28.03.1931
Efri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í C-deild Alþingistíðinda. (1828)

274. mál, framfærslulög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Höfuðbreytingin, sem þetta frv. gerir á núgildandi fátækralögum, er fölgin í því, að landið skuli vera eitt framfærsluhérað. Með því falla niður öll viðskipti, sem sveitarstjórnir hafa þurft að hafa sín á milli út af framfærslu manna, sem fengið hafa styrk frá því opinbera; niður fellur öll sú skriffinnska, allt vafstur og öll þau hrekkjabrögð, sem sveitarstjórnir og hreppsnefndir hafa beitt hver við aðra til að toga, teygja og smjúga fátækralögin.

Þessi hugmynd, að gera landið að einu framfærsluhéraði, er ekki ný; hún hefir oft komið fram áður á Alþingi og átt þar nokkuð fylgi, en öllu meira fylgi þó utan þings, eftir því að dæma, sem fram hefir komið í blöðum og á fundum.

Með þessu fellur niður sú krafa, sem sveitarstjórnir eiga hver á aðra, að geta flutt menn milli hreppa, eftir því hvar þeir hafa reynzt sveitfastir, sem kallað er. Allur fátækraflutningur hverfur þar með úr sögunni; en hann hefir verið þyrnir í augum allra þeirra, sem hafa haft opin augu fyrir mannúðlegri meðferð á olbogabörnum þjóðfélagsins. Eftir þessu frv. fær hver maður framfærslustyrk þar, sem hann er búsettur. Ég ætla, að það muni vera fastur skilningur, að dvalarsveit þýði þann hrepp eða bæjarfélag, sem maðurinn er búsettur í. Hitt gæti vitanlega ekki komið til mála, að menn, fengju styrk þar, sem þeir eru staddir; að maður gæti t. d. farið í annan hrepp til að sækja styrk handa sér og sinni fjölskyldu. Eftir frv. á dvalarsveit að veita þann styrk, sem menn þarfnast og nauðsyn er talin að veita.

Nokkuð af núgildandi fátækralögum helzt óbreytt í þessu frv. Þannig er t. d. haldið framfærsluskyldu ættingja. Það þykir ekki rétt að draga úr henni, því að ekkert er eðlilegra en að foreldrar sjái fyrir börnum sínum og börnin aftur fyrir foreldrunum, þó að sú skylda sé raunar ekki eins sterk. Talsvert er breytt orðalagi núgildandi fátækralaga um það, hvernig veita skuli styrkinn. Í þessu frv. er lögð áherzla á, að í stað þess að veita beinan styrk skuli sveitarfélögin reyna að útvega mönnum vinnu, og ráðast sjálf í framkvæmdir til þess að veita þeim mönnum atvinnu, sem styrks þurfa og færir eru til starfs. Í raun og veru er þetta alveg eðlilegt og sjálfsagt. Jafnvel þó að arður af þeirri vinnu yrði minni en við aðrar framkvæmdir, vegna þess að það yrði oft unnið á óhentugum tíma, að vetrarlagi, ætti það þó að vera margsinnis betra en að veita stórar fjárhæðir til fátækraframfæris og fá ekkert í aðra hönd, nema þá veiku von að fá endurgreiðslu einhverntíma löngu síðar. En það vill ganga treglega. Venjulegast er það svo, að það, sem búið er að greiða í sveitarstyrk, fæst aldrei aftur. Mönnum finnst, þegar þeir hafa orðið að leita á náðir sveitarinnar, að þeir hafi orðið svo miklu minni menn, þeir hafa misst svo mikinn siðferðislegan stuðning, að þeir sleppa allri von um að geta séð fyrir sér sjálfir. Þetta er þeim tilfinnanlegt, einkum þar sem núgildandi fátækralög hafa svipt þá öllum mannréttindum. Að vísu var lítilsháttar linun gerð á þessu með lögunum frá 1927, svo að sextugir menn verða nú ekki fyrir réttindamissi, þó að þeir þiggi styrk, og einnig var fátækrastjórnum gefið vald til að ákveða, hvort sveitarstyrkur skuli afturkræfur eða ekki. Þessu er að vísu að nokkru leyti haldið, en rýmkað svo um, að einnig megi gefa eftir eldri sveitarskuldir. En í núgildandi lögum er talað um 2 ára gamlar skuldir, sem sveitarstjórn geti hvenær sem er gefið eftir.

