13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í C-deild Alþingistíðinda. (1807)

249. mál, merking á útfluttum saltfiski

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Ef ætti að fá umsögn fiskimatsmanna um þetta frv., yrði eðlilega að vísa því til stj.; með ósk um, að hún sendi það til fiskimatsmanna úti um land. Það væri kannske bót að því að leita til yfirfiskimatsmannsins hér í Rvík, en með því móti næðist þó aðeins til eins þeirra. Mér þykir rétt að geta þess, að sá maður, sem ég hefi nefnt hér, er töluvert hátt settur meðal fiskimatsmanna, þótt ég sjái ekki ástæðu til að nefna nafn hans hér.

Ef hv. 1. landsk. varpar því fram sem ósk sinni, að n. leiti umsagnar yfirfiskimatsmannsins í Rvík, býst ég við, að hún taki það til greina. En ég held, að n. hafi álitið, að málið ætti að ganga fram á þessu þingi og mætti ekki bíða, en þá mætti ráða bót á þessu á næsta þingi. Það stendur engin hætta af því að taka þessa aðferð upp nú, því að hér er ekki svo mikil breyt. frá því, sem verið hefir, að nein vandræði geti hlotizt af.