07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í C-deild Alþingistíðinda. (1893)

91. mál, sveitargjöld

Sigurður Eggerz:

Það eru aðeins örfá orð. Hv. flm. sagði, að í rauninni hefði aths. mín ekki komið málinu við, heldur snerti hún tekjuskattinn. En aths., sem snerta tekjuskattinn, snerta þær ekki þetta mál, þegar hann á einnig að vera gjaldstofn sveitarfélaganna?

Ég tók dæmi þar, sem sýnilegt var, að tekjuskatturinn er ekki réttlátur. Dæmið var um 2 menn með 20 þús. kr. tekjum. Annar skuldaði 20 þús., en hinn átti 20 þús. Ég sýndi fram á, að þeir hafa líkan tekjuskatt, því sá, sem skuldar 20 þús., má að vísu draga vexti af skuldunum frá, en það munar í tekjuskatti ekki nema litlu. Ég geri ráð fyrir, að menn séu mér sammála í því, að það sé ólík aðstaða fyrir þessa 2 menn, annan, sem á, en hinn, sem skuldar 20 þús.

Þegar á að gera tekjuskattinn að aðalskattstofni hjá sveitarfélögunum, þá er eðlilegt, að á þetta sé bent, því að við það tvöfaldast tekju- og eignarskatturinn og ranglætið margfaldast þá í sama hlutfalli. Enn verður þetta meira áberandi, þegar litið er á aðstöðu þess manns, sem hefir t. d. 20 þús. kr. í tekjur 1930, en 1931 5000 kr. Á árinu 1931 þarf hann þá af litlu tekjunum, sem hann hefir, að greiða háa tekjuskattinn frá 1930. Ef nú tekjur sveitanna verða á sama gjaldstofni í þessu tilfelli, þá fer mikið af laununum 1931 í skatta. Ef í þessu tilfelli er lagt á eftir efnum og ástæðum, þá fær maðurinn 1931 væntanlega mjög lítið gjald til sveitar.

Ég hefi nú hlýtt á ræður þessara vitru manna, þar sem þeir eru að rannsaka, hvaða skattar séu heppilegastir og réttlátastir, en engum hefir tekizt að benda á neinn skatt, sem sé gallalaus. En sá galli, sem ég hefi nú um hríð gert að umtalsefni og vakið athygli d. á, er að mínum dómi svo áberandi, að engum ætti að blandast hugur um að greiða atkv. gegn frv. fyrir þá sök. Því fer svo fjarri, að með þessu frv. sé verið að nema burt ranglætið í núv. fyrirkomulagi, — nei, það er verið að lögfesta ranglætið, það er verið að bæta við nýju ranglæti, og hélt ég þó, að nóg væri fyrir af þvílíku og lítil ástæða til þess að bæta við.

Þetta átti nú ekki að vera nema stutt aths., en ég hefi nú sýnt, að það var full ástæða til þess að bera hana fram og vekja athygli væntanlegrar n. á henni. Ýmsar aðrar athuganir leiða það ennfremur í ljós, að skatturinn getur í ýmsum fleiri tilfellum farið fram úr tekjunum, og er þess vissulega vert að leiða athygli manna að slíku.