16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í C-deild Alþingistíðinda. (1766)

137. mál, fimmtardómur

Jón Þorláksson:

Hæstv. ráðh. sagði, að það væru ekki aðrir en sérstakir bjánar, sem ekki væru sér sammála um það, að dómaraefni hefðu gott af að nema siglingafræði. Ég get nú tekið mér það létt, þótt hæstv. dómsmrh. tali um bjánaskap í minn garð, því það vita allir, að hæstv. ráðh. er ekki sjálfur dómbær á þeim sviðum, er hann talar um. En það, sem ég sagði, var, að þau fræði, sem til þess þyrfti að nema, að geta dregið upp á kort mælingar svo nákvæmt sé og dæmt um þær, væru svo þung, að ekkert gagn væri í því, þótt menn hefðu einhverntíma gengið á stutt námsskeið í siglingafræði. Ég hafði nú ekki sagt neitt meira en þetta, og það hefir ekki verið hrakið. Hér er því ekki um neitt annað að ræða en þekkingarskort hæstv. ráðh. sjálfs, sem eftir venju glepur honum sýn. Hæstv. ráðh. þóttist hafa heyrt fullan mann predika bindindi. Ég hefi nú aldrei heyrt það. En ef slíkt getur átt sér stað, þá er það víst sambærilegast því, þegar hæstv. ráðh. talar um siðgæði í opinberu lífi eða spillingu í tíð annara stjórna en hans eigin, og þá einkum kringum hans eiginn stól. Ég hafði nú ekki ætlað mér að velja þessa stund til að tala um það atriði. En hæstv. ráðh. má vera viss um það, að þetta þing líður ekki svo til enda, að ég ekki, að mér lifandi og heilbrigðum, minnist á eitthvað af þeim stjórnarathöfnum, sem fram hafa farið og eru þess eðlis, að venjulegur borgari hefði framkvæmt þær, þá væri hann fyrir löngu dreginn fyrir lög og dóma og dæmdur til hegningar. (Dómsmrh.: En landsdómurinn!). Sá dómstóll heldur verndarhendi yfir öllum svívirðingum stj. og í því skjóli skákar hæstv. ráðh. (JBald: Það má ekki tala svona um dómstólana!). Sá dómstóll tekur ekki afbrot stjórnarinnar til meðferðar meðan meiri hl. þingsins gengur með lokuð augu. En ég skal gera mig ánægðan með að geyma mér þar til síðar að minnast á spillingu stj.

Ég get verið hæstv. ráðh. þakklátur fyrir það, að hann kom með lygasögu um mig inn í þingið, sem áður hafði staðið í blaði nákomnu hæstv. ráðh. og var þar merkt með dulnefni, sem ráðh. notar. Sagan er um það, að ég hafi á fundi hér í bænum farið slíkum óvirðingarorðum um Þýzkaland, að þýzki ræðismaðurinn hafi talið sig stórlega móðgaðan og gert ráðstöfun til þess, að mér væri veitt ofanígjöf. Þetta er allt saman uppspuni. Það sem þarna gerðist og saga þessi snýst sjáanlega um, er einungis þetta: Á fundi, þar sem rætt var um mismunandi tilboð, sem borizt höfðu um brunatryggingu fyrir Reykjavík, minnti ég á, hvernig þá stóð á fyrir Þýzkalandi. Svokallaður Versalasamningur stóð þá enn í gildi og skaðabótakröfur bandaþjóðanna voru slíkar, að engin von var til, að Þjóðverjar gætu innt þær af hendi. Ég benti á, að meðan engin linun fengist á þeim kröfum, þá gæti enginn vitað, hvort þýzk fyrirtæki heldu sinni gjaldgetu og gætu staðið í skilum til frambúðar. Þetta var ekki á nokkurn hátt móðgandi. Enda veit ég ekki til, að neinn aðili þýzka ríkisins hafi tekið það þannig upp, og enginn ræðismaður hefir stefnt til mín ákúrum fyrir þetta. — Þetta fór nú svo, að Þýzkaland fékk linun á skaðabótakröfunum og Reykjavík samdi um tryggingarnar við þýzkt félag. Mér detta í hug ummæli ríkisforsetans og ríkiskanzlarans þýzka, er þeir viðhöfðu, eftir að þessi linun var fengin, sem ég vildi bíða eftir. Þeir kváðu miklu fastar að orði um horfurnar fyrir Þýzkalandi, ef það hefði orðið að búa undir þeim skuldbindingum, sem þeir voru píndir til að gefa. — Mér þótti vænt um, að mér gafst tækifæri til þess að bera þessa sögusögn til baka hér í þinginu.

Ég hefi engu við að bæta það, sem ég hefi áður sagt, um þann skort, sem er á allri velsæmi í grg. frv. Hæstv. ráðh. hefir heldur engu orði af því getað haggað, sem ekki var heldur von.