28.03.1931
Efri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í C-deild Alþingistíðinda. (1833)

274. mál, framfærslulög

Jón Jónsson:

Hv. 2. landsk. ætlaði að veita mér rothögg með því, að hann þekkti ekki mörg frv. frá mér. Ég játa, að ég hefi ekki komið með eins mörg frv. eins og hann. Ég hefi yfirleitt ekki lagt í vana minn að bera fram mál til þess að sýnast, hefi látið mér nægja að bera fram eitt frv. hvert ár, sem ég hefi setið á þingi, og þótt þau séu ekki stór, þá ætla ég, að þau hafi komið flestum sveitum landsins að gagni að meira og minna leyti. En hitt hefi ég ekki lagt í vana minn, að fylla öll þingborð með till. og frv. meira og minna fljóthugsuðum og fyrirfram vitandi það, að þau gangi ekki fram.

Þá var hv. þm. að tala um það, að ég væri orðinn samgróinn naggi og nagi sveitarfélaganna. Mér virðist á lýsingum hv. þm., að hann muni vera þessu naggi kunnugri en ég. Ég hefi að vísu fengizt nokkur ár við sveitarstjórn, en hefi sloppið mikið við allt stríð út af fátæklingum. Ég held, að ég hafi orðið að skrifa eitt einasta bréf í því máli. Það var ofur einfalt mál og ég held, að það hafi heldur ekki farið lengra en að málið varð klárt með því bréfi. Ég held, að ég verði að frábiðja mér það, að hafa nokkuð fengizt við fátækraflutning. (JBald: Ég bar það ekki upp á hv. þm.). Nei, en hv. þm. gaf það þá í skyn. Ég býst við, að nú sé orðið tiltölulega lítið um fátækraflutning. Náttúrlega mætti draga enn meira úr honum með stytting sveitfestistímans. Aðaltilgangur frv. er þá það, að landið eigi að bera kostnaðinn, en þá skil ég ekki, að einstakar sveitir eigi að bera kostnaðinn að nokkru leyti.

Þá hélt hv. þm. því fram, að eignir væru jafngóður grundvöllur fyrir niðurjöfnun, hvort sem hún væri eign utansveitarmanns eða ekki. Ég skil ekki, hvað hann hugsar. Eftir núgildandi lögum getur sveitarfélag ekki lagt útsvar á eignir utansveitarmanna, og skil ég því ekki, að þær séu tiltakanlega góður mælikvarði á gjaldþol sveitarfélagsins.

Hv. þm. talaði um það, að ég gæti aldrei staðið hér upp án þess að ráðast á kaupgjaldið og verklýðsfélögin. Ég veit ekki til þess, að ég hafi ráðizt mikið að þeim, enn mér þykir þeim fullhátt undir höfði gert, ef þau eiga að ráða fyrir um kaupgjaldstaxta við vinnu, sem hið opinbera veitir.

Þá var hann að ógna mér með því, að ég væri lítill í samanburði við verklýðsfélögin. Það er ekki neitt við því að segja, þó að maður verði að láta í minni pokann fyrir einhverju og einhverju ofbeldi. Sem sagt, ég get ekki séð, að hv. þm. hafi hrakið neitt af því, sem ég sagði áðan. Það er flaustursbragur á þessu frv. og margt, sem bendir til, að lítil alvara sé að láta frv. ganga fram á þessu þingi, að það sé meira borið fram til að sýnast.