16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í C-deild Alþingistíðinda. (1764)

137. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki mörg orð til þess að svara hv. 1. landsk. Hann virðist ekki skilja þá gr. frv., sem tekur fram skilyrðin fyrir því, að menn geti orðið aðaldómarar í fimmtardómi. Í þeirri gr. stendur ekkert annað en skilyrðin. Hið fyrsta er, að maðurinn hafi tekið lagapróf með 1. einkunn. Annað skilyrðið er um það, hver undirbúningsstörf hann skuli hafa af hendi leyst. Þriðja, að hann hafi tekið próf í siglingafræði. Fjórða, að hann sé ekki eldri en 60 og ekki yngri en 30 ára. Og fimmta skilyrðið er um skyldleika. Allt þetta á við, þegar um inntöku í dóminn er að ræða. Ég gat þess í svari mínu til hv. 4. landsk., að ég hefði ekkert á móti því, að þetta væri orðað enn nákvæmara, ef það er hægt. Getur nefndin bætt þarna í orði, ef teksti frv. og yfirlýsing þess, sem hefir undirbúið frv., er ekki talin nægja.

Það, sem hv. 1. landsk. sagði um, að dómarar hefðu oft enga þekkingu á því, sem þeir dæmdu um, held ég að stafi frá of mikilli bölsýni frá hans hálfu. Það, sem t. d. nú gerir nám lækna erfitt og setur þá út fyrir daglegt líf, er meiri og meiri sérfræði, sem af þeim er heimtuð. En þeir leggja það þó á sig. Lögfræðingar, sem vilja fullkomna sig fyrir dómarastarf, ættu að geta lagt það á sig að bæta við nám sitt siglingafræði. Dómari, sem tæki til starfa um 30 ára gamall og sæti í dómi minnst 30 ár, myndi á öllum þeim árum dæma mörg hundruð dóma, þar sem hann nyti þeirrar þekkingar. Ég held, að þeir verðu þeim tíma ekkert illa, sem þeir notuðu til þess að setja sig inn í siglingafræði. Ég held, að það séu ekki aðrir en sérstakir bjánar, sem setja sig á móti því, að þeir veiti sér þá þekkingu. Þeir ættu á engan hátt að geta spillzt neitt á því. Hv. 1. landsk. sagði, að þó þeir lærðu þetta, þá mundu þeir fljótlega gleyma því. Hann heldur það víst af þeirri ástæðu, að þeir verða ekki alltaf á sjó. Þessi rök hv. 1. landsk. sannfæra mig um það, að 1. einkunn í skólum er ekki alltaf einhlít. Hv. þm. tók víst 1. eink. og þótti allgóður námsmaður á sínum tíma. Þó ályktar hv. þm. nálega ávallt rangt. Nú er það svo, að maður, sem er 1–2 vetur á stýrimannaskólanum, getur tekið við skipi. Þó hefir ekki nema brot af þessum tíma farið til þess að nema siglingafræði, hinn hlutinn hefir farið til annars náms. En eftir þetta brot úr tiltölulega stuttu námsskeiði fá skipstjórarnir æfingu sína úti á sjó. Lögfræðingar, sem tækju sér tíma til þessa náms, mundu verða fullkomnari málfærslumenn. Þeir mundu svo, eins og skipstjórarnir, halda náminu við, eftir því sem staða þeirra heimtar, hvort heldur þeir eru dómarar eða málfærslumenn. Öll rök hv. þm. eru því út í loftið.

Hv. l. landsk. vek að setningu fimmtardóms í fornöld og taldi, að hann hefði verið settur á stofn til að dæma í mútumálum. Sá, sem setti dóminn á stofn, hafði ekki mútað sjálfur. En það voru ýmsir aðrir, sem voru slæmir á þeim sviðum. Aðstaðan kann einmitt nú að vera lík að ýmsu leyti. Og það, sem komið hefir mönnum þeim í illt skap úti um bæ, sem tal áttu við hv. þm. um grg. frv., er vafalaust það, að einmitt í grg. er talað um ýmsar misfellur, sem átt höfðu sér stað í stjórnartíð hv. 1. landsk. Síðan hafa verið gerðar nokkrar umbætur, þótt meira þurfi að gera.