Það er náttúrlega dálítið erfitt að segja fyrir um, hvernig slíkt nýmæli, sem hér er, mundi reynast í framkvæmd fyrst í stað. Það er alltaf svo með ný lög sem grípa jafnmikið inn í þjóðlífið og fátækralögin gera, að framkvæmd þeirra er í fyrstu erfiðari, einkum vegna mótstöðu hinna íhaldssamari manna við allt það, sem nýtt er. Sennilegt er og, að menn mundu reka sig á ýmsa agnúa á frv., ef það verður að lögum. En ég skal minna á, að þegar lögin um slysatryggingu voru sett, spáðu margir þm. illa fyrir þeim og héldu, að lenda mundi í mesta klúðri með framkvæmd þeirra, af því að þar var um nýja og yfirgripsmikla löggjöf að ræða. Þó hefir það nú sýnt sig, að þau gefast vel í framkvæmd, þó að þau að mínu áliti séu ekki nærri eins víðtæk og þyrfti, þar sem þau grípa aðeins til atvinnutrygginganna. Það hefir verið hægt að auka tryggingarnar að mun og auk þess að safna nálega 1 millj. kr. í sjóði, sem nú eru handbært fé. Þetta er nú að vísu útúrdúr. Helzt gæti orðið vandi við niðurjöfnun á sveitarstyrk eftir framfærslulögunum. Það er ætlazt til, að atvinnumálaráðuneytið jafni niður fátækrakostnaði eins og segir í 43. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnumálaráðuneytið jafnar síðan niður samanlögðum fátækrakostnaði allra sveita landsins á hverja sveit, að hálfu eftir samanlögðu skattmati fasteigna í sveitinni, í samanburði við samanlagt skattmat allra fasteigna í landinu, að hálfu eftir samanlagðri fjárhæð skuldlausra eigna og tekna af eign og atvinnu í sveitinni, í samanburði við samanlagðar tilsvarandi fjárhæðir á öllu landinu. Atvinnumálaráðuneytið innheimtir síðan eftirstöðvar fátækrakostnaðar hjá þeim sveitum, sem greitt hafa minna en þeim ber. samkv. þessari niðurjöfnun, og endurgreiðir þeim sveitum mismuninn, sem hafa greitt of mikið. Skal þeim innheimtum og endurgreiðslum lokið fyrir 1. júlí vegna undanfarandi árs.

Atvinnumálaráðuneytið hefir úrskurðarvald um sérstaka reikninga yfir veittan framfærslustyrk og um reikninga sveitarfélaga yfir framfærslukostnað í heild sinni.

Við niðurjöfnun fátækrakostnaðar skal fara eftir gildandi fasteignamati og tekju- og eignaframtali ársins á undan“.

Við niðurjöfnun fátækrakostnaðar mætti raunar fleira taka til greina, þótt ekki sé það gert í frv. Eðlilegt væri t. d., að útgjöld til þjóðfélagsmála og atvinnubóta, sem sveitarfélögin leggja fram og miða til þess að draga úr opinberum styrk, kæmu til greina við niðurjöfnunina. Það gæti verið rétt að leyfa sveitunum að leggja þann kostnað ofan á framfærslukostnaðinn að einhverju leyti. Þegar bæir t. d. ráðast í að halda uppi atvinnu tímunum saman til þess að komast hjá að veita sveitarstyrk, þá eru þau útgjöld í rauninni vegna fátækramála. Ég verð að játa, að það væri talsvert réttlátt að taka þetta með í niðurjöfnun. Sveit, sem ekkert borgar út nema fátækrastyrk, og önnur, sem hefir mikil útgjöld vegna atvinnuráðstafana, geta orðið mjög misjafnt úti, nema tekið sé tillit til hvorstveggja. Þessu ákvæði mætti bæta við í frv.

Ætlazt er til, að allir reikningar séu komnir til stjórnarráðsins fyrir 1. marz árið eftir að styrkur er veittur. Þetta er engri sveitarstjórn ofætlun, því að nú hverfa öll viðskipti milli sveitarfélaga innbyrðis, svo að sveitarstjórnirnar ættu að geta verið búnar að semja sína eigin reikninga fyrir þann tíma. Síðan er ætlazt til, að stjórnarráðið hafi lokið endurskoðun reikninganna 1. júní. Þá er endurskoðun er lokið og niðurjöfnun fátækrakostnaðar, skal atvinnumálaráðuneytið krefjast eftirstöðva fátækrakostnaðar hjá þeim sveitarfélögum, sem greitt hafa of lítið eftir þessum lögum, og endurgreiðir hinum, sem greitt hafa of mikið. Er þannig hægt að koma á jöfnuði milli sveitarfélaganna.

Við flm. frv. höfum látið ýmislegt haldast úr núgildandi fátækralögum. Meðal þess má telja það ákvæði, að taka skuli skýrslu af þeim, er þiggja af sveit. Þær skýrslur gætu og verið fylgiskjöl til stjórnarráðsins, til þess að sýna, hverjir fái styrk og hvaða ástæður valda. Er það lítilsháttar aðhald fyrir þá, er styrk þurfa að liggja.

Ég hefi nú minnzt á öll helztu atriði frv., a. m. k. þau, sem telja má nýmæli. Ég vil svo mælast til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til allshn.