09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í C-deild Alþingistíðinda. (1880)

90. mál, jöfnunarsjóður ríkisins

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. kom fyrir síðasta þing og var þá flutt af sömu mönnum og nú. Frv. fékk góðar viðtökur þá, og hins sama vænti ég einnig nú, en frv. kom svo seint fram á síðasta þingi, að það varð eigi afgr. þá. Tilgangur frv. er tvennskonar: að stofna til atvinnubóta fyrir þjóðina, þegar skortur er á atvinnu, og að varðveita tekjuafgang ríkissjóðs á góðu árunum þar til lakar árar. Enginn neitar því, að það er mikil nauðsyn til þess, að hið opinbera geti veitt atvinnulausum mönnum vinnu á krepputímum, og því hefir heldur ekki verið neitað, að t. d. bæjarstjórnum og ríkisstj. beri skylda til að bæta úr atvinnuleysi eftir föngum.

En hvernig erum við staddir í þessum efnum nú? Þrátt fyrir viðskiptakreppuna og atvinnuleysið er það harla lítið, sem hið opinbera gerir til þess að bæta úr atvinnuþörfinni. Hér í Rvík, þar sem ástandið er einna verst, lætur ríkisstj. sama og ekkert vinna að nauðsynlegum framkvæmdum fyrir ríkið. Og af bæjarstjórninni er sömu sögu að segja. Þó er nóg til að láta vinna, gnægð óleystra aðkallandi verkefna, en allt strandar á féleysi, segja þeir, sem ráða. Það virðist svo, að ekki sé allt með felldu með slíka fjárhagsútkomu hjá ríkissjóði eftir þau fjáraflaár, sem verið hafa undanfarið, að nú skuli engir peningar vera fyrir hendi til að láta vinna fyrir, þótt tekjurnar hafi farið langt fram úr áætlun nú í fleiri ár.

Með frv. um jöfnunarsjóð leggjum við til, að nokkur hluti af tekjuafgangi góðu áranna skuli jafnan lagður í sjóð, er notaður sé til atvinnubóta og opinberra framkvæmda þegar atvinnuleysi sverfur að á krepputímum. Með því eru slegnar tvær flugur í einu höggi, nauðsynlegum framkvæmdum komið fram og dregið úr böli atvinnuleysisins.

Það munu allir viðurkenna, að þegar nóg er um atvinnu, sé minnst þörf á því, að ríkissjóður veiti vinnu. Hitt virðist skynsamlegt, að ríkissjóður veiti mesta atvinnu einmitt þegar litið er um vinnu hjá öðrum vinnukaupendum. En það er afarlangt frá því, að þeirri reglu hafi verið fylgt undanfarið, sem kunnugt er. Er því full nauðsyn á að sýna þingviljann í þessu efni með lögum, er kveði skýrt á um þessi efni. Ef fylgt hefði verið ákvæðum frv. um jöfnunarsjóð undanfarin 5 ár, hefði átt að vera lagt til hliðar af tekjum ríkissjóðs fram yfir áætlun á þessum árum yfir 4 millj. króna, sem hægt hefði verið að verja til atvinnubóta nú, þegar kreppan er skollin á.

Í einu stjórnarblaðanna hefir sézt hótun um það, að leggja niður á næsta ári allar verklegar framkvæmdir fyrir ríkið, en þess hefði ekki þurft, ef lög slík sem þessi hefðu verið til og þeim framfylgt. — Fjölyrði ég svo ekki frekar að sinni, en legg til, að málinu verði vísað til fjhn.