07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í C-deild Alþingistíðinda. (1890)

91. mál, sveitargjöld

Ólafur Thors:

Það hefir komið fram till. um, að frv. þessu verði vísað til allshn. Ég hefði þó talið réttara, að því væri vísað til fjhn., og hefði þá sparað mér ræðu. En þar sem ég get búizt við, að því verði vísað til allshn., þá vil ég ekki láta hjá líða að gefa nokkrar bendingar nú þegar.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að eftir frv. yrði maður, sem ætti 500 þús. kr. eign og hefði 100 þús. kr. í tekjur, að greiða í skatta 104 þús. kr. — Ég er nú að vísu sammála um, að skattleggja bæri slíkan mann nokkuð hátt. En hér væri þó óneitanlega of langt gengið, að mínu áliti, enda er ég ekki eins gerður og hv. þm. Ísaf., sem helzt vill skattleggja svo, að enginn eigi neitt. Ég er þó, eins og ég sagði, sammála um, að slíkur maður ætti að greiða allríflegan skatt til ríkis og bæjarfélags. Ég býst nú reyndar við því, að í veruleikanum komi dæmi eins og þetta sjaldan fyrir. Ég vil nú nefna annað dæmi, sem vel getur komið fyrir, þar sem slíkur skattur kæmi enn þyngra niður en. í dæmi því, er hv. þm. Ísaf. nefndi. Það er hlutafélag, sem hefir 100 þús. kr. í hlutafé, og 200 þús. kr. tekjur eitthvert ár. Ég vil nú reyndar ekki segja, að þetta sé algengt dæmi, en mörg hlutafél. hafa ekki mikið hlutafé, en geta haft miklar tekjur annað árið en mikið tap hitt árið. Þetta félag, sem ég tók dæmi af, ætti samkv. frv. því frá stj., er nú liggur fyrir þinginu, að greiða í tekjuskatt og eignarskatt til ríkisins 51310 kr.

Skattur skv. þessu frv. frá hv. 1 þm. N.-M. til bæjar- eða sveitarfél.:

Skv. 2. gr 102620 kr.

— 5. gr 54310 –

— 106930 –

Samtals 208240 kr.

sem slíkt félag yrði að greiða til ríkis og bæjar- eða sveitarfélags. Það væri geigvænlegur skattur að greiða nærri 209 þús. kr. í því veltiári, sem til þess þyrfti, að slíkt félag sem þetta hefði 200 þús. kr. tekjur. Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Eyf., að útsvörin gangi oftlega nærri tekjunum. En þó mun það undantekning, að útsvörin á einstaklingum eða félögum séu hærri en tekjurnar, nema þá að efni séu sérlega mikil. En þetta dæmi, sem ég nefndi, gæti vel komið fyrir eftir þessu frv.

Þó ég hafi komið fram með þessar aðfinnslur við frv. þetta, þá er ég samþykkur hugsun frv., sem er, að föst fyrirmæli séu sett um skattstofn til handa bæjar- og sveitarsjóðum. Ég vil því, að frv. þetta gangi til n. Geri ég það með ánægju að greiða því atkv. mitt þangað og í þeirri von, að það megi hljóta þar sæmilegan dauðdaga, eða þá nauðsynlegar lagfæringar.