11.04.1931
Efri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í C-deild Alþingistíðinda. (1775)

137. mál, fimmtardómur

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Ég get að sjálfsögðu stytt svar mitt til hv. minni hl., þar sem hæstv. dómsmrh. hefir nú farið yfir flestar brtt. minni hl. og aths. hans fara að mestu leyti saman við mínar skoðanir.

Hv. minni hl. vildi halda því fram, að ég hefði í fyrstu aðallega lagt áherzlu á eitt atriði frv., og það var opinbera atkvæðagreiðslan. Ég tilfærði þetta atriði ekki sérstaklega, en ég vitnaði til samskonar ákvæða í hliðstæðum lögum í Noregi og að því væri ekki rétt að sleppa því að taka þau atriði með, eins og niðurfellingu dómaraprófsins. Það er heldur ekki rétt, að meiri hl. hafi ekki viljað ganga inn á neinar breyt.; hann lét í ljós, að samkomulag gæti orðið um viss atriði, og hv. þm. man, að við umr. n. var samkomulag um mörg atriði. Ég skal upplýsa það, að samkomulagið sprakk aðallega á einu atriði, og það var dómaraprófið, en hitt er ekki rétt, að samkomulag hafi verið ófáanlegt um nokkurt atriði, eins og hv. þm. hélt fram. En þegar það var séð, hvernig fara mundi um þetta þýðingarmikla atriði, var meiri hl. það ljóst, að n. hlaut að klofna.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um brtt. minni hl., en ætla fyrst að minnast á ummæli hans um brtt. meiri hl. Mér finnst hann gera tilraun til þess að snúa út úr afstöðu okkar viðvíkjandi ákvæðum um þekkingu dómaranna í siglingafræði, þar sem hann sagði, að við vildum koma upp einskonar námskeiði við háskólann í þessum efnum. Það er ekkert hægt að finna í nál. meiri hl., sem bendir á það. Við leggjum til, að ákvæði 8. og 64. gr. frv. um siglinganámskeið falli niður, þar til séð verður fyrir fræðslu í því efni við háskólann, sem þykir eiga við. Ég sveigði einmitt að því í framsöguræðu minni, að ég teldi þessa fræðslugrein nauðsynlega í háskólanum, og að ég vonaði, að það yrði séð fyrir fræðslu í henni, er háskólinn þroskaðist betur.

Um 7. brtt. við 4. lið 8. gr. frv., þar sem lagt er til, að tekin séu upp í frv. ákvæði um dómarapróf, notaði hv. þm. svipuð rök hér í hv. þd. og í n. Hann sagði, að engin hætta fylgdi því að fá dómstólnum þetta vald, því að hann mundi ekki nota það með því að fella umsækjanda frá prófi.

Ég verð að játa það, að þetta er utan við það svið, sem mín þekking nær yfir.

Ég get ekki séð, hvaða sanngirni það er, að framkvæmdarvaldið fari með þetta, að láta það tilnefna menn til hæstaréttar. Því ef það misnotar þetta vald sitt, hvar stöndum við þá? En minni hl. staðhæfir, að það komi ekki til, að valdir séu menn, sem hætta er á, að falli. Ég get ekki samrýmt þetta. Svo er eitt enn, sem líka er í mótsögn; frsm. minni hl. sagði, að auðvitað væri ekki útilokað, að óhæfir menn gætu komizt í hæstarétt, en það yrði að vera á valdi framkvæmdavaldsins að koma í veg fyrir þetta.

Mér finnst þessi röksemdaleiðsla þannig, að ég skilji hana ekki. Ég get sagt og skýrt ástæðuna, sem gerir skiljanlegt, að ég skil þetta ekki, en hún er sú, að ég hefi litla þekkingu á þessu sviði, en þar sem ég get komið minni þekkingu á góðum prófum að, þá legg ég lítið upp úr prófum yfirleitt, en þetta er prófraun, og út frá þessari þekkingu minni á öðrum prófum á lægri stigum álít ég þetta próf til hæstaréttar lítilsvirði; því þó ég sem óbreyttur almúgamaður hafi komizt á þing, og hafi ekki sérþekkingu á þessu atriði, þá finnst mér eðlilegt, að ég álykti út frá þeim sviðum, sem ég hefi reynslu af.

