09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í C-deild Alþingistíðinda. (1904)

92. mál, erfðaleigulönd

Pétur Ottesen:

Hér hefir verið bent á nokkur atriði í sambandi við þetta frv., sem nauðsynlegt er, að sú n., sem málið fær til meðferðar, taki til athugunar. Er ég fyllilega samþykkur því, sem um þessi atriði hefir verið sagt, en vil gera nokkrar frekari aths. við frv. en þegar hefir verið gert.

Vil ég þá fyrst benda á það, að samkv. jarðræktarl. geta kaupstaða- og kauptúnabúar fengið land til ræktunar ef þeir óska eftir, a. m. k. ef um kirkju- og þjóðjarðir er að ræða. Og mér skilst einnig, að ákvæði jarðræktarl. nái út fyrir þetta, þannig að þeir, sem rækta vilja, geti fengið land af einstökum mönnum eða félögum, nema hvað frekari skorður eru settar við þessu í jarðræktarl. en í þessu frv., því að samkv. því geta bæjar- og sveitarstjórnir og þessi svokölluðu landræktarfélög tekið eignarnámi óræktuð lönd einstakra manna, sem liggja út frá kaupstöðum, án tillits til þess, hvort eigendur þessara landa hafa hugsað sér að taka þau sjálfir til ræktunar, og eins þó að búrekstur þeirra krefjist þess, að þeir noti löndin til beitar. Ég hefi ekki orðið var við nein ákvæði í frv., sem girði fyrir þetta. Má vera, að það stafi af því, að ég hefi aðeins lesið frv. lauslega yfir. Hefi ég verið veikur undanfarið og því ekki getað kynnt mér þetta svo sem skyldi. En ég hefi sem sagt ekki getað fundið neinar hömlur á eignarnámi lands samkv. frv., þó að slík skilyrði séu fyrir hendi, sem ég drap á, en með jarðræktarl. er girt fyrir þetta. Vænti ég þess því, að sú n., sem þetta mál fær til meðferðar, taki þetta til rækilegrar athugunar.

Þá hefi ég ekki heldur rekið mig á það, að neitt væri kveðið á um það í frv., hve margir þyrftu að vera félagar í þessum landræktarfélögum, svo að mér skilst, að ef t. d. 2 menn mynda slíkt félag með sér geti þeir heimtað, að þeim séu mæld út lönd til ræktunar. Til þess að þessar framkvæmdir komi að nokkrum verulegum notum, er hinsvegar nauðsynlegt, að nokkrir menn a. m. k. standi á bak við þær, og er því ennfremur ástæða til, að n. taki þetta atriði til athugunar.

Í frv. felst allmikil breyt. frá því, sem nú er venja til um erfðafestu. Eins og stendur mun það algengast, að ekkert sé tekið fram um það í erfðaleigusamningum, hversu fer um landið, þegar samningar eru runnir út, og mun það því falla til þess, sem á það á hverjum tíma. Get ég fallizt á, að rétt sé að setja einhver ákvæði til tryggingar því, að þeir menn, sem tekið hafa þessi lönd á leigu og ræktað þau, hafi áframhaldandi not af þessum verðmætum, sem þeir hafa skapað. Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi lönd gangi í erfðir í ætt leigutaka. Þykir mér þar of langt gengið, því að landeigandi hefir meiri rétt í þessu efni en leigutaki, þrátt fyrir þó að verðmæti landsins hafi aukizt við ræktunina og af öðrum ástæðum. Þessi verðmætisaukning kemur eiganda ekki til góða, þegar land hans er metið til eignarnáms. Því að það er þá metið sem hvert annað óræktað land. Þó að ég viðurkenni fyllilega, að réttur leigutaka er ekki nægilega tryggður nú að l., þykir mér frv. að þessu leyti ganga of langt gagnvart þeim mönnum, sem þannig verða að láta land sitt af hendi.

Þykir mér því ennfremur þörf á, að þetta atriði sé tekið til athugunar í n.

Ég býst við því, að fleiri atriði þurfi að taka til athugunar í sambandi við þetta frv. en ég nú hefi rakið. Mér þykir t. d. tvísýnt, hvort rétt sé að ákveða afgjald af þessum löndum 5%. En það er auðvitað alltaf álitamál, hve háa leigu á að ákveða, þar sem þetta á að gilda fyrir framtíðina.

Ég verð að taka undir það með hv. þm. V.-Húnv., að það er eins og sérstakt mark á öllum frv. mþn. í landbúnaðarmálum, að í hverju frv., sem frá hendi n. kemur, er farið fram á það, að stofnuð verði einhver embætti. Í þessu tilfelli, sem hér um ræðir, var þetta þó a. m. k. óþarfi, ekki sízt þar sem hv. flm. hefir nú viðurkennt, að þetta eftirlit eigi að heyra undir Búnaðarfélagið. Og miðað við þann styrk, sem Búnaðarfélagið nýtur úr ríkissjóði, er ekki til of mikils mælzt, þó að það hafi þetta eftirlit með höndum án þess að það fái sérstaka borgun fyrir. Það heildarsamræmi, sem hv. flm. var að tala um, ætti líka að nást bezt með því móti, að þetta eftirlit yrði falið þeim manni, sem á að hafa útmælingarnar á þessum löndum með höndum, því að hann hefir mestan kunnugleika á því, hvernig þessu verður bezt hagað í framkvæmdinni. Ég hygg því, að bezt sé að fela Búnaðarfélaginu þetta eftirlit, og er þá óþarft að gera ráð fyrir að dubba upp nýjan embættismann til þessara starfa.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vil vænta þess, að sú n., sem frv. fær til meðferðar, taki þessi atriði, sem ég hefi bent á, til rækilegrar athugunar. Ég get búizt við því, að rétt sé að setja l. um þetta efni, en þau verður að miða við þær þarfir, sem fyrir hendi eru, og koma þeim sem haganlegast fyrir, svo að ekki sé gengið á rétt eins eða annars í þessu efni.