11.04.1931
Efri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í C-deild Alþingistíðinda. (1772)

137. mál, fimmtardómur

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Svo sem hv. dm. er ljóst af þskj. 317 og 350, hefir allshn. ekki getað orðið allskostar sammála um frv. þetta. Það var rætt allítarlega í n., en fullkomið samkomulag gat ekki fengizt, þó að minni hl., eins og sjá má af nál., vilji ekki ganga alveg á móti frv.

Um málið í heild sinni sé ég ekki ástæðu til að ræða mikið að sinni, þar sem frv. er að mestu leyti shlj. frv. því, sem lá fyrir á síðasta þingi og þá allmikið rætt og að endingu afgr. frá d. En mér þykir samt rétt að geta þess, að þær höfuðbreyt., sem hér eru gerðar á núgildandi hæstaréttarlögum, eru að mestu leyti samhljóða gildandi lögum hæstaréttar í Noregi. Og eins og menn hafa séð í dönskum blöðum, sem hingað hafa borizt fyrir skemmstu, þá hefir einn af hæstaréttardómurum Noregs verið staddur í Kaupmannahöfn, og herma dönsk blöð, að hann hafi skýrt svo frá, að nú vilji enginn í Noregi breyta til hins fyrra skipulags. Einnig þykir mér rétt að minnast þess hér, að það hefir verið til umræðu í Danmörku að breyta hæstaréttarlögunum þar, og virðist svo af þeim fregnum, sem menn hafa fengið af því máli, að Danir telji, að í hæstaréttarlögum Norðmanna sé fyrirmynd að finna. En ég skal geta þess, að bæði í Danmörku og Noregi hafa komið allsterkar mótbárur gegn þessum breytingum, og þá aðallega frá dómurum hæstaréttar. En hinir fróðustu menn í Danmörku virðast hallast að því að breyta sínum hæstaréttarlögum í svipað horf og í Noregi. Einn danskur prófessor hefir, eftir því sem dönsk blöð herma, látið þau orð falla, að andstaða gegn þessum breyt. væri ekki annað en juridisk íhaldssemi, og það væri það sem alltaf mætti búast við, þegar um slíkar breyt. væri að ræða, því að þessum mönnum, sem starfað höfðu undir eldra fyrirkomulaginu, væri þannig farið, að þeir væru alltaf hræddir við það nýja og óreynda. Mér þætti ekki ótrúlegt, að að einhverju leyti mætti segja hið sama um andstöðuna, sem komið hefir hér fram gegn þeim nýmælum, sem í frv. þessu felast.

Ég geri ráð fyrir, að ekki sé ástæða fyrir mig að fara lengra út í að ræða málið almennt. En mér þykir rétt að geta þess, að við í meiri hl. n. leggjum til, að gerðar séu lítilsháttar breyt. á frv. Í raun og veru er það aðeins ein breyt., seinni breytingin leiðir af hinni fyrri. Eins og við höfum tekið fram á þskj. 317, viðurkennum við, að það sé æskilegt, að hæstaréttardómarar hafi sérþekkingu í siglingafræði. En þar sem nú mun ekki vera kostur slíkrar sérfræðslu við háskólann, teljum við ekki rétt að gera þetta atriði að veitingarskilyrði að svo stöddu. Þess vegna leggjum við til, að 3. tölul. 8. gr. falli niður. Hinsvegar teljum við mjög æskilegt, að slíkri kennslu væri komið á í háskólanum í sambandi við lagakennsluna. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið; vil ekki að svo stöddu tala um brtt. minni hl., fyrr en honum hefir gefizt kostur á að gera grein fyrir þeim.