16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í C-deild Alþingistíðinda. (1768)

137. mál, fimmtardómur

Jón Þorláksson:

Hæstv. dómsmrh. virðist vera allilla að sér, er hann telur það fásinnu að blanda saman fjárhag ríkis, sem hefir orðið undir í hinni ægilegustu styrjöld, sem yfir heiminn hefir komið, við hag einstakra fyrirtækja í sama ríki. Hvaðan heldur hæstv. ráðh., að ríkið fái fé sitt, nema frá fyrirtækjum og einstaklingum í landinu? Þegar kreppir alvarlega að ríkissjóði, verður að taka meira af fyrirtækjunum en þau eru fær um að greiða, svo að það getur jafnvel riðið þeim að fullu. Mér finnst, að sá ráðh., sem ekki getur skilið þetta, ætti ekki að vera að tala um fásinnu og glópsku hjá öðrum.