10.04.1931
Efri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í C-deild Alþingistíðinda. (1863)

337. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Í núv. sveitarstjórnarlögum er ákvæði um það, að 300 íbúar í kauptúni eða þorpi geti ákveðið að verða hreppur út af fyrir sig. Hefir þetta staðið um mörg ár og oft verið notað. Þetta er ósköp eðlilegt og sjálfsagt, því að í sjávarþorpum og kauptúnum þarf svo margt að gera, sem ekki er nauðsynlegt í sveitunum í kring. Má þar til nefna götugerð og holræsa, vatnsleiðslur o. fl.

Þó að þetta lágmark íbúafjölda sé ekki hátt, þá er það samt svo, að á nokkrum stöðum eru kauptún, sem ekki hafa svo marga íbúa, en hafa þó áhuga á því, að verða sérstök kauptún.

Með tilliti til þess og skv. óskum manna um þetta er hér flutt sú breyt. á lögunum, að lágmarkið verði fært niður í 200 íbúa, og verði þá takmörk þessara hreppa eða þorpa ákveðin í samráði við atvmrh.

Þetta er svo lítil breyt., að ég sé enga ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Legg ég svo til, að frv. verði vísað til allshn. þessarar hv. d.