24.03.1931
Efri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í C-deild Alþingistíðinda. (1792)

240. mál, hjúskapur, ættleiðing og lögræði

Jón Þorláksson:

Ég hafði búizt við, að hæstv. forsrh. myndi gera fyllri grein fyrir ástæðunni til þess, að þetta frv. er borið hér fram á Alþingi. Ég gat ekki fundið neina ástæðu til þess í grg. frv., að þessa leið skuli fara til þess að koma í gildi milliríkjasamningum, slíkum sem þessum. Það er a. m. k. mjög óvenjuleg leið, að slíkir samningar séu gerðir gildandi með lögum. Hæstv. forsrh. vísaði í 17. gr. stjskr., án þess að gera grein fyrir, hvers vegna frv. er borið fram. Fyrst í 17. gr. stjskr. segir svo: „Konungur gerir samninga við önnur ríki“. — Fyrst eftir að sambandsl. gengu í gildi og stjskr. var sett, þótti mönnum leika nokkur vafi á, hvernig þessu ákvæði skyldi fullnægt, þar sem það er tekið fram í sambandsl., að Danmörk skuli fara með utanríkismál Íslands í umboði þess. En sú venja varð þó fljótt ráðandi, að í hvert sinn og ráðh. vill, að gerðir séu slíkir samningar við eitthvert ríki, þá er ákvæði 17. gr. stjskr. fullnægt með því, að útvegaður er konungsúrskurður þar að lútandi, með undirskrift íslenzks ráðherra.

Ég gat ekki fundið neitt það í þessum samningum, er gerði nauðsynlegt að víkja frá þessari reglu. Þó eru til samningar, sem skylt er að leggja fyrir Alþingi, en um það segir svo í 17. gr. stjskr.:

„Þó getur konungur enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi, eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til“

Í þessum málum er gert ráð fyrir samþykki Alþingis, en ég get ekki fundið, að þessara ákvæða vegna þurfi að leggja þau mál, sem hér eru til umr., fyrir Alþingi.

Eins og kunnugt er, er jafnan í þingbyrjun kosin utanríkismálan. til eins árs, og mun ætlazt til, að slík mál sem þessi séu borin undir hana. Mér þykir það ærið undarlegt, ef það er ætlun hæstv. stj. að breyta þeirri venju, sem hefir verið fylgt hingað til, og láta samþ. þessi frv., án þess að bera þau að neinu leyti undir utanríkismálanefnd.

Ég vil svo vona, að þessi orð mín gefi hæstv. forsrh. ástæðu til frekari skýringa.