24.02.1931
Efri deild: 8. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

33. mál, skattur af húseignum í Neskaupstað

Flm. (Ingvar Pálmason):

Í aths. þeim, er frv. þessu fylgja, eru greindar ástæðurnar til þess, að það er fram komið, og hefi ég par litlu við að bæta. Til skýringar skal ég geta þess, að stofnkostnaðurinn við endurbætur þær á brunavörnum Neskaupstaðar, sem getið er um í aths. frv., er orðinn 16 þús. kr. samkv. upplýsingum bæjarstjórnar, auk hins árlega rekstrarkostnaðar. Til að standast þennan kostnað hefir bærinn orðið að taka lán, sem hann vitanlega verður að standa straum af. Af þessum ráðstöfunum hefir leitt tvennt bænum til hagsbóta: að hann á nú fullkomnustu slökkvitæki, sem hægt er að koma við í slíkum bæjum, og að brunatryggingariðgjöld hafa fengizt lækkuð um 15%. Það virðist mjög sanngjarnt, að bærinn fái að leggja gjald á húseigendur til að standast kostnaðinn við þær ráðstafanir, sem beinlínis hefir leitt af sér þessa ívilnun á vátryggingariðgjöldum þeirra og veitt þeim meiri tryggingu gegn brunahættunni.

Einnig vil ég vekja athygli á því, að svo stendur á í Neskaupstað, eins og svo mörgum öðrum ungum bæjum, að mjög er ábótavant um frárennsli frá húsunum. Og það fæst ekki lagfært nema bæjarstjórnin skerist í leikinn og láti leggja aðalleiðslurnar. Það er einstaklingunum um megn. Ég þarf ekki að lýsa, hvað afarmikilsvert það er hverjum kaupstað að koma í tíma góðu lagi á frárennslið; hv. þdm. þekkja, hvaða afleiðingar vanræksla í þeim efnum getur haft.

Ósk bæjarstjórnarinnar um heimild til að leggja gjald á húseigendur til þeirra framkvæmda, er frv. greinir, virðist fyllilega á rökum byggð og réttmæt. Vona ég því, að hv. d. taki frv. með vinsemd.

Að endingu vil ég leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn. til meðferðar og athugunar.