01.04.1931
Efri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í C-deild Alþingistíðinda. (1844)

300. mál, almannafriður á helgidögum

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Um gervallan kristinn heim er þessi vika kölluð kyrra vikan. Bendir nafnið eitt til þess, að kyrrð og friður eigi að vera henni samfara. Dagarnir tveir, skírdagur og föstudagurinn langi, hafa öldum saman verið óaðskiljanlegir, friðhelgaðir helgidagar í lúterskum og kaþólskum löndum. Margir menn eiga bernskuminningar um þá daga, yfir þeim hvílir kyrrlátur blær, sem vekur lotning í huganum allt fram á efri ár.

Helgidagalöggjöfin frá 1901 tekur það skýrt fram, að skírdagur skuli vera helgur dagur eins og föstudagurinn langi og hinn fyrri dagur stórhátíða, og er þá bönnuð hverskonar vinna og allar almennar skemmtanir. En árið 1926 er helgidagalöggjöfinni breytt, og m. a. á þá lund, að skírdagur er undanfelldur þeirri friðhelgi, er hann áður hafði, og settur við hlið sunnudaganna, sem því miður eru of lítið notaðir til helgihalds vor á meðal. En þrátt fyrir þessa breytingu laganna er hefðin í hugum manna um helgi skírdags svo óröskuð, að árum saman lætur enginn sér það til hugar koma, að svipta skírdag þeirri helgun, svo að hvergi á sér stað opinber skemmtun þann dag, svo sem leiksýning eða kvikmyndasýning eða dansleikir, og munu einnig opinberir gildaskálar hafa verið lokaðir á skírdagskvöld. Það mun hafa verið í fyrra að í fyrsta skipti var brugðið út af þeirri venju hér í bæ, en hvorki var það kvikmyndahús eða leikfélagið, sem þar rann á vaðið, heldur nýja hótelið, sem siðmennir unga fólkið með því að kenna því að dansa á milli borðanna.

Roskið fólk man það vel, að í sveitum t. d. þótti það mjög óviðeigandi, að sinnt væri öðrum störfum en nauðsynlegustu heimilisstörfum eftir miðaftan á skírdag. Skírdagskvöld og aðfaranótt föstudagsins langa voru álitin jafnhelg páskunum sjálfum, og yfir allri kyrru vikunni hvíldi einskonar hátíðleg kyrrð, sem væri sú vika öðruvísi en allar aðrar vikur ársins. Vafalaust hefir þetta staðið í nokkru sambandi við Passíusálmana, sem þá voru um hönd hafðir á hverjum bæ á föstunni. Þeir höfðu leitt hugsanirnar að liðnum atburðum og skýrt þá svo, að þeir urðu sem lifandi myndir fyrir hugskotssjónum fólksins. Og hví skyldi þá ekki kyrra vikan verða eðlileg afleiðing þeirra hugsana?

Um undanfarna áratugi munu fáar opinberar skemmtanir hafa átt sér stað hér í bæ í kyrru vikunni, eða páskavikunni, eins og sumir nefna hana. Það var eins og óskrifað lögmál, að þá skyldi ekkert það aðhafzt, er truflaði kyrrð og alvöru þeirra daga, sem fara á undan minningardögunum miklu, skírdegi og föstudeginum langa.

Er vér minnumst alls þessa, þykir oss það engin furða, þótt þeir kynnu að verða æði margir vor á meðal, sem kynnu því illa, að þær helgistundir, sem tengdar eru hinum hrikalegasta harmleik, er veraldarsagan hermir, yrðu óvirtar með hávaða og gauragangi samkvæmis, sem sízt af öllu getur talizt þjóðinni til sóma eða siðbótar.

Ef vér hinsvegar virðum fyrir oss það, sem gerist sumstaðar annarsstaðar í þessum efnum, þá sjáum vér fljótt, að þar er víða lögð sérstök rækt við þetta tímabil, fyrir páskana.

