28.03.1931
Efri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í C-deild Alþingistíðinda. (1832)

274. mál, framfærslulög

Guðrún Lárusdóttir:

Ég fer að halda, að erfitt sé að haga orðum sínum í þessari hv. deild, þegar hv. flm. þykir út af orðum mínum hafa andað kalt til hans. Ég veit ekki, fyrir hvað það er; mér fannst ég bera frv. fram af hlýjum hug. En ég hlýt að hafa hagað orðum mínum klaufalega. Mér þætti leitt að fá grein í Alþýðubl. á morgun, sem segði, að ég hefði viljað rífa þetta niður. Ég treysti hv. þm. til að sjá um, að ég fái ekki slíka grein. (JBald: Það er ekki hætta á því, að Alþýðubl. segi ekki rétt frá). Já, eins og vant er náttúrlega.

Hv. þm. var að tala um það, að ég hefði ekki komið með neina efnisbreytingu. Það kann vel að vera. En það eru til fleiri breytingar en efnisbreytingar, og ég veit, að orðabreytingar geta oft haft svo mikla þýðingu, að næst gengur efnisbreytingu.

Ég fullyrði, að það, sem ég benti á, á fullkominn rétt á sér og mundi geta bætt fyrir mörgum fátæklingum, ef það næði inngöngu í fátækralögin.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki kynnt mér nægilega forsögu málsins. Það er vel til, að ég hafi ekki kynnt mér hana nóg, en þó nokkuð. Ég veit það, að fátækralögin voru endurskoðuð 1927. Og ég veit það líka, að hv. þm. hefir aldrei fyrri borið fram frv. um þetta. En ég veit það líka, að hv. þm. talaði vel og vinsamlega um þetta og hefir ef til vill komið með góðar brtt., sem ég er raunar ekki viss um, þegar það var til umr. 1927, og lasta ég hann sízt fyrir það.

Ég vil ekki tefja tímann með því að tala frekar um þetta núi, þar sem það á víst ekki við. Ég tek með þakklæti góðum leiðbeiningum af hv. þm., þar sem hann segir, að ekki hafi átt við að tala um einstök atriði fyrr en við 2. umr. Það er ekki nema eðlilegt, að hann kunni sig betur hér á Alþingi en ég, þar sem hann hefir nú setið mörg ár á þingi, en ég ekki nema 11/2 mán. — Ég geri ráð fyrir, að við séum nokkurnveginn sammála og að fyrir okkur báðum vaki það sama, að bæta kjör þeirra manna, sem verst hafa orðið úti í lífsbaráttunni. En ég tel varhugavert, þegar maður vill koma einhverju máli fram, að spenna bogann svo hátt, að hætta geti orðið á, að ekkert náist fram að ganga. Ég hefi þá trú, að heppilegra sé, að þessar breytingar komi smátt og smátt. Mér þykir leiðinlegt, ef hv. þm. hefir misskilið mig þannig, að hann álíti, að ég sé mótfallin því, að rýmka kjör þeirra, sem hafa orðið svo ólánssamir að verða minni máttar í lífinu, því það er engan veginn. Mér myndi þykja ánægjulegt, ef ég gæti fengið tækifæri til að sýna honum, að mér er fyllsta alvara í þessu efni.