mér hefir aldrei komið í hug, að ekki mætti með rökum „kritisera“ hæstaréttardóma. En við getum ekki gengið inn á, að leyfilegt sé að bera fram órökstudda dóma, sem miða aðeins að því að vekja tortryggni gegn réttinum. Um það er deilan, en ekki hitt, hvort gagnrýna megi gerðir hans. — Það er hálf broslegt að heyra hæstv. ráðh. hvað eftir annað reyna að nota til ófrægingar réttinum staðhæfingu, sem málaflm. undir rekstri máls hafði borið fram um sakleysi skjólstæðings síns, sem rétturinn svo dæmdi sekan. Annað veifið virðist mér hæstv. ráðh. ekki liggja svo vel orð til málflm., að maður geti búizt við, að hann vildi taka sem „opinberun“ hvert orð, sem fram gengur af þeirra munni. Ég skal heldur ekki fjölyrða um árásirnar á hæstarétt Dana. Hæstv. dómsmrh. vitnaði til dómsmrh. danska. Ég hefi ekki getað séð orð Zahle ráðherra, en ekki hefi ég trú á, að þau séu á þá leið, sem hæstv. dómsmrh. bar þau fram til stuðnings sínu máli. Allt, sem hann sagði um málið, var að meira eða minna leyti rangsnúið, svo að mér þykir ekki heldur ósennilegt, að þessi orð Zahle séu líka rangfærð.

Þá kem ég að síðasta atriðinu í ræðu hæstv. dómsmrh., um Pál Halldórsson skólastjóra. Hæstv. dómsmrh. kom fyrst með þau einkennilegu rök, að ef orð hans í garð Páls Halldórssonar væru skilin á þá leið, að hann hefði borið ljúgvitni fyrir réttinum, þá mætti segja með sömu rökum, að málaflutningsmenn bæru ljúgvitni fyrir rétti, ef þeir flyttu mál, er töpuðust. Hæstv. dómsmrh. hlýtur nú að vita það, að málaflutningsmenn eru ekki leiddir sem vitni í málum, heldur halda þeir uppi sókn eða vörn í þeim. Aftur á móti var Páll Halldórsson leiddur sem vitni. Ég sé ekki, að hægt sé að skilja orð hæstvirts dómsmálaráðherra í greinargerðinni öðruvísi en að Páll Halldórsson hafi vísvitandi gefið rangar upplýsingar fyrir réttinum.

Það gleður mig, að hæstv. dómsmrh. skuli ætla að láta hefja rannsókn gegn Páli Halldórssyni. Bendir það til þess, að hæstv. ráðh. hafi einhverja trú á sínum málstað, og er það þó afsakanlegra heldur en að hann bæri fram ásakanirnar án þess að hafa hinn minnsta trúnað á málstað sínum.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að það hefði átt að vera skylda skólastjórans að bíða með að láta í ljós álit sitt á Belgaums-málinu, en hann hefði farið að skipta sér af því áður en það var komið fyrir hæstarétt. Ég veit nú ekki betur en að málinu væri áfrýjað strax eftir að dómur var upp kveðinn í undirréttinum, og getur skólastjórinn því ekki hafa haft afskipti af málinu fyrr en fyrir hæstarétti. Það er reglan, að málaflutningsmennirnir snúi sér til sérfróðra manna, til að fá upplýsingar um mál það, er þeir flytja, því að þeir hafa upplýsingarskyldu fyrir réttinum. Í þessu máli sneri verjandi sér til Páls Halldórssonar, og hann setti svo þær mælingar á sjókortið, sem hann var beðinn um.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, en mun tala um það nánar í einstökum atriðum við 2. umr.