16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í C-deild Alþingistíðinda. (1762)

137. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég skal aðeins segja örfá orð, því ég er á sömu skoðun og hv. 4. landsk. um það, að sem stendur sé ekki ástæða til að bæta miklu við frá hvorri hlið.

Að því leyti, sem ég minntist á það, að Jón heitinn Magnússon hefði viljað breyta hæstaréttarl. árið 1924, þá gerði ég það vegna þess, að mér fundust það nokkrar upplýsingar um málið, að sá maður, sem fyrst og fremst skapaði réttinn árið 1919, skyldi vilja breyta honum eftir fáein ár.

Hv. 4. landsk. vildi ekki fallast á þá viðleitni, sem lýsir sér í frv., að fá íslenzk söguleg nöfn í stað danskra skrípanafna. Kom hv. þm. með þau rök, að fimmtardómurinn forni hefði verið allt annars eðlis en hæstiréttur er nú. En þessi rök ættu þá sérstaklega við Alþingi, því að meiri munur er á Alþingi til forna og nú heldur en á fimmtardóminum og hæstarétti. Samkv. þessu hefði Jóni Sigurðssyni og öðrum getað dottið í hug að kalla Alþingi lögþing, eða eitthvað slíkt. En þeir voru þjóðræknari menn en svo, að þeir létu sér detta það í hug. Og sá var munurinn hér og í Noregi, að Danir reyndu á engan hátt að spilla fyrir þessari þjóðernisviðleitni vorri, eins og þeir hafa gert í Noregi, þegar um nafnabreytingu er þar að ræða, þar sem dönskum nöfnum er byggt út.

En munur hins forna Alþingis og þingsins nú á dögum er geysimikill. Hafa flestir hv. þm. átt kost á að sjá þann mikla mun með eigin augum, því að á Þingvöllum í sumar var hvorttveggja gert: Haldnir almennir þingfundir og leikið atriði frá Alþingi hinu forna. Kom þá hinn mikli munur mjög greinilega í ljós.

Hvað viðvíkur tölu dómaranna, þá álít ég, að sá kostur, sem tekinn er í frv., sé mjög heppilegur. Því að til hæstaréttar ganga mjög mörg mál, sem eru svo lítil, að þau þarfnast alls ekki fimm dómara. Skal ég aðeins minna á mál eins og t. d. einföld áfengismál, bifreiðamál o. fl. slík mál. Væri ef til vill æskilegt, að til væri einskonar milliréttur til að dæma í slíkum málum. Í stórum dómstólum erlendra þjóða skipta dómendur sér jafnan í deildir, ef ekki er um stórmál að ræða, og kemur það sjaldan fyrir, að full tala dómenda dæmi.

Um sjófræðiþekkinguna vil ég endurtaka það, að ég álít, að engin vandræði séu hinum yngri mönnum að afla sér slíkrar þekkingar. Það er litið svo á, að hægt sér fyrir menn, sem enga undirstöðuþekkingu hafa, að ljúka skipstjóranámi á einum vetri. Það leiðir því af sjálfu sér, að menntamönnum, sem lært hafa mikið í stærðfræði og stjörnufræði, muni ekki veitast það sérstaklega erfitt að ljúka slíku námi, svo að þeir gætu dæmt í sjómálum og byggt á þekkingu. Og úr því að meiri hluti þeirra mála, sem koma fyrir hæstarétt, eru sjómál, þá verð ég að álíta, að slík þekking sé ekki ónauðsynlegri en þekking á löggjöf Rómverja.

Hv. 4. landsk. sagði, að það gæti ekki verið nein hætta að láta dómendurna ákveða sjálfa, hverjir teknir skuli í dóminn. Því hættu þá Norðmenn við það fyrirkomulag? Þeir hafa þó meiri þekkingu og reynslu í þessum málum en við.

Ég hefi þegar látið í ljós skoðun mína á Belgaums-málinu og skal ekki fjölyrða meir um það nú. Út af því geta sprottið eitt eða tvö mál. En ég verð að segja það, að ég álít það því verra fyrir hæstarétt að ætla að komast af án þekkingar á sjómálum ef hann verður að fara út í bæ og leita sér þar aðstoðar hjá misjafnlega heppilegum mönnum um vandamestu atriðin. En allra verst er þó það ástand, sem hv. 4. landsk. er svo ánægður með, að dómararnir hafi enga þekkingu á málunum, en verði eingöngu að byggja á málaflutningsmönnunum og þeirra keyptu aðstoðarmönnum.