07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í C-deild Alþingistíðinda. (1894)

91. mál, sveitargjöld

Hákon Kristófersson:

Ég skal ekki vera langorður; ég styð till. hv. 1. þm. S.-M., um að þessu máli verði vísað til allshn., því þar virðist það helzt eiga heima, enda þótt tæplega sé þar að vænta nokkurrar lagfæringar, eins og þar er mönnum skipað í þeirri virðulegu nefnd. Þetta mál virðist ótvírætt eiga að ganga til sömu n. og t. d. útsvarslögin, en þau voru á sínum tíma send til allshn., og hlýtur því sama að gilda um þetta frv.

Það er fjarri mér að gera lítið úr áhuga hv. flm. og hinni mjög svo lofsverðu viðleitni hans til umbóta í þessum efnum. En ég er alveg sannfærður um, að þetta frv., þó að lögum verði, bætir ekki hót úr þeim missmíðum, sem nú eru á skattheimtu bæjar- og sveitarfélaga til sinna þarfa, en eykur á hinn bóginn stórum á skriffinnsku og hverskyns umstang, sem ég hygg þó, að ærið þyki undir. Það er bersýnilegt, hversu hv. flm. er öldungis ráðþrota í því, er lýtur að framkvæmd þessara till., því þar gefst hann upp á miðri leið og leggur til að taka með nefskatti það, sem á vantar, að þessar tekjur, sem frv. fjallar aðallega um, hrökkvi fyrir gjöldum, sbr. 5. gr. frv. Ennfremur leggur hann til að taka vegagjaldið með nefskatti, sem fastákveðinn er fyrir allt landið skv. 2. gr. frv., og er hreppstjórum gert að skyldu að semja skrá yfir verkfæra kvenmenn, og er þeim gert að greiða 3 kr. í vegagjald. Þegar þess er gætt, að vegagjald er eftirstöðvar af eða kemur í staðinn fyrir dagsverkin áður, þá sýnist dálítið hlálegt að vera að leggja slíkar skyldur á kvenfólk, enda munu þess fá dæmi, að kvenfólk hafi unnið í hreppavegavinnu hér á landi, og kann ég hálfilla við þá nýbreytni, ef tekin verður upp.

Mér skilst, að fyrir hv. flm. vaki það, að gera tekjustofna sveitarfélaga vissari en nú er. (HStef: Nei, setja reglur um þá og innheimtu teknanna). Setja reglur! Til hvers svo sem? Hvað skyldi svo sem vinnast við það? Ég býst nú við, að tekjuskattur sveitarfélaga sé ekki sú höfuðsumma, sem hægt sé að byggja niðurjöfnun útsvara á eingöngu, því að ég býst alls ekki við, að þótt tekjuskattur sveitanna sé lítill, þá stafi það af lélegri framkvæmd tekjuskattslaganna. (MT: Það er búskapurinn, sem ber sig illa). Já, sennilega ræður það meiru um, og munum við hv. 2. þm. Árn. allkunnugir þeim hlutum. En það, sem hv. flm. virðist leggja mesta áherzlu á, er að forðast það, sem hann kallar handahóf í útsvarsálagningu og telur öldungis óviðeigandi og óviðunandi. En það er eftirtektarvert, að þegar allt kemur til alls, er það einmitt handahófið, sem er öryggishöfn hv. flm., því á einum stað í grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Væri þar með hægt að koma við leiðréttingu. ef þurfa þætti, á útsvarsálögurnar eins og þær verða eftir reglum frv., á milli gjaldenda innbyrðis í hverju sveitarfélagi að áliti eða mati niðurjöfnunarnefndanna“.

Eftir þessum orðum að dæma er það einmitt niðurjöfnunin, sem á að bæta upp handahóf útsvarsálagningarinnar eins og hún er eftir þessu frv. Þess vegna viðurkennir hv. þm. það, að útsvarsálagningin, eins og hún er nú almennt, sé ekkert handahóf, heldur réttlátasta aðferðin, þegar öll kurl eru til grafar komin. Ég vil taka undir þetta hjá hv. flm., og er ég alveg á sama máli og hv. 1. þm. Skagf. um það, að útsvarsniðurjöfnun hreppsnefnda í sveitum er ekkert handahóf. Þeim getur að vísu yfirsézt í einstökum tilfellum, en annars jafna þær útsvörunum niður eftir því, sem þær vita sannast og réttast, og eru ekki aðrir, sem að jafnaði hafa betri þekkingu á gjaldþoli, efnum og ástæðum sveitunganna heldur en einmitt hreppsnefndirnar. Útsvörum er jafnað niður eftir efnum og ástæðum, en það er alkunnugt, enda rétt og sanngjarnt, að tekið er ekki síður tillit til ástæðna gjaldandans en efna hans. Ég geng út frá, að hv. þm. sé það vel kunnugt, að niðurjöfnunarnefnd eða hreppsnefndir leggja að öðru jöfnu vægar á t. d. ekkjur og þessháttar fólk, eða a. m. k. er þessu svo varið í þeim byggðarlögum, sem ég þekki til í. Ég verð því að álíta, að við niðurjöfnun sé almennt gætt hinnar ítrustu sanngirni, og þeir, sem að því vinna, eru kunnugri högum gjaldendanna en nokkrir aðrir. Ég tek því undir með hv. 1. þm. Skagf. og vil ekki viðurkenna, að hér sé um nokkurt handahóf að ræða. En enda þótt ég geti ekki verið hv. flm. sammála um þetta og önnur meginatriði frv., þá tel ég það alveg sjálfsagt, bæði vegna hv. flm. og málsins sjálfs að láta málið ganga til nefndar, og mun ég greiða atkv. með því. Hinsvegar hefi ég enga trú á framgangi þessa frv., enda get ég ekki séð, að í því felist nokkur leið til þess að losna við það, sem hv. flm. kallar handahóf. Með allri virðingu talað, þá álit ég skattaframtalið yfirleitt sízt minna handahóf en niðurjöfnun hreppsnefnda eða niðurjöfnunarnefnda.

Skal ég svo láta úttalað um málið að þessu sinni. Ég tek undir með hv. flm., að umr. um einstök atriði frv. eigi ekki við við þessa umr., og skal ég því sneiða hjá því. En vel má vera, að ég láti eitthvað til mín heyra við síðari umr., ef mér býður svo við að horfa.