01.04.1931
Efri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í C-deild Alþingistíðinda. (1845)

300. mál, almannafriður á helgidögum

Jón Baldvinsson:

Ef á að fara að hreyfa við helgidagalöggjöfinni á annað borð, hefði legið nær að tryggja betur en nú er gert, að sunnudagur sé almennur hvíldardagur, en að koma með það frv., sem hér liggur fyrir. Það er ef til vill af því, að ég legg ekki eins mikið upp úr helgi skírdags og hv. flm., að mér finnst miklu meira máli skipta, að fólk sé ekki látið vinna á hinum lögboðnu hvíldardögum en þótt einhverjir skemmtistaðir séu opnir á skírdagskvöld. Ég get hugsað mér þann möguleika, að losa þyrfti hér 20 togara á skírdag og sú vinna gæti dregizt fram á kvöld. Þetta getur vel verið óhjákvæmilegt. Páskavikan er á þeim tíma, þegar langmest verðmæti koma á land hér, eða um hávertíðina. Ég hygg einmitt, að þetta hafi verið haft í huga, er breytingin á helgidagalöggjöfinni frá 1901 var gerð 1926.

Það getur nú verið, að ég verði kallaður trúníðingur fyrir þessar hugleiðingar, en ég læt mér það í léttu rúmi liggja; og ég vildi benda á, að mér fyndist miklum mun hagfelldara, að felldir væru niður þessir 4–5 helgidagar páskavikunnar og fólk fengi vikufrí að sumrinu í staðinn. Ég segi þetta þó ekki af því, að ég ætli að fara að koma með till. um þetta í frv.formi nú. Það er auðvitað ekkert við því að segja, þótt margir tengi minningar við daga páskavikunnar og haldi þá heilaga, en vafasamt er, hvort þeir hafa rétt til að leggja höft á aðra vegna sinna tilfinninga. Ég geri ekki ráð fyrir að greiða atkv. á móti frv., því að mér finnst það ósköp smávægilegt atriði, hvort Hótel Borg hefir dans á milli borða þetta kvöld eða ekki. Það er ósköp hætt við, að þeir, sem ekki fá að „syndga“ þar, nái sér þá niðri á annan hátt, ef til vill ekki betri, ef þeir eru svo gerðir. Frv. kemur ekki í veg fyrir, að unnið verði allan daginn, ef á þarf að halda, og truflunin á andaktinni yrði varla minni af uppskipun úr 20 togurum og bílaskrölti um messutímann hjá kirkjunum en þótt húsbóndinn á Borg taki á móti gestum sínum eins og hann er vanur.

Að síðustu vildi ég beina því til hv. flm., hvort hún sjái sér ekki fært að beita sér fyrir því meðal atvinnurekenda innan síns flokks, að þeir stuðli ekki að því að rjúfa helgi hvíldardagsins með því að láta vinna á sunnudögum. Ég játa það, að oft getur staðið svo á, að sunnudagarnir séu dýrmætir til vinnu, en þó ætti að vera auðveldara að komast hjá að vinna þá daga heldur en um skírdagshelgar og páska, þegar svo margir helgidagar eru í röð.