18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í C-deild Alþingistíðinda. (1783)

166. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Flm. (Halldór Steinsson):

Þetta frv. er flutt að mestu óbreytt eins og Hannes Guðmundsson hefir samið það.

Þessir sjúkdómar, kynsjúkdómarnir, eru erfiðir kvillar og eru að því leyti erfiðari, að mörgum, sem hefir þá, hættir við að draga það að leita læknis. En það hefir það í för með sér, að lengri tíma tekur að lækna þá og að með því orsakast ný og ný smitun. Þess vegna liggur í augum uppi, að þetta eru alvarlegir kvillar, sem verður að stemma stigu fyrir eftir mætti.

Vegna einangrunar landsins var lengi svo, að lítið bar á kvillum þessum; en nú á seinni árum, síðan samgöngurnar urðu tíðari og viðskipti þjóða á milli hafa aukizt, hafa þessir sjúkdómar færzt mikið í vöxt, og síðan þeir urðu landlægir, hafa þeir breiðzt mikið út. Á síðustu árum hefir tala þessara sjúklinga aukizt um helming.

Það er langt síðan þinginu var ljóst, að hér var alvarleg hætta á ferðum, og það var með tilliti til þess, að lögin voru samþ. hér á þinginu 1923 um varnir gegn kynsjúkdómum. Í þessum lögum er ákveðið, að sjúklingar með kynsjúkdóma njóti ókeypis lækningar og nokkurs kostnaðar. En þó að megi segja, að allmikið gagn hafi orðið af þessum lögum og útbreiðslan hefði sjálfsagt orðið miklu örari, ef þau hefði ekki verið, þá hafa þau ekki náð verulega tilgangi sínum, sem m. a. sest á þeirri aukningu, sem orðið hefir á þessum 5 árum, sem lögin hafa staðið. Og aðalástæðan til þessa er sú, að mjög margir sjúklingar með þessa sjúkdóma eru kærulausir með að leita læknis, þá kemur og oft misskilin blygðunarsemi til greina, því að það er eins og menn fyrirverði sig fyrir að leita lækningar með þessa sjúkdóma. Önnur orsök er sú, að ekki hefir verið hægt að fá ókeypis spítalavist fyrir þessa sjúklinga, en oft bráðnauðsynlegt að leggja þá á sjúkrahús, því að oft hagar svo til, að húsakynni og aðbúnaður er svo bágborinn, að ekki er hægt að hafa sjúklinga í heimahúsum, og þá tvöföld hætta á, að þeir fái seint bata og smiti heimilisfólkið.

Þess vegna er það, að þetta frv. er flutt, til þess að reyna að ráða bót á þeim göllum, sem virðast vera á vörnunum gegn kynsjúkdómum.

Aðalbreytingin er sú, að ekki færri en 10 sjúklingum með þessa sjúkdóma skuli tryggð vist á sjúkrahúsi. En það hefir verið svo á undanförnum árum, að það hefir varla verið hægt að fá vist fyrir þessa sjúklinga. Þessu fylgir nokkur kostnaður, sem ekki verður þó svo tilfinnanlegur, því að þó tryggt sé rúm fyrir 10 sjúklinga, má gera ráð fyrir því, að sumir þeirra geti greitt spítalavist sína. Hin breytingin, sem í sjálfu sér er minni, er sú, að fella það niður, sem hingað til hefir gilt, að sjúklingar verði að skrifa undir það og leggja drengskap sinn við, að þeir geti ekki greitt kostnaðinn við lækningu sjúkdómsins. Þessu er líka sleppt í lögum annara þjóða um þetta efni.

Eins og sést á grg., er í flestum löndum Norðurálfu komin alþjóðahjálp í þessum málum. Íslendingar hafa notið góðs af þessu, og er því óviðkunnanlegt, að ekki gildi sama regla um útlenda sjómenn hér.

Mér finnst vera mikið alvörumál hér á ferð og vona því, að hv. d. sjái sér fært að samþykkja það. Legg ég svo til, að því verði vísað til allshn.