Hv. þm. fór að tala um það, að grg. frv. væri hneykslanleg og velsæmi þingsins ósamboðin. Mér datt í hug, að vandlæting hv. þm. væri eitthvað svipuð því og ef fullur maður færi að predika bindindi. Sjálfur er hv. þm. frægur fyrir þingsafglöp. Mun ég þó ekki fara út í það nánar nú. Til þess gefst væntanlega tækifæri síðar.

Þá var hv. þm. eitthvað leiður yfir því, að minnzt er á hæstarétt Noregs og Danmerkur í grg. Hann þoldi ekki, að talað væri um hæstarétt Dana á Estrups-tímanum. Ég held þó, að þetta sé allt of mikil viðkvæmni hjá hv. þm. Hann þolir ekki, að minnzt sé á afglöp síns eigin flokks, og ekki heldur á hliðstæð afglöp íhaldsflokksins danska frá liðnum tíma. Þetta held ég, að sé alveg óþörf viðkvæmni, þótt um andlega skyldan flokk sé að ræða. Nú eru Norðmenn búnir að breyta þessum málum í annað horf hjá sér. Þeir hafa tekið valdið af réttinum sjálfum til að veita dómaraembættin og afnumið leynilega atkvgr. Í Danmörku er það orðið samkomulag flokkanna að breyta aðeins þessu atriði nú í ár.

Ég get nú varla stillt mig um, fyrst hv. 1. landsk. telur okkur svo vandfarið við aðrar þjóðir, að ekki má minnast á sögulega viðurkennda og sannaða atburði, að minna hann á eitt dæmi af því tægi. Ég er nú reyndar sammála hv. þm. um það, að vandfarið sé með sambandið við aðrar þjóðir. En ég get ekki stillt mig um að minna á eitt sérstakt atriði, er kom fyrir hv. þm. fyrir nokkrum árum. Þá gerði hv. þm. áberandi stjórnmálaafglöp gagnvart framandi þjóð. Það var þegar Reykjavík stóð í samningum um eldsvoðatryggingu fyrir bæinn við erlend félög. Þá talaði hv. þm. svo um Þýzkaland, að talið var mjög móðgandi fyrir þá þjóð. Hann taldi þá, að Þýzkaland væri svo illa statt fjárhagslega, að ekkert væri eigandi við þýzkt vátryggingarfélag, er þó stóð með sérstökum blóma. Og þótt fjárhagur ríkisins væri ekki sem allra beztur, þá var fávizka að telja, að ekki væri hægt að reka verzlun við þýzk firmu. Hann fór þar með fávísar og ósannaðar dylgjur, sem voru til skammar fyrir Ísland. Ég aftur á móti hefi aðeins getið um sögulega sannaða atburði.

Þá voru einkennileg rök hv. þm. út af Páli Halldórssyni skólastjóra. Skólastjórann langar til að fara í mál við mig, og ég fyrir mitt leyti vil lofa honum það. Jakob Möller mun líka einu sinni hafa fengið slíkt leyfi, en notaði það ekki. — Annars er það meiningin með ákvæði stjskr. um friðhelgi þingmanna, að þeir fái ekki alla á hálsinn, þótt þeir segi hispurslaust meiningu sína. En ég er nú svo frjálslyndur, að ég ætla að gera skólastjóranum enn léttara fyrir með því að endurtaka þessi ummæli mín utan þings. Annars ber þeim illa saman hv. 4 og hv. 1. landsk. Hv. 4. landsk. álítur sjálfsagt að setja af stað málshöfðun gegn skólastjóranum. En hv. 1. landsk. taldi það alveg voðalegt. ef slík rannsókn yrði hafin. En þeir mega gæta að því, að það er allt annað mál, hvort hann stýrir vel skóla sínum eða hvort hann hefir í þessu tilfelli brugðizt skyldu sinni sem trúnaðarmaður hæstaréttar í þessum málum.