09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í C-deild Alþingistíðinda. (1917)

94. mál, sauðfjármörk

Hannes Jónsson:

Hv. flm., 1. þm. Árn., var með hálfgerðan skæting til okkar, sem viljum fara varlega í því að auka mikið gjöld ríkissjóðs, og ég tek mér það mjög létt. Hv. flm. sagðist ekki geta verið að leggja sig í bleyti til að gera sér grein fyrir, hver útgjaldaauki yrði af þessu frv. Mér kom þessi yfirlýsing hv. þm. ekki á óvart, því hún er mjög í samræmi við stefnu hans og annara þm. Árnesinga fyrr og síðar, sérstaklega hafi verið um það að ræða að veita fé til framkvæmda í héraði þeirra. Þá hefir ekki verið um það hugsað, hvað verkið kostaði, eða hvort héraðið gæti risið undir kostnaðinum að sínum hluta. Niðurstaðan hefir orðið sú, að ríkið borgar brúsann, þegar allt er komið í óefni. Þessi hugsunarháttur, að vilja ekki gera sér grein fyrir kostnaði framkvæmdanna, er fordæmanlegur, þó í smærri málum sé.

Hv. flm. vildi halda því fram, að mþn. hefði ekki komið með neinar þær till., sem hefðu aukin útgjöld í för með sér. Ég býst við, að þetta sé ofmælt. Til þess að sannfærast um það, þarf ekki annað en athuga þetta frv. Í því er gert ráð fyrir það háu gjaldi, sem menn verða að greiða mörkum sínum til birtingar, að það er tvöfalt hærra en áður hefir verið víða um land, a. m. k. í mínu kjördæmi.

Við þetta bætist svo það, að markavörður skal fá 3000 kr. laun auk dýrtíðaruppbótar, og er það embætti nýtt. Hinsvegar finnst mér það einkennilegt, að þeir, sem mörkum safna í hverju héraði, skuli ekki eiga að fá meiri laun fyrir starfa sinn en 10% af markagjaldinu, eins og n. leggur til í frv. Það er áreiðanlegt, að n. hefir reynt að sjá fyrir því, að þeir, sem starfa að markasöfnun úti um sveitir landsins og hafa fengið lítið fyrir starfa sinn, þeir fái ekki neina launahækkun fyrir starf sitt í þágu þessa máls. Hér er dregið af því, sem sýslunefndir hafa ákveðið, að þeir skyldu fá, og mun þó óhætt að fullyrða, að sýslunefndir hafa ekki gengið of langt í því efni.

Hv. flm. þarf ekki að vera með nein gífuryrði í garð okkar, sem viljum draga úr þeim kostnaði, sem stofnað er til að óþörfu. Hann stendur ekki á föstum grundvelli, þegar hann heldur því fram, að mþn. hafi ekki stofnað til mikils kostnaðar. Ég veit ekki, hvað þessi markadómur kemur til með að kosta, en ég get hugsað, að það verði talsvert mikið. Hann þarf að vera allur í Rvík. hvenær sem ný markaskrá á að koma út á prenti, og þegar markaskrá er prentuð á hverju ári, þá verður þetta samfellt starf þessara manna, a. m. k. að vetrinum. Kostnaður við þennan markadóm verður því verulegur.

Ég get ekki annað en kallað það órétt, hvernig skipta skal mörkum milli héraða. Eftir þessu frv. eiga markeigendur að missa rétt til marks síns, ef það er í markaskrá annarar sýslu. T. d. eiga Húnvetningar engan rétt að hafa á þeim mörkum, sem prentuð eru í markaskrá Borgarfjarðarsýslu.

Það gæti nú vel komið fyrir, að einhver maður í Borgarfirði tæki sér mark, sem í heilan mannsaldur hefði átt heima í Húnavatnssýslu. Finnst mér því ekki ofmælt, að Borgfirðingum sé gert nokkuð hátt undir höfði, ef markið er tekið af hinum. Enda mælir allt réttlæti með því, að sá haldi markinu, sem lengst hefir haft það.

Þegar þetta frv. verður lagt fyrir landbn., vildi ég mælast til, að það væri lagfært þar, ef kleift verður. Þó vil ég 52 sérstaklega leggja áherzlu á, að þar verði vendilega athugað, hvort þess sé ekki kostur að sleppa við þann kostnaðarauka, sem samning þeirrar markaskrár, er frv. gerir ráð fyrir, hlýtur að hafa í för með sér.