09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (1916)

94. mál, sauðfjármörk

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég get að mestu leyti látið nægja að skírskota til grg. Ég ætla, að þar sé gerð allrækilega grein fyrir, hvernig þessu máli er háttað. Og það er vafalaust, að flestir hv. dm. hafa kunnugleika á þessu máli, svo að ég þarf ekki að vera fjölorður að þessu sinni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að réttur manna á mörkum sauðfjár er lítill. Grg. þessa frv. sýnir rækilega, hve mikið er um sammerkingar og námerkingar á landinu. Hér á þingi hafa heyrzt raddir um að bæta úr því, en þá hefir strandað á því, að mönnum hefir ekki þótt till. þær, sem komið hafa fram, þannig, að líklegt væri, að markeigendur mundu geta sætt sig við þær. En ég ætla, að með þessu frv. sé siglt framhjá þeim ásteytingarsteinum.

Eftir því, sem fleiri stórár eru brúaðar og greiðari samgöngur verða á milli héraða, því meiri þörf er á, að komið sé skipulagi á þetta mál. En eftir því, sem núgildandi lög mæla fyrir um þetta, má heita, að markeigendum sé enginn réttur tryggður á mörkum sínum. Þess vegna er mikið um sammerkingar, sem eru nú þeim mun bagalegri en fyrr, sem samgöngur eru nú betri en áður og fé á auðveldara með að komast á milli héraða. Það mætti ætla, að menn hefðu nú í seinni tíð sýnt meiri varúð gagnvart sammerkingum en áður. En þær markaskrár, sem síðast hafa verið gefnar út, sýna, að sammerkingum og námerkingum er að fjölga. Námerkingarnar eru ekki miklu betri en sammerkingar. Þó að tvö mörk séu lítið eitt frábrugðin hvort öðru, þá er það oft engu betra en algerð sammerking. Og þar sem óhætt er að segja, að menn hafi talsverðra hagsmuna að gæta í þessum efnum, þá verður þingið að koma skipulagi á það. Þess vegna er þetta frv. fram komið. Með því er ætlazt til, að bætt verði úr þessari brýnu þörf. Hinsvegar treystum við, sem höfum samið frv., okkur ekki til að fullyrða, að við höfum að öllu leyti hitt hér á þá heppilegustu leið, sem unnt er að fá í þessu efni. Við væntum því, að þeir hv. dm., sem kunnugleika hafa í þessu máli, komi fram með till., sem verða megi til bóta.

Okkur, sem höfum undirbúið þetta mál, virtist, að ekki væri mögulegt að ráða bót á þessu máli, nema nokkrir menn væru skipaðir í dóm, sem hefði úrskurðarvald í því, hvernig mörkum skyldi hagað um land allt. Hefði landinu verið skipt niður í viss umdæmi, sem hvert hefði ráðið þessu út af fyrir sig, þá hefði ekki verið hægt að hafa nærri því eins gott skiplag á þessum málum og næstum ómögulegt að koma í veg fyrir sammerkingar.

Ég hirði ekki um að fara út í einstök atriði frv. nú. Ef menn hafa lesið grg. frv., þá hafa menn séð glögga grein gerða fyrir frv.

Þau ummæli hafa verið látin falla hér fyrir skömmu, að mþn. hafi gert sér far um að stofna til óþarfra embætta. En ég minnist þess ekki, að mþn. hafi lagt neitt til, sem aukið hafi kostnað umfram það, sem verið hefir. En ef lagt er til, að framkvæma skuli eitthvert nýmæli, þá er það oftast ekki hægt nema með auknum kostnaði. Og það hefir verið venja n. að líta fyrst og fremst á gagnsemi og þýðingu málsins.

Gjald það, sem í frv. er gert ráð fyrir, að menn greiði fyrir að fá mörk sín prentuð, er nokkru hærra en áður hefir tíðkazt í sumum héruðum, en í öðrum héruðum mun það hafa verið meira, a. m. k. ef sami maður hefir haft fleiri en eitt mark. Ég tel það heldur ekki miklu máli skipta, hvort menn greiða 50 au. meira eða minna á nokkurra ára fresti. Það er vitaskuld algert aukaatriði. Höfuðatriðið í þessu máli er, að gott skipulag geti fengizt á það og mönnum sé tryggður skýlaus réttur á sauðfjármarki sínu. Og ég vænti þess, að landbn., sem ég legg til, að þessu frv. verði vísað til, geri sitt bezta til, að frv. nái fram að ganga, svo að einhver bót verði ráðin á þeirri óreiðu, sem hingað til hefir ríkt í þessu efni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að sinni.