09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í C-deild Alþingistíðinda. (1901)

92. mál, erfðaleigulönd

Hannes Jónsson:

Það getur vel verið ástæða til þess, að ráðstafanir séu gerðar af hálfu þess opinbera í þessu efni. En þess verður jafnframt að gæta, að skerða ekki rétt þeirra manna, er lönd eiga við kaupstaðina.

Mér virðist, sem ýms ákvæði frv. séu mjög athugunarverð og að nauðsynlegt sé að víkja þeim við, áður en frv. verður að l., ef þau forlög eiga fyrir því að liggja. Vil ég leyfa mér að víkja nokkrum orðum að þessum atriðum.

Ég vil þá fyrst leiða athygli manna að því, að samkv. 5. gr. frv. er engum heimilt að fá á leigu til grasræktunar minna land en 2 ha. Tel ég þetta ákvæði mjög varhugavert. Tveir ha. er nægilegt land til að fóðra með 3 kýr, en fjöldi fólks þarf ekki á svo miklu landi að halda, enda verður flestum illkleift að brjóta svo stórt land til ræktunar á ákveðnum tíma, eins og 10. gr. frv. ákveður, að gert skuli. Allur þorri fólks hefir ekkert að gera með stærra land en sem svarar 1– 2 kýrfóðrum, og það er með öllu ástæðulaust fyrir löggjafarvaldið að fara að þvinga menn til að taka stærra land en þeir hafa þörf fyrir.

Sama er að segja um þau ákvæði 5. gr., að land, sem ætlað er til garðyrkju eða alifuglaræktar, megi ekki vera minna en dagslátta. Þurfa fæstir á svo stóru landi að halda í þessu skyni, og gæti því þetta ákvæði valdið því, að þeir, sem fegnir vildu rækta garðávexti, gætu það ekki, vegna þess að þeir verða að taka stærra land til ræktunar en fjárhagur þeirra leyfir.

Þá vil ég benda á það, að frv. gerir ráð fyrir því, að taka megi eignarnámi land af landi þeirra jarða, sem næst liggja kaupstað eða kauptúni, ef svo stendur á, að sveitarfélag eða ríkið eiga ekki land á þessum slóðum. Er gert ráð fyrir því, að sveitarfélögin eða svokölluð landræktarfélög framkvæmi eignarnámið og leigi síðan landið út gegn 5% vöxtum. Hefir þetta ekki lítinn kostnað í för með sér fyrir sveitarsjóðina, sem yrðu að taka lán í þessu skyni og borga 2% í vaxtamismun. Er þetta því tilfinnanlegra fyrir sveitarsjóðina, þar sem frv. að öðru leyti gerir ráð fyrir því, að sveitarsjóðirnir eigi að bera allan kostnað af vegagerð um þessi lönd, framræslu þeirra o. s. frv.

Þá verð ég að drepa á það, að mér finnst réttur landeiganda verða alllítill eftir frv. Fyrst er gert ráð fyrir, að taka megi land hans eignarnámi, og er það hefir verið gert og landið eftir á er tekið til bygginga, nýtur landeigandi í engu góðs af þessu, heldur leigutakinn. Þykir mér þetta öfugt við það, sem vera ætti. Mér finnst í alla staði sanngjarnt, að landeigandi njóti góðs af því, ef land hans stígur í verði frá því, sem var, er það var tekið eignarnámi af honum, eins og það gerir við að vera tekið til bygginga.

Ég hefi þá stiklað á nokkrum þeim atriðum þessa frv., sem ég tel brýna þörf á, að sú n., sem frv. fær til meðferðar, taki til rækilegrar athugunar. Að endingu vil ég svo drepa á eitt atriði, sem ekki er þýðingarminnst, því að þar virðist beinlínis vera um stefnuatriði að ræða hjá mþn. í landbúnaðarmálum. Á ég hér við það ákvæði 18. gr. frv., að sérstökum manni skuli falið eftirlit með þessum erfðaleigulöndum og taki hann laun úr ríkissjóði. Ekki er neitt ákveðið um það, hvað þessi laun eigi að vera há, en ég býst við, að þetta muni hafa ekki lítinn kostnað í för með sér. Þessi maður verður vart látinn vera á þönum fram og aftur um landið, heldur mun hann hafa sína aðstoðarmenn. Ég býst við því, að gera megi því ráð fyrir, að skrifstofukostnaður þessa manns verði mikill. Þetta fyrirkomulag þykir mér ófært, hvernig sem á það er litið. Á að sjálfsögðu að fela Búnaðarfélaginu þetta eftirlit, úr því að á annað borð er verið að hafa það, eða ella að leggja það niður og stofna búnaðarmálaskrifstofu í stjórnarráðinu, sem hafi með mál sem þessi að gera. Hitt nær ekki nokkurri átt, að verið sé að stofna sérstakar yfirstjórnir með hverju einu, sem gert er, eins og mþn. í landbúnaðarmálum virðist hafa að sínu markmiði, því að í hverju frv. sem frá hennar hendi hefir komið, er gert ráð fyrir þessu eða hinu höfðinu til eftirlits með þeim framkvæmdum, sem n. gerir till. um. Má í því sambandi minna á till. n. um, að skipaður verði svokallaður markavörður og sérstök yfirstjórn með laxveiðum. Get ég ekki látið vera að benda á þetta, því að mér þykir þessi stefna n. mjög athugunarverð.