Ég vil taka það fram, að ég byggi ekki lítið á, að Norðmenn hafa haft þetta ákvæði í lögum sínum yfirleitt, og hefi sagt, að það er einn hæstaréttardómari þar, sem ekki vill skipta um lögin yfirleitt. — Annars er ekki ástæða til að deila um þetta. Hér er um svo mikinn meiningarmun að ræða, að á þessu atriði strandaði allt, og sprakk samkomulagið á því.

Svo var það 2. brtt., sem ég vildi segja örfá orð um. Það er brtt. um hækkun launa. Hv. frsm. minni hl. sagði, að það þyrfti að launa þessar stöður svo vel, að ekki væru aðrar stöður betur launaðar. Ég veit heldur ekki til, að aðrar stöður séu betur launaðar, nema ef vera skyldi ráðherrastaðan. Það getur verið, að ýmsir „forretningsmenn“ og málaflutningsmenn geti skapað sér betri laun, og öllum er ljóst, að bankastjórar hafa hærri laun, en þjóðfélagið getur ekki elt það. Það verður að miða embættismannalaun við eitthvert fast kerfi; og nú stendur svo á, að embættismannalaunin okkar hér eiga ekki við. Það liggur fyrir endurskoðun á þeim; ég álít ekki rétt að taka þessa sérstöku embættismenn út úr og hækka laun þeirra. Hv. frsm. minni hl. vildi láta skína í það, að fyrir okkur meirihl.mönnum hefði ekki vakað annað í grg. en það, að þar sem þetta atriði sé það eina, sem andstæðingar frv. viðurkenna, að sé rétt, þá sé ekki ástæða til að halda því fram, en það er ekki rétt af honum að halda þessu fram, að þetta hafi verið eina ástæðan til, að meiri hl. var með þessu, því ástæðan var sú, að meiri hl. fannst ekki ástæða til að breyta löggjöfinni í þá átt að hækka launin. Í þessu felst engin umsögn um það, hvort hæstaréttarlaunin séu sæmileg eða ekki; við látum það mál liggja milli hluta, en álítum aðeins, að þau beri að endurskoða sem önnur laun.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða till. minni hl. Þar eru margar afleiðingar af fáum breytingum. Ég vil aðeins geta þess, að ég skildi hv. frsm. minni hl. þannig í n., að fimmtardómsnafnið væri frekar tilfinningamál en að það hefði mikla þýðingu. Mér virtist, að ef það hefði ekki verið annað, sem á milli bar, þá hefði samkomulagið ekki sprungið á því, en hitt skil ég vel, að úr því hann gerði brtt. á annað borð, þá yrðu þær sem róttækastar, og lá ég honum það ekki, en geri ráð fyrir, að hann mundi þó ekki ganga á móti frv., þó þær yrðu ekki allar samþ. En mér þykja líkur til þess, að það velti á því, hvernig fer um ákvæðið um prófin; það kom fram í n., og þarf hv. frsm. minni hl. ekki að koma það á óvart, þó að við höldum fast við okkar skoðanir um það.

Ég læt svo útrætt um þetta mál að öðru leyti en því, að hér í brtt. eru orðabreytingar, sem ég tel, að skipti ekki miklu máli, hvort verða samþ. eða felldar. Þær hafa ekki verulega þýðingu, og tel ég að þær raski ekki mikið ákvæðum frv.

Um það, sem hv. 4. landsk. gaf í skyn, að þetta mál væri flutt og fylgt með flokksfylgi einu saman, er það að segja, að ég tel hann standa höllum fæti með slíka aðdróttun. Ég hygg, að þegar á sögu þessa máls er litið og hún skráð, þá komi í ljós, að þessi ásökun eigi ekki síður við flokksmegin hjá honum. Nú er svo komið, að hv. frsm. viðurkennir, að eitt atriði þessa frv. sé rétt og gott, en í fyrra komst það ekki svo langt.

Ég tel, að hv. frsm. minni hl. hafi ekki ástæðu til að vefengja, að það er trú okkar meirihl.manna, að þessi breyt. verði til bóta fyrir þjóðina. Ég átti ekki von á því, að hv. frsm. minni hl. færi að staðhæfa, sínu máli til hagsmuna, að við heldum fram þessu máli af flokksfylgi.