26.03.1931
Efri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í C-deild Alþingistíðinda. (1812)

256. mál, laun embættismanna

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er fjhn., sem hefir tekið þetta mál til flutnings samkv. beiðni hæstv. fjmrh. Efnið er það, að framlengja nú enn til ársloka 1933 lög um laun embættismanna. Þetta er fram komið af þeirri ástæðu, að ekki hefir ennþá unnizt tími til að gera neina þá skipun á launum embættismanna, sem geti komið í stað þess, sem nú er. En þau skilaboð fylgja frá fjhn. til hæstv. stj., að n. ætlast til, að þetta mál verði sem allra fyrst tekið til undirbúnings, svo að ekki þurfi oftar að grípa til þessarar framlengingar. N. hefir ekki rætt, hvernig skyldi haga þessum undirbúningi. Ég hefi áður á það minnzt, að eðlilegt væri, að starfsmenn og embættismenn ríkisins hefðu nokkra hlutdeild þar í, og þó að mikið sé nú um starfandi nefndir, teldi ég réttast, að stj. skipaði n. til rannsóknar á þessu máli, sem fyrst og fremst væri skipuð trúnaðarmönnum stj. og ennfremur ættu starfsmenn ríkisins þar fulltrúa. Félagsskapur þeirra hefir undirbúið þetta mál, þótt tillögur þeirra hafi hingað til ekki þótt svo skipulega samdar, að hægt væri að taka þær til flutnings.

N. leggur til, að stj. taki þetta til ítarlegrar íhugunar, svo að málið geti orðið leyst ekki síðar en á árinu 1933. Um það er ekki gott að spá, hverjir verða í stjórn þá, þar sem kosningar eru í milli, en áskoranir n. gilda fyrir hvern þann ráðh., sem með þessi mál fer á þessu tímabili.