Þar sem því verður við komið, fara menn um þær mundir í stórhópum til Jórsala, og aðalerindi margra þessara manna er að dvelja um kyrru vikuna og yfir páskana á þeim stöðum, þar sem Kristur leið og dó. Erlend stórblöð hafa hvað eftir annað stofnað til Jórsalaferða fyrir kaupendur sína, og ávallt hafa svo margir tekið hátt í förinni, að orðið hefir að taka á leigu stóreflis farþegaskip, og þó hafa auðvitað verið miklu fleiri, sem ekki komust, þótt þeir æsktu þess, heldur en hinir, sem fóru. En þeir, sem urðu svo lánssamir að geta tekið þátt í þvílíku ferðalagi, hafa allir sem einn lýst ósegjanlegri gleði sinni og hrifningu, er þeir dvöldu á þeim stöðum, þar sem hinir stórfenglegu atburðir gerðust, er guðspjöllin segja oss frá og sérstaklega eru tengdir Getsemane og Golgata. Og mörgum mun hafa farið líkt og munki einum á 13. öldinni, sem lagði leið sína um þessa staði og komst þannig að orði um ferðina: „Ég fór yfir höf og lönd, til þess að sjá staðina, þar sem Kristur lifði og starfaði, en sérstaklega þó staðinn, þar sem hann dó. Endurminningar mínar um stundirnar, er ég dvaldi þar, munu héðan af verma hjarta mitt og styrkja trú mína“.

Annars segir það sig sjálft, að fyrir kristinn alvörumann, hlýtur dvöl í Getsemanegarði á skírdagskvöld að vera ógleymanleg hátíðarstund. Og þar er mannmargt á skírdagskvöld, en þó svo undurhljótt. Altítt er, að landsstjórnin eða borgarstjórinn tali þar með einhverjum biskupinum við guðsþjónustur, sem haldnar eru ýmist í sjálfum Getsemanegarði eða í hlíðum Olíufjallsins. Áheyrendur eru af ýmsum þjóðflokkum og óskyldir með öllu, en hér verða þeir sem einn maður, á hinum helgu stundum minninga, sem þeim eru öllum jafnkærar.

Líklega eiga mennirnir ekkert dýrmætara til heldur en kyrrlátar, heilagar og góðar minningar, og allt það, sem styður þær og eflir, horfir oss til góðs. Þær auðga oss, þær gleðja oss, þær lyfta huga vorum og ljá oss þrótt. Vér megum því ekki missa þær.

Er þess skemmst að minnast, er íslenzka þjóðin kom saman á 1000 ára afmæli Alþingis síns. Þess er ég fullviss, að engum þeim, er svo var lánsamur að eiga þess kost að mega taka þátt í þeirri tilkomumiklu hátíð, muni nokkru sinni gleymast sú hrifning og lotning, sem þá greip huga manna andspænis sameiginlegum þjóðarminningum.

Hið fornkveðna orð: Drag þú skó þína af fótum þér, því sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð — hljómaði til mannfjöldans frá eldgömlu, hrufóttu klettaborgunum, — og vissulega hefði það verið vítavert að fótumtroða þær helgu minningar. Hið sama má segja um margar aðrar dýrmætar minningar, og þá fyrst og fremst þær, sem tengdar eru dögunum, sem ég hefi aðallega rætt hér um. Það yrði áreiðanlega mörgum sársaukablandið áhyggjuefni, ef skírdagur, og þá einkanlega skírdagskvöld, ættu eftirleiðis að verða almennt rall- og gleðskaparkvöld, og féþúfa fyrir þá, sem vilja græða á skemmtanafýsn fólksins. En á því er einmitt mikil hætta verði dagurinn ekki varinn með því að friðhelga hann á ný.

Frv. fer að vísu fram á það, að allur dagurinn sé friðhelgaður, en ég gæti vel fallizt á, ef það yrði heillavænlegra til samkomulags, að friðhelgi dagsins byrjaði eins og á aðfangadagskvöld jóla, kl. 6 síðd. Aðalatriðið er að koma í veg fyrir allt það, sem raskar helgi skírdagskvölds, sem er réttnefnt aðfangadagskvöld föstudagsins langa, og ætti því að vera kyrrlátasta og alvarlegasta kvöld ársins.

Að lokum vil ég geta þess, að við sjálft lá, að allir skemmtistaðir borgarinnar yrðu hafðir opnir annað kvöld, en við nánari athugun hættu allir hlutaðeigendur við það (nema húsbóndinn á Hótel Borg) og sýndu með því lofsverða sanngirni, sem vafalaust verður vel metin hjá öllum þorra manna.