28.03.1931
Efri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í C-deild Alþingistíðinda. (1831)

274. mál, framfærslulög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Tveir hv. þm. hafa nú rætt um þetta frv., og hefir andað heldur köldu frá þeim báðum í garð þess.

Hv. 6. landsk. lét svo, sem taka þyrfti fleiri atriði með í frv. en í því eru. En þegar til kom, þá voru það aðallega ýmiskonar breytingar á orðalagi frv., sem ég get ekki séð, að geti skipt nokkru máli. Auðvitað hefði mátt orða ýmislegt öðruvísi og betur en gert er í frv., og dettur okkur flm. ekki í hug að halda því fram, að við höfum alstaðar fundið bezta orðalagið, sem hægt væri að finna. Ég held, að hv. þm. geti yfirleitt sagt það sama um frv. þau, er þeir flytja, nema ef til vill hv. a. landsk., — en ég man bara ekki í svipinn eftir því, að hann hafi flutt nokkurt frv.

Hv. 6. landsk. hélt því fram, að þetta frv. hefði ekki verið borið fram, ef hann hefði ekki orðið fyrri til og flutt brtt. við fátækralögin nú á þessu þingi. Ég hélt, að það myndi gleðja hv. 6. landsk., ef hið smávægilega frv. hans gæti knúið fram svo umfangsmikið og róttækt frv., sem þetta. En hv. þm. hefir auðsjáanlega ekki kynnt sér þingsögu þessa máls. Öll meginatriði þessa frv. hafa legið fyrir Alþingi áður sem brtt. við fátækralögin. Sú getsök hv. þm., að frv. þetta sé fram komið til þess að spilla fyrir frv. hans, hefir því ekki við nein rök að styðjast. Síðan árið 1922 hafa flestar þær till. til breytinga á fátækralögum, sem felast í frv., legið fyrir flestöllum þingum, að vísu ekki nákvæmlega eins orðaðar, en eins í öllum höfuðatriðum. Svo að hv. 6. landsk. getur séð, að við flm. þessa frv. höfum ekki farið að hlaupa til að semja frv. vegna hins lítilsverða frv. hv. þm.

Auðvitað höfum við látið ýms ákvæði í öðrum lögum, sem snerta framfærslu og ekki komu í bága við frv., haldast óbreytt, og má þar nefna t. d. sifjalög o. fl. Hinsvegar skal ég geta þess út af aths. hv. þm., að í þessu frv. er frekar að orði kveðið viðvíkjandi uppeldi barna og eftirliti með þeim heldur en er í núgildandi lögum. Annars heyra þær umr. um orðalag einstakra gr. undir 2. umr. málsins. Þegar að því kemur, skal ég fús ræða við hv. þm. um orðalag einstakra greina. Eiginlega voru engar efnisbreytingar, sem hv. þm. vildi gera. Viðvíkjandi því, að taka upp ýms ný ákvæði, sem snerta tryggingar, t. d. mæðratryggingar, þá álít ég, að þær eigi ekki heima í framfærslulögunum, heldur á sá lagabálkur heima í alþýðutryggingunum.

Mér skildist af niðurlagsorðum hv. 6. landsk., að með frv. væri tekið of stórt stokk; hv. þm. vill, að því er mér skildist, heldur taka smáu skrefin en þau stóru. Ég vil taka stóru skrefin, til að leiðrétta og bæta það, sem aflega fer. Ég vil taka þau, ef hægt er að koma þeim við, en þó vil ég ekki slá hendinni móti smærri umbótum. Nú höfum við fengið ýmsar smábreytingar á fátækralögunum, en í rauninni er það herzlumunur, hvort fullkomin leiðrétting fæst á þeim eða ekki. Það er takmarkið að koma þessum lögum í það horf, að fullkomlega sé séð fyrir rétti þeirra, sem minni máttar eru í þjóðfélaginu, og að þeir hafi kröfu til þess, að fyrir þeim sé séð, en þó ekki á þann hátt, að þeir séu sviptir öllum réttindum. Og eins hvað snertir börn þau, sem eru á vegum þess opinbera, þá er í frv. lögð rík skylda á hendur fátækrastjórnum að sjá um, að börn séu alin þannig upp, að þau geti fullkomlega séð fyrir sér sjálf, þegar þau hafa náð aldri til þess. Ég vil ekki fylgja þeirri reglu hv. þm. að tína þetta í smáum skrefum, ef hægt er að ná því stóra í einu. Mér sýnist ekki nein ástæða fyrir hv. þm. að ganga móti þessu frv., þó að hún viti, að einhverjir kunni að vera á móti því, heldur frekar ástæða fyrir hv. þm. að taka þá höndum saman við okkur flm. til að koma málinu til sigurs, ef nokkur alvara er hjá hv. þm., t. d. með að afnema sveitarflutninga og annað ranglæti fátækralaganna. En hv. þm. er máske á móti því að taka nema smáu skrefin, litlu umbæturnar, eins og í frv. því, er hv. þm. flutti. Það er máske í samræmi við stefnu Íhaldsins. Ég hélt einmitt, að með kosningu hv. 6. landsk. hefðum við fengið áhugasaman þm., sem mundi vilja vinna, fyrir þessi mál.

Ég bjóst aldrei við, að hv. 3. landsk. mundi veita þessu frv. góðar viðtökur, enda var hann hornóttur við það. Ég get trúað því, að nagg og nag milli sveitarfélaga sé búið að festa svo rætur í huga hans, eins og einstaka þeirra, sem við hreppstjórn hafa lengi fengizt, að hann vilji ekki missa tækifærin, sem núgildandi fátækralög veita honum til þessa. Það er máske orðinn hluti úr lífi hans, og honum því nauðsynlegt. Ég gæti því trúað, að hv. þm. vildi ekki missa þetta þjark milli sveitarstjórnanna og öll þau hrekkjabrögð, sem slungnir hreppsnefndarmenn finna upp á til að leika á hina hreppana, með því að kosta ómaga í öðrum hreppum, þangað til þeir eru orðnir þar sveitfastir. Er alveg yfirganganlegt, hve mikið þeir leggja oft á sig til að finna upp brögð til að leika hver á annan í fátækramálum.

Það þarf ekki að bíða eftir nál. um alþýðutryggingarnar. Það kemur ekki þessu máli við, að öðru leyti en að það kann að draga úr kostnaði sveitarfélaganna.

Ég tek mér létt, þó að hv. þm. segi, að við höfum ekki vandað til frv. og borið það meira fram til að sýnast. Hv. þm. minntist á 46. gr. frv. Þessir 2/5, sem sveitin greiðir af sjúkrahúskostnaði framfærsluþurfa, verða vitanlega fátækrakostnaður og koma fram í niðurjöfnun. Það er tóm vitleysa, þegar hv. þm. er að finna að grundvellinum að niðurjöfnuninni. Grundvöllurinn undir matið í hverju sveitarfélagi er jafngóður, þótt utanhreppsmaður eigi eign, sem matið er byggt á. Fasteignamatið í krónutölu er jafnhátt, hvort sem jörð er eign utanhreppsmanns eða ekki.

Það var rétt hjá hv. þm. og það eina, sem rétt var í ræðu hans, að ekki er tekið fram í ástæðum frv., að betur stæðu hrepparnir tækju þátt í framfærslukostnaði. Það er rétt hjá þm.; en ég skal bæta úr því með því að telja það eina af ástæðunum fyrir frv. og það, sem sérstaklega mælir með því, að betur stæðu hrepparnir styðji hina fátækari til að bera þennan kostnað.

Hv. þm. var að hnýta í verklýðsfélögin. Hann getur aldrei staðið hér upp án þess. Ég veit ekki, við hvað sveitarfélögin ættu að miða kaupgjald við vinnu þá, sem þau þurfa að láta gera, ef ekki við taxta verklýðsfélaganna. Ég sé ekki að það sé meiri vansi fyrir sveitarfélögin að fara eftir þeim kauptaxta en atvinnurekendur. Hv. þm. býr langt frá kaupstað og hefir þess vegna haft lítil kynni af verklýðsfélögunum, nema það sem hann hefir lesið í Morgunblaðinu. En hann hefði átt að reyna að afla sér upplýsinga um þau. Þetta er svipað því og þegar Morgunbl. er að skamma Rússland, eitt af stórveldum heimsins, með hálft annað hundrað millj. íbúa. Það talar eins og orð þess séu afgerandi fyrir Rússland. Eins er með hv. 3. landsk. gagnvart verklýðsfélögunum. Hann er álíka lítill gagnvart verklýðsamtökunum og Morgunbl. er gagnvart Rússlandi. Hann getur engu ráðið um, hvað félögin gera, þótt hann beiti öllum sínum sterka vilja til þess. Þau hafa jafnan rétt eftir sem áður. Þau eru það voldug og svo stór hluti í þjóðlífinu, að hv. þm. getur ekki knésett